Nýr framkvæmdastjóri ÆSKÞ

2. maí 2023

Nýr framkvæmdastjóri ÆSKÞ

Sólveig Franklínsdóttir ásamt Evu Björk Valdimarsdóttur og Margréti Mayu Osti eftir uppskeruhátið í Grensáskirkju

Sólveig Franklínsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar.

Hún tók við starfinu af Jónínu Sif Eyþórsdóttur þann 14. apríl s.l., sem er á leið í ársleyfi.

Sólveig er lærður markþjálfi og hefur undanfarið ár starfað sem æskulýðsfulltrúi í Fossvogsprestakalli ásamt því að stunda nám í guðfræði við Háskóla Íslands.

Sólveig hefur fjölbreytta reynslu af því að starfa með börnum og unglingum.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við Sólveigu og bað hana um að segja frá sjálfri sér.

„Ég bý í Mosfellsbænum, með syni mínum Franklín Erni Kristjánssyni, viðskiptafræðinema við HÍ, ásamt samýlismanni mínum Erni Gunnarssyni, rafeindavirkja.

Með okkur búa tíkin Skvísa og kisurnar Snúður og Snælda.

Ég er að ljúka öðru ári í guðfræði og stefni á að ljúka mag.theol prófi árið 2026.

Ég hef lokið ICF markþjálfanámi auk framhaldsmenntunar í markþjálfun og sem leiðbeinandi við NBI Huggreiningu frá Profectus.

Ég lauk fyrsta ári af BA í heimspeki, hagfræði- og stjórnmálafræði og tók eitt misserisverkefni við Háskólann á Bifröst.

Ég lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum Hraðbraut og árið 1997 tók ég einkaflugmannspróf frá Flugmennt.

Auk þess hef ég stundað nám við Tónlistarskóla Reykjavíkur og Tónmenntaskóla Reykjavíkur í tónfræði og píanóleik.

Undanfarið hef ég starfað á Heilsumiðstöð Reykjavíkur sem meðferðarfulltrúi í markþjálfun, heilun, qigong og dáleiðslu auk þess að halda námskeið og fyrirlestra undir mínu fyrirtækisnafni sem er Auðnuspor.

Ég hef fjölbreytta reynslu af margbreytilegu starfi og félagsstörfum:

Ég er í fulltrúaráði og kjördæmaráði Sjálfstæðisflokks Mosfellsbæjar, fyrrum varabæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Mosfellsbæjar.

Ég sat í þróunar-og ferðamálnefnd árin 2016-2018 og var áheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd bæjarins, formaður foreldrafélags Reykjakots, formaður foreldrafélags Varmárskóla og í skólaráði Varmárskóla.

Ég er skáti í Mosverjum og hef verið virk í félagsstarfi þeirra.

Ég var formaður foreldrafélags Skylmingafélags Reykjavíkur og sat í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík.

Ég var formaður í Æskulýðsfélagiðnu Vinir í Bústaðakirkju á árunum 1981-1985.

Helstu áhugamál mín eru náttúran, umhverfið, útivist, ferðalög og dýralíf, tónlist, dans, guðfræði og ólympískar skylmingar, lestur góðra bóka, handverk, mannlífið, menning, sjálfsrækt, æskulýðsmál, trúmál og lýðheilsa.“

Hefurðu starfað í kirkjunni?

„Já.

Í vetur hef ég starfað sem æskulýðsfulltrúi í Fossvogsprestakalli auk þess að hafa starfað við barnastarf og sunnudagaskóla Hallgrímskirkju frá haustinu 2021.“

Af hverju hefur þú áhuga á æskulýðsmálum?

„Frá því ég var unglingur og var sjálf þátttakandi í æskulýðsstarfi hef ég ætíð haft mikinn áhuga á æskulýðsmálum.

Ég hef einnig starfað mikið með börnum og ungmennum í gegnum tíðina á ýmsum vettvangi og hef einstaklega gaman af því að starfa með unga fólkinu, sem er fullt af orku, hugmyndum, hreinskilni og einlægni og hefur gaman af því að leika sér.

Þessir kostir eru virkilega skapandi og drífandi og veita manni innblástur og hlýju í hjartað.“

Hver er framtíðarsýn þín?

„Framtíðarsýn mín er fögur.
Ég er yfirleitt alltaf jákvæð, því það veitir mér fleiri og betri valmöguleika heldur en neikvæðnin.

Sem markþjálfi hef ég valið að dvelja í möguleikavíddinni fremur en hræðsluvíddinni.

Ég er engu að síður jarðundin um leið og mitt mottó er að engin ósk sé svo stór að hún geti ekki orðið að veruleika.

Fleiri virk æskulýðsfélög og fleiri starfandi og glaðir æskulýðsfulltrúar er alveg raunsæ framtíðarsýn.“

Hvað finnst þér að kirkjan eigi að gera núna í barna- og æskulýðsmálum?

„Í æskulýðsmálum sé ég fyrir mér að virkja betur allt æskulýðsstarf innan þjóðkirkjunnar og mun beita mér fyrir því að æskulýðsmálin fái meira rými.

Til þess þarf að setja meira fjármagn í æskulýðsmálin og ekki bara hvetja sóknir til þess að sinna æskulýðsmálum, heldur hreinlega gera þá kröfu til safnaðanna að setja æskulýðsmálin í fyrsta sæti hjá sér og ráða til sín vel menntaða og þjálfaða æskulýðsfulltrúa, gera við þá ráðningarsamninga og greiða þeim viðeigandi laun.

Ég geri mér þó grein fyrir því að það eru mismunandi aðstæður hjá sóknum landsins.

Hins vegar þarf að efla til muna starfið þar sem forsendur eru góðar fyrir æskulýðsstarf.

Eins langar mig að sjá kirkjuna vera í forsvari fyrir því að beita sér markvisst að því að lægja öldur ofbeldismála hjá ungu fólki, með því að veita þeim vin í æskulýðsstarfi kirkjunnar.

slg


  • Kirkjustarf

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Starf

  • Æskulýðsmál

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta