Laust prestsstarf

25. september 2024

Laust prestsstarf

Breiðholtskirkja - miðstöð þjónustu kirkjunnar við innflytjendur

Biskup Íslands óskar eftir presti innflytjenda til þjónustu í þjóðkirkjunni.

Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf þann 1. janúar 2025.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

 

Prestur innflytjenda

Vísað er til þarfagreiningar varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Sækja ber rafrænt um starfið á hér á vefnum  og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. 

Þjóðkirkjan hvetur öll kyn til að sækja um starfið.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.

Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.

Sr. Bryndís Malla Elídóttir, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 892 2891 eða á netfangið bryndis.malla.elidottir@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni s. 528 4000, eða á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 9. október 2024.

Þarfagreining

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands eru nú um 20% af íbúum landsins af erlendum uppruna eða um 63 þúsund manns.

Mikil fjölgun innflytjenda auðgar fjölmenningu landsins og fjölbreytileika, auk þess að styðja við efnahagslífið en fjölguninni fylgir einnig ýmis vandamál eins og fordómar og mismunum í garð innflytjenda.

Prestur innflytjenda hefur starfað í þjóðkirkjunni frá árinu 1996 og var öðru stöðugildi prests innflytjenda bætt við árið 2021.

Prestar innflytjenda tilheyra sérþjónustu þjóðkirkjunnar og leiða Alþjóðlega söfnuðinn sem hefur aðsetur í Breiðholtskirkju í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.

Alþjóðlegi söfnuðurinn er aðal starfsvettvangur presta innflytenda en þjónustusvið þeirra nær einnig út fyrir söfnuðinn.

Prestar innflytjenda eiga að leitast við að þjóna öllum innflytjendum og flóttafólki sem óskar eftir aðstoð.

Þeir eiga að gera það á raunsæjan hátt í samvinnu við aðra presta, söfnuði, stofnanir eða samtök sem eiga hlut að máli.

Grunnatriði og markmið starfs prests innflytjenda er:

Að hjálpa innflytjendum að aðlagast íslensku samfélagi og fræða og upplýsa bæði innflytjendur og Íslendinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir fordóma sem kunna að vera á milli þeirra.

Að tala við fólk sem á í erfiðleikum og veita sálugæslu eða ráðgjöf.

Að veita upplýsingar um kristna trú og kirkju.

Að sjá um messur, bænastundir og aðra prestsþjónustu.

Að vera málsvari innflytjenda og flóttafólks.

Prestar innflytjenda skipuleggja nánara starf sitt í samræmi við  Stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta, sem var samþykkt í kirkjuþingi árið 2021.

Gerður verður samstarfssamningur milli prestanna.

 

Starf í Alþjóðlega söfnaðuðinum:

Alþjóðlegi söfnuðurinn er móttökusöfnuður innflytjenda og flóttafólks á vegum þjóðkirkjunnar og hefur aðsetur Breiðholtskirkju.

Sr. Toshiki Toma gegnir sambærilegri stöðu gagnvart söfnuðinum og sóknarprestur.

Messur Alþjólega safnaðarins eru alla sunnudaga kl. 14:00.

Góð þátttaka er jafnan í guðsþjónustunum, að meðaltali mæta um 35 manns, en um 120 - 150 manns eru á skrá hjá söfnuðinum.

Guðþjónusturnar fara aðalega fram á ensku.

Hátt hlutfall Írana er í söfnuðinum og því er notast við forritið AI sem túlkar jafn óðum.

Sunnudagaskóli Alþjóðlega safnaðarins er á sama tíma og guðsþjónusturnar og eru þátttakendur næstum því allir börn fólks sem sækir guðsþjónustur safnaðarins.

Hátt í 15 börn mæta oft í sunnudagaskólann og stefnt er að því að bjóða börnum í hverfinu einnig að koma og taka þátt.

Prestar innflytjenda annast reglulega skírnarfræðslu og mjög oft er óskað eftir skírn fullorðinna í söfnuðinum.

Prestar innflytjenda hafa skírt um 100 manns og eru 90 % þeirra fullorðin.

Prestar innflytjenda bjóða upp á fræðslukvöld yfir vetrarmánuðina með ákveðnu þema tengt kristinni trú.

Fjögur fræðslukvöld hafa verið bæði fyrir og eftir áramót.

Stefnt er að enn frekara starfi á komandi misserum.

 

Viðbótarskylda í þjónustu við Breiðholtsprestakall

Staða prests innflytjenda sem hér er auglýst er með 30% skyldu við Breiðholtssöfnuð, sem felast m.a. í að:

Leiða kyrrðarstund í hádeginu á miðvikudögum Breiðholtskirkju og taka þátt í starfi eldri borgara eftir kyrrðarstundina.

Messa í Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju einu sinni í mánuði eftir nánara samkomulagi við sóknarprest Breiðholtsprestalkalls.

Styrkja samskiptin milli Breiðholtsprestakalls og Alþjóðlega safnaðarins og móta sameiginlegt helgihald með fjölbreyttum hætti.

Gert er ráð fyrir því að presturinn muni gegna þar lykilhlutverki.

 

Starf utan Alþjóðlega safnaðarins:

Prestar innflytjenda eru framkvæmdaraðili Stefnu þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda og fólks á flótta.

Viðkomandi þarf að hafa eigið frumkvæði að því að leita eftir góðum samskiptum við aðra söfnuði sem vilja taka á móti innflytjendum og/eða flóttafólki.

Brýnt er að auka samskipti við söfnuði á höfðuborgarsvæðinu og skipuleggja frekari samvinnu.

Reglulegt helgihald er einnig í Ytri-Njarðvíkurkirkju sem prestur innflytenda sér um.

Leitað er að presti sem hefur:

Ríka hæfni í mannlegum samskiptum.

Góð tök á enskri tungu.

Vilja og dugnað til að vinna eftir stefnumótun þjóðkirkjunnar í málefnum innflytjenda, hælisleitenda og fólks á flótta.

Frumkvæði að því að auka fjölbreytni í starfi Alþjóðlega safnaðarins þar sem mörg ólík þjóðerni koma saman til helgihalds og safnaðarstarfs.

Metnaður til að ná árangri í starfi.

Þjónustu við innflytjendur og flóttafólk er í stöðugri þróun og skilyrði að viðkomandi hafi mikinn áhuga á málefninu.

Skapandi framtíðarsýn.

Sterka réttlætiskennd.

Reynslu eða menntun í sálgæslu.

 

slg


  • Barnastarf

  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Æskulýðsmál

Biskup Íslands með Litlu gulu peysuna

Biskup Íslands prjónaði Litlu gulu peysuna

04. okt. 2024
...Litla gula peysan prjónuð í Langholtskirkju til styrktar Lífsbrú
Jónas og Hallveig

Bleikur október byrjar vel

04. okt. 2024
...í Bústaðakirkju
Seltjarnarneskirkja

Mikið um að vera í Seltjarnarneskirkju í október

04. okt. 2024
...Seltjarnarnessókn 50 ára