Heilsuefling eldra fólks
Eldriborgararáð Reykjavíkujrprófastsdæma blæs til málþings mánudaginn 14. október kl. 13:00 til 15:00 í Grensáskirkju.
Að sögn sr. Báru Friðriksdóttur verkefnastjóra Eldriborgararáðsins hafa þau fengið vandaða fyrirlesara á sviði heilsueflingar og farsældar.
Málþingið er ætlað þeim sem koma að eldriborgarastarfi, fulltrúum eldriborgarastarfs frá sóknunum og öðrum sem áhuga hafa.
„Þjóðin eldist hratt og mikilvægt er að efla lýðheilsu eldra fólks.
Í því felst tvöfaldur ávinningur, betri líðan og heilsa aldraðra og minni þörf fyrir inngrip yfirvalda sem léttir á kostnaði samfélagsins“ segir Bára.
„Þegar unnið er að forvörnum og heilsueflingu í eldriborgarastarfinu þá er gengið í takt við lýðheilsuhugsun á landsvísu.
Það eflir eldri borgarana og styrkir um leið samfélagið.
Þess vegna tel ég fyrir hönd Eldriborgararáðs að mikilvægt sé að við fléttum einhverskonar líkamsrækt og hreyfingu inn í starfið.
Þetta er langtímaverkefni.
Málþingið er hugsað sem kröftug uppörvun fyrir okkur í þá átt.
Eldriborgararáðið hefur fengið kanónur og þau bestu á sínu sviði til að gefa okkur innblástur til að styrkja gott eldriborgarastarf og gera það enn betra“
segir Bára.
Meðal fyrirlesara er dr. Janus Guðlaugsson.
Janus lauk doktorsprófi í íþrótta og heilsufræðum frá Háskóla Íslands árið 2014 þar sem hann varði doktorsritgerð sína; Multimodal Training Intervention – An Approach for Successful Aging (Fjölþætt heilsuefling eldri aldurshópa – Leið að farsælum efri árum).
Janus starfaði við rannsóknir og kennslu sem lektor við Háskóla Íslands til ársins 2016 þegar hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki; Janus heilsuefling slf.
Fyrirtækið er ráðgjafa og þjónustufyrirtæki sem vinnur að bættri heilsu og betri lífsgæðum einstaklinga þar sem helsta markmiðið er að koma á fót markvissri heilsueflingu í samfélaginu með lýðheilsutengdu inngripi sem byggt er á gagnreyndum aðferðum.
Verkefnið hefur verið innleitt frá árinu 2017 í átta sveitarfélögum víðs vegar um landið, auk þess sem það er starfrækt á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri án tengsla við viðkomandi sveitarfélög.
Annar fyrirlesari er dr. Bergþóra Baldursdóttir, sjúkraþjálfari.
Nefnir hún erindi sitt Jafnvægi og jafnvægisþjálfun.
Í þessum fyrirlestri mun Bergþóra Baldursdóttir fjalla um jafnvægisstjórnun, aldurstengdar breytingar á jafnvægi og mikilvægi þess að þjálfa jafnvægið sérstaklega með hækkandi aldri.
Dr. Bergþóra Baldursdóttir er sérfræðingur í öldrunar og jafnvægissjúkraþjálfun.
Hún starfar á byltu og beinverndarmóttöku á Landakoti og er verkefnastjóri byltuvarna á Landspítala.
Jafnframt sinnir hún stundakennslu við læknadeild Háskóla Íslands.
Viðfangsefni hennar í rannsóknum, kennslu og klínísku starfi hafa tengst jafnvægisstjórnun, þjálfun jafnvægis og forvörnum byltna.
Þá talar Ragnheiður Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari og öldrunarfræðingur í erindi sem hún nefnir Farsæld eldra fólks.
Ragnheiður vinnur hjá Sjúkratryggingum Íslands.
Hún starfaði um árabil sem yfirsjúkraþjálfari á Hrafnistu, Laugarási og vann að heilsueflingu eldra fólks.
Hún skrifaði lokaverkefni í öldrunarfræðum um Farsældarþing sem haldið var hjá eldriborgurum árið 2011.
Hún mun tala um farsæld í víðum skilningi.
slg