Sálmar

Sálmur 937

 • 1. Draumanna höfgi dvín,
 • dagur í austri skín,
 • vekur mig,
 • lífi vefur
 • mjúka mildings höndin þín.
 • 2. Dagleiðin erfið er,
 • óvíst hvert stefna ber,
 • leið mig
 • langa vegu
 • mjúka mildings höndin þín.
 • 3. Sest ég við sólarlag,
 • sátt er við liðinn dag,
 • svæfir mig
 • svefni værum
 • mjúka mildings höndin þín.
Eygló Eyjólfsdóttir

Sálmur 938

 • Ég er hjá þér, ó, Guð,
 • sem barn hjá blíðri móður,
 • sem lítill fugl á mjúkri mosasæng.
 • Ég er hjá þér, ó, Guð,
 • já, þú ert hér, ó, Guð,
 • og nóttin nálgast óðum.
 • Ef þú ert hér,
 • þá sef ég sætt og rótt.
Margareta Melin – Kristján Valur Ingólfsson

Sálmur 939

 • 1. Angi hvílir undir sæng
 • og ennið skreytir lokkur.
 • Breiddu yfir verndarvæng,
 • vertu, Guð, með okkur
 • þegar syrtir sálu í
 • svo að betur megum
 • vernda börnin, brosmild, hlý,
 • það besta sem við eigum.
 • Nú opna ég óðum gluggann minn
 • engli blíðum hleypi inn.
 • 2. Húsið sveipast helgum frið
 • héluð borgin sofnar.
 • Á kerti núna kveikjum við,
 • kvöldsins birta dofnar.
 • senn er komin niðdimm nótt,
 • næðir rok um hjarnið.
 • Engill flýgur ofur hljótt
 • yfir litla barnið.
 • Nú opna ég óðum gluggann minn
 • engli blíðum hleypi inn.
Gerður Kristný

Sálmur 940

 • [1] Nú vil eg enn í nafni þínu,
 • náðugi Guð sem léttir pínu,
 • mér að minni hvílu halla
 • og heiðra þig fyrir gæsku alla
 • [2] þáða af þér á þessum degi,
 • því er skylt eg gleymi eigi.
 • En það má eg aumur játa,
 • angri vafinn sýta og gráta,
 • [3] móðgað hef eg margfaldlega
 • mildi þína guðdómlega.
 • Útslétt mínar syndir svartar,
 • sundurkramið lækna hjarta.
 • [4] Þá mun ásókn illra anda
 • ei hið minnsta kunna að granda.
 • Lát mig þenkja á þessu kvöldi
 • það eg lifi i veiku holdi,
 • [5] brothætt gler og bólan þunna
 • brotna senn og hjaðna kunna.
 • Þú einn, Guð, skalt þar um ráða
 • þínar kný eg á dyr náðar
 • [6] af míns hjarta innsta grunni
 • andvarpa og bið með munni.
 • Þegar eg skal seinast sofna
 • sál viðskilur, fjörið dofnar,
 • [7] hjartans faðir, í hendur þínar
 • hverfa lát þá öndu mína.
 • Hold í jörðu hægt lát blunda
 • helgra svo þar bíði funda
 • [8] og upprisinn að eg víki
 • inn með þér í himnaríki.
 • Þar mun eg þúsund þakkir færa,
 • þér sé lofgjörð, prís og æra. Amen.
Hallgrímur Pétursson

Sálmur 941

 • Dagur er liðinn, dimmir furðu skjótt.
 • Allir góðir englar vaki
 • yfir þér í nótt .
 • 2. Vindinum kalda verður bráðum rótt.
 • Allir góðir englar vaki
 • yfir þér í nótt.
 • 3. Hugurinn reikar, hjartað slær svo ótt.
 • Allir góðir englar vaki
 • yfir þér í nótt.
 • Sælt er að geta sofnað vel og fljótt.
 • Allir góðir englar vaki
 • yfir þér í nótt.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Sálmur 942

 • 1. Ég vil dvelja í skugga vængja þinna
 • ég vil þiggja þann frið er færir þú.
 • Nóttin kemur en ég mun ekki hræðast
 • er ég dvel í skugga vængja þinna.
 • :,: Í skugga, í skugga, í skugga vængja þinna.:,:
 • 2. Undir vængjum hans má ég hælis leita,
 • trúfesti hans er skjöldur minn.
 • Örvar fljúga, en ég mun ekki hræðast
 • er dvel í skugga vængja þinna.
 • :,: Í skugga, í skugga, í skugga vængja þinna.:,:
Slm 17.8; 91.1-5 – Cathy Spurr – Gunnar Böðvarsson

Sálmur 943

 • 1. Láttu nú ljósið þitt
 • loga við rúmið mitt,
 • hafðu þar sess og sæti,
 • signaður Jesús mæti.
 • 2. Eins láttu ljósið þitt
 • lýsa í hjarta mitt,
 • skína í sál og sinni,
 • sjálfur vaktu þar inni.
 • 3. Lát húmið milt og hljótt
 • hlúa að mér í nótt
 • og mig að nýju minna
 • á mildi arma þinna.
 • 4. Eg fel minn allan hag
 • einum þér nótt sem dag,
 • ljósið af ljósi þínu
 • lifi í hjarta mínu.
1. vers gömul bæn, 2.-4. vers Sigurbjörn Einarsson

Sálmur 944

 • Kvöldsins hljóðnar kliður.
 • Kemur friðsæl nótt
 • yfir skóg og akra.
 • Allt er kyrrt og hljótt.
 • Áfram áin niðar,
 • aldrei nóg hún fær.
 • Ann sér engrar hvíldar
 • uns til sjávar nær.
 • Líkt og elfan ertu
 • æ, mitt hjarta, þreytt.
 • Friðlaus leit að fjarska,
 • finnur hvergi neitt.
 • Aðeins Guð einn veitir
 • öllum hvíld hjá sér.
 • Friðar óró alla.
 • Eilíft lof sé þér.
Kristján Valur Ingólfsson

Sálmur 945

 • 1. Sjá vorsins bjarta veldi
 • úr viðjum leysa jörð.
 • Það lauf, sem frostið felldi
 • í freðinn vetrarsvörð,
 • rís upp á yngdum kvisti
 • við yl frá vorsins sól.
 • Já, allt rís upp með Kristi
 • sem áður féll og kól.
 • 2. Sjá ljóssins tökin ljúfu
 • sem lesa dauðans ís.
 • Hvert blóm, hvert blað á þúfu,
 • er bros frá Paradís
 • því hann sem dauðann deyddi
 • í deiglu kærleikans
 • það ljós til sigurs leiddi
 • sem leysir sköpun hans.
 • 3. Lát vorsins vald þig styrkja
 • og vekja söng og þor.
 • Þann dag steig Drottins kirkja
 • af dauða fram sem vor
 • er lýst af páskaljóma
 • hans líf reis upp af gröf.
 • Því láti lofgjörð hljóma
 • allt líf, hans dýra gjöf.
Knut Ödegård – Sigurbjörn Einarsson