Skipurit

Hér getur komið texti

Biskup
Vígð þjónusta
Fræðsla & Kærleiksþjónusta
Stoðþjónusta
Fjármál
Skrifstofustjóri
Biskupsritari
Biskupsstofa er þjónustu- og þekkingarmiðstöð, starfrækt af biskupi Íslands í því skyni að rækja þjónustuskyldur biskupsembættisins og eftirlitshlutverk. Hlutverk Biskupsstofu er umfram allt að hvetja og styðja söfnuði, presta og stofnanir kirkjunnar til að sækja fram í starfi og þjónustu. Biskupsstofa sinnir m.a. í því skyni fræðslumálum, málefnum er varða kærleiksþjónustu, guðfræði og þjóðmál, kirkjutónlist og helgihald, samskipta- og upplýsingamálum og samkirkjutengslum. Þekkingar á þessum sviðum er stöðugt aflað og henni miðlað. Biskupsstofa annast almennt fyrirsvar vegna Þjóðkirkjunnar og sameiginlegra mála hennar, þ.m.t. almannatengsl, samskipti og samstarf við hinar ýmsu stofnanir svo og erlend samskipti. Biskupsstofa er vinnuveitandi presta þjóðkirkjunnar. Biskupsstofa gegnir margháttuðu hlutverki við stjórnun og reikningshald kirkjunnar, og veitir sóknum, sjóðum og stofnunum kirkjunnar ýmsa þjónustu í því sambandi.
Biskup Íslands er forstöðumaður Biskupsstofu. Skrifstofustjóri annast um daglega yfirstjórn og ber jafnframt ábyrgð á daglegum rekstri stofunnar. Biskup hefur sér til aðstoðar biskupsritara auk þess sem vígslubiskupar á Hólum og í Skálholti annast þau biskupsverk sem biskup felur þeim.
Biskupsstofu er skipt upp í fjögur fagsvið til að styðja við biskupsþjónustu við söfnuði og aðra kirkjulega aðila. Hverju sviði er stjórnað af sviðsstjóra, sem ábyrgist gagnvart biskupi að verkefnum sviðsins sé sinnt í samræmi við gildandi viðmið og reglur hverju sinni og þá forgangsröð sem biskup ákveður. Auk innbyrðis samstarfs á Biskupsstofu er hvert svið í samstarfi við þær aðrar skipulagsheildir, stjórnvöld og nefndir kirkjunnar sem tengjast starfsemi sviðsins, svo og erlendu samstarfi eftir atvikum. Öll sviðin afla þekkingar á málasviðum sínum varðveita hana, fræða og miðla. Nýsköpun og þróun eru mikilvæg verkefni hjá hverju sviði.
Sviðið fylgir eftir gildandi fræðslustefnu og kærleiksþjónustustefnu þjóðkirkjunnar hverju sinni. Samkirkju- og kristniboðsmálum er einnig sinnt á sviðinu. Sviðið sinnir margháttaðri fræðslu um kirkju og kristni við söfnuði kirkjunnar, starfsmenn, sjálfboðaliða og aðra. Sviðið starfrækir rafræna efnisveitu kirkjunnar, annast útgáfu margvíslegs fræðsluefnis og námskeiða- og fyrirlestrahald um land allt. Sviðið styður og samræmir heildstætt, fræðslu vegna málefna annarra sviða. Sviðið er í samstarfi við prófasta landsins um staðbundna fræðslu. Enn fremur er sviðið í samstarfi við allsherjarnefnd kirkjuþings og kirkjustarfshóp kirkjuráðs og Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfuna, sem er útgáfufyrirtæki þjóðkirkjunnar. Fræðslu- og kærleiksþjónustusvið er í samstarfi við samfélags- og fræðslunefnd Þjóðkirkjunnar, kristniboðs- og hjálparstarfsnefnd, samkirkjunefnd og samstarfsnefnd kristinna trúfélaga.
Sviðið fer með málefni hinnar vígðu grunnþjónustu Þjóðkirkjunnar í sóknunum og þróun hennar. Sviðið annast um að fullnægjandi vígð þjónusta sé ávallt í boði í sóknum landsins og öðrum þjónustustöðum og að innri samþykktum kirkjuþings sé fylgt eftir á fullnægjandi hátt. Þjónustan sé aðlöguð aðstæðum og góðum venjum. Veitt er ráðgjöf og stuðningur sóknum og vígðum þjónum um hvaðeina er varðar hina vígðu þjónustu þ.e. helgihald, litúrgíu og söngmál. Sviðið þjónar helgisiðanefnd, kenningarnefnd og períkópunefnd og sér um að fylgja þeim ákvörðunum nefndanna eftir sem sviðinu er falið. Sama á við um tímabundnar nefndir sem kunna að verða skipaðar um málefni vígðrar þjónustu. Á sviðinu er fylgt eftir tónlistarstefnu kirkjunnar og stuðningur og ráðgjöf vegna söngmála er veitt. Sviðið veitir faglega ráðgjöf á forsendum vígðrar þjónustu vegna kirkjubygginga, kirkjugripa og kirkjulistar. Sviðið er í nánu samstarfi við önnur svið á Biskupsstofu og Tónlistarráð kirkjunnar.
Sviðið annast um fjármál Biskupsstofu og er undir stjórn fjármálastjóra. Sviðið veitir sömuleiðis kirkjuráði þjónustu vegna kirkjumálasjóðs, kristnisjóðs, jöfnunarsjóðs sókna og annarra sjóða, kirkjugarðaráði vegna Kirkjugarðasjóðs, Skálholtsstað, Skálholtsskóla. Strandarkirkju, Tónskóla þjóðkirkjunnar og Hinu íslenska biblíufélagi. Helstu verkefni eru aðstoð við fjárhagsáætlanagerð, eftirfylgni og endurskoðun áætlana, upplýsingagjöf til stjórnenda og ábendingar. Séð er um bókhald og ársreikningagerð fyrir framangreinda aðila, gjaldkeraþjónustu og launamál. Sviðið annast um fjármálaráðgjöf og þjónustu við sóknir, gerir kostnaðarumsagnir um kirkjuþingsmál, annast samskipti við Dómsmálaráðuneyti, Fjársýslu ríkisins og Ríkisendurskoðun og sinnir öðrum skyldum verkefnum. Sviðið er í samstarfi við fjárhagsnefnd kirkjuþings og fjármálahóp kirkjuráðs.
Stoðþjónusta er stoðeining sem heyrir beint undir skrifstofustjóra. Þar er sinnt mannauðsmálum, vegna presta og annarra starfsmanna Biskupsstofu. Sviðið sér til þess að embætti og störf séu á hverjum tíma mönnuð, annast um velferð starfsmanna og að almennum starfsskyldum sé sinnt. Einnig að sjá um skipulagningu starfsmannafræðslu, starfsþjálfunar og námskeiða.
Lögfræði- og stjórnsýsluráðgjöf er veitt af sviðinu, einkum til biskups, sókna og annarra kirkjulegra aðila.
Skjalamál og bókasafn Biskupsstofu falla einnig undir sviðið svo og upplýsingatækni. Þau fasteignamál sem undir biskup heyra falla einnig undir þetta svið. Almennt skrifstofuhald fellur undir þetta svið, ritaraþjónusta, móttaka, símavarsla, og mötuneyti.
Sérstök verkefni falla almennt undir sviðið, sé annað ekki ákveðið, s.s. gæðamál, átak í gerð og skráningu verkferla, innra eftirlit, persónuvernd, hagtölur, umhverfismál o.fl.
Ýmis önnur verkefni ótalin falla sömuleiðis undir sviðið.