Laust prestsstarf

27. apríl 2023

Laust prestsstarf

Lágafellskirkja

Biskup Íslands óskar eftir presti til þjónustu við Mosfellsprestakall, Kjalarnessprófastsdæmi.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. ágúst n.k.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022  og starfsreglna um presta nr. 39/2022-2023.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið

Lágafellsókn heyrir ein undir Mosfellsprestakall.

Landfræðileg sóknarmörk eru hin sömu og Mosfellsbæjar á flesta vegu, nema hvað Kjalnesingar allt að Kollafjarðarkleifum eiga kirkjusókn til Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er að að mestu þéttbýli, byggð er dreifðari í Mosfellsdal og upp að Kollafirði.

Í prestakallinu eru tvær kirkjur, Lágafellskirkja og Mosfellskirkja.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við þjóðkirkjuna – biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr.
framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftur því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá þjóðkirkjunni – biskupsstofu.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 898 9701 eða á netfangið hans.al@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 10. maí 2023

Sækja ber rafrænt um starfið hér  á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150-2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, að liðnum umsóknarfresti.

Hér  er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

 

Mosfellsprestakall – þarfagreining

Landfræðileg sóknarmörk eru hin sömu og Mosfellsbæjar á flesta vegu, nema hvað Kjalnesingar allt að Kollafjarðarkleifum eiga kirkjusókn til Mosfellsbæjar.

Lágafellsókn heyrir ein undir Mosfellsprestakall.

Í prestakallinu eru tvær kirkjur, Lágafellskirkja og Mosfellskirkja.

Mosfellsbær er að að mestu þéttbýli, byggð er dreifðari í Mosfellsdal og upp að Kollafirði.

Íbúafjöldi 1. janúar 2023 var 13.430.

Tölur frá 1. des 2022 sýna 6853 íbúa með þjóðkirkjuaðild og 3623 sem standa utan hennar.

Tæplega 3000 íbúar eru börn undir 16 ára aldri.

Kirkjugarðar í Mosfellsbæ eru þrír:

Lágafellskirkjugarður,  eldri- og nýi Mosfellskirkjugarðar.

Messað er hvern helgan dag og er áhersla lögð á lifandi og fjölbreytt helgihald.

Reglulega eru haldnar heilunar-, íhugunar- og bataguðsþjónustur auk tónlistartengdra guðsþjónusta og viðburða.

Mikið er um athafnir í Lágafellskirkju, sér í lagi skírnir og hjónavígslur.

Vinir í Bata eru með öflugt starf í sókninni.

Barna- og æskulýðsstarf er í miklum vexti.

Sumarnámskeið barna hafa verið góð viðbót með barnastarfið.

Foreldramorgnar eru í safnaðarheimilinu.

Söfnuðurinn er í samstarfi við Mosfellsbæ með verkefnið Gaman saman sem er ætlað eldri borgurum í bænum.

Einnig hittist bænahópur í hverri viku í kirkjunni og eru prjónasamverur hálfsmánaðarlega í safnaðarheimilinu.

Prestar safnaðarins eru með helgistundir á dvalarheimilinu Eirhömrum og hjúkrunarheimilinu Hömrum.

Auk þess kenna þeir kyrrðarbæn á meðferðarheimilinu í Hlaðgerðarkoti.

Í Lágafellskókn starfar organisti sem sinnir tónlist í helgihaldi og á dvalarheimili og hjúkrunarheimili.

Við kirkjuna starfar kór Lágafellssóknar.

Auk þess er barnakórsstjóri sem stýrir nýstofnuðum barnakór.

Rekstrarstjóri sinnir rekstri, reikningshaldi og starfsmannahaldi.

Æskulýðsfulltrúi sér um sunnudagaskóla og unglingastarf auk þess sem hann er umsjónarmaður kirkjugarða.

Með honum vinna æskulýðsleiðtogar.

Þar starfar einnig kirkjuvörður sem er umsjónaraðili fasteigna.

Guðfræðingur sinnir kærleiksþjónustu, eldriborgarastarfi og foreldramorgnum.

Prestur þarf að vera fús að taka þátt í eflingu fermingarstarfs en áhugi er í söfnuðinum á að efla enn frekar þann þátt safnaðarstarfsins og því æskilegt að viðkomandi prestur hafi reynslu af þvi að þróa og leiða nýsköpun í fermingarstarfi.

Prestur þarf að hafa brennandi áhuga á endurnýjun helgihalds m.a. með tilliti til málfars helgihaldsins.

Hann þarf að geta tekið þátt í samstarfi um að leiða fram breytingar á helgihaldinu.

Löng hefð er fyrir kyrrðarstarfi hjá Lágafellssókn.

Kyrrðarstarfið mótar mjög helghaldið auk þess sem prestar kirkjunnar kenna kyrrðarbæn á meðferðarheimilinu í Hlaðgerðarkoti og kyrrðarbænarstundir eru vikulega í Lágafellskirkju.

Æskilegt er að prestur hafi reynslu og þekkingu af kyrrðarstarfi.

Prestur þarf að geta sýnt frumkvæði og leiðtogahæfni auk þess að vinna vel með öðrum í teymi.

Hann þarf að hafa samstarfshæfni, drifkraft, lausnamiðaða hugsun, jákvæðni og sveigjanleika.

Umsóknarfrestur til 10.maí 2023

 

 

slg


  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut