Sálmar

Sálmur 946

 • 1. Nú strýkur vorið völl og dal
 • svo vökna brár í fjallasal.
 • Nú lifna grös um laut og börð
 • sjálft lífið vekur freðna jörð.
 • 2. Heyr farfuglanna kvæðaklið,
 • er kría, tjaldur bregða við,
 • með gleðiraust og söngvaseim
 • úr suðurlöndum snúa heim.
 • 3. Sú fagra fuglaparadís
 • hún flytur Guði lof og prís
 • og syngur ljóð um líf og vor
 • svo léttir yfir hverri skor.
 • 4. Og fagna má sem fugl í söng
 • við ferðalok í jarðarþröng
 • sá er þú leiddir langan veg.
 • Ó, lífsins Guð, þig tigna ég.
Marteinn Lúther - T.N. Djurhuus - Kristján Valur Ingólfsson.

Sálmur 947

 • Öll góð og öll fullkomin gjöf er frá þér,
 • þú gjafarinn eilífi, fyrir mér sér.
 • Ég meðtek sem ástgjöf hvern einasta verð,
 • með auðmýkt og hjarta míns þakklætisgerð.
Steinn Sigurðsson

Sálmur 948

 • Þar sem Drottinn ber á borð
 • blessun streymir niður.
 • Þar sem hljómar himneskt orð
 • helgur ríkir friður.
 • Fyrir allt sem mettar mann
 • miklum ríka gjafarann.
 • Lof og dýrð sé Drottni.
Steinn Sigurðsson

Sálmur 949

 • Minn Guð, blessa allt okkar brauð.
 • Gef þú öllum þeim sem hungrar brauð þitt
 • en hungur réttlætis þeim sem nóg eiga brauð.
 • Minn Guð, blessa allt okkar brauð.
Frederico Pagura – Kristján Valur Ingólfsson.

Sálmur 950

 • 1. Guð sem í árdaga oss reisti bústað á jörðu,
 • kallaði ljósið frá myrkri, landið úr sævi,
 • skapaði Ísland með eldi.
 • Þjóð vor hin íslenska alin hjá Þingvallabergi
 • valdi sér leiðsögn í Kristi, kölluð af honum,
 • þáði hans líf sér til lausnar.
 • Guðs andi heilagi, heyr þú er kirkja þín biður:
 • Kom þú í Orði og mætti, endurnær börn þín,
 • umskapa lýð þinn sem landið.
Kristján Valur Ingólfsson.

Sálmur 951

 • 1. Er Kristur helgaði land og lýð
 • fór ljós og ilmur um strönd og hlíð,
 • þá gladdist hvert strá sem Ísland ól
 • og lofaði lífsins sól.
 • 2. Þá sungu vindarnir vorsins óð
 • um vonanna ríki, nýja þjóð,
 • og daggir minntust við dal og tind,
 • sem tilbáðu lífsins lind.
 • 3. Og ljósið breiddist um berg og völl,
 • þá brostu íslensku djásnin öll,
 • þar geislaði þökk og gleði lands,
 • sem orðið var óðal hans.
 • 4. Hans mark er dregið í heiðið hátt,
 • á hvítan jökul og fjallið blátt,
 • í rauða glóð og hvern geislakrans
 • frá draumum og dul vors lands.
 • 5. Sjá, náð hans skín gegnum norðurljós,
 • hans nafn er á björk og engjarós,
 • allt líf og sú von sem Ísland á
 • er geisli hans huga frá.
 • 6. Vort landið hrjúfa með heiðar brár
 • skal hans um ókomin þúsund ár,
 • hvert barn sem fæðist er bæn og þrá,
 • og svarið er honum hjá.
 • 7. Og farsæld, blessun, hins frjálsa lands
 • er fánans bæn, sem er merki hans,
 • þess konungs sem Ísland kaus og laut
 • í frelsi sem förunaut.
 • 8. Nú syngja vindarnir vorsins óð
 • um vonanna ríki, kristna þjóð,
 • og daggir Guðs kyssa dal og tind.
 • Vér bergjum á lífsins lind.
Sigurbjörn Einarsson

Sálmur 952

 • Ó, Guð, vor líkn um liðna tíð,
 • vor lífsvon fram um braut,
 • vort athvarf þegar æðir hríð
 • og eilíft verndarskaut.
 • 2. Við hástól þinn með hlýðið geð
 • var helgra manna líf.
 • Þinn armur getur öllum léð
 • þar öruggt skjól og hlíf.
 • 3. Því fyrr en risu fjöll úr sæ
 • og foldin hlaut sitt mót,
 • þú varst, ó, Guð, og verður æ
 • þótt valt sé tímans rót.
 • 4. Hvert aldaþúsud er hjá þér
 • með andartaksins brag
 • sem morgunstund er bjarma ber
 • og boðar nýjan dag.
 • 5. Líkt straumi tíminn stríður ber
 • hvert stopult mannslíf fjær.
 • Sem glit af draumi gleymt það er
 • þá glóir morgunn skær.
 • 6. Ó, Guð, vor líkn um liðna tíð,
 • vor lífsvon fram um braut.
 • Ver athvarf heims er æða stríð
 • og eilíft verndarskaut. Amen.
Isaac Watts – Jóhannes Pálmason

Sálmur 953

 • Faðir vor, þú sem ert á himnum,
 • helgist þitt nafn,
 • til komi þitt ríki,
 • verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
 • Gef oss í dag vort daglegt brauð
 • og fyrirgef oss vorar skuldir
 • svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
 • Eigi leið þú oss í freistni,
 • heldur frelsa oss frá illu.
 • Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.
Matt 6.9b-13

Sálmur 954

 • Syngið Drottni nýjan söng.
 • Lofið hann að eilífu,
 • lofið hann að eilífu.
 • Syngið Guði dýrð, öll lönd.
 • Syngið, lofið Drottins nafn.
 • Syngið Drottni nýjan söng,
 • dásemdarverk hefur hann gert.
 • Drottinn kunngjörði hjálpræði sitt,
 • sýndi þjóðunum réttlæti sitt.
 • Hylli Drottin veröld öll,
 • og syngi fagnaðarsng.
 • Fljótin klappa´ og lofa, fjöllin öll fagna,
 • sjá, Guð kemur, sjá, hann kemur.
 • Singt dem Herrn ein neues Lied.
 • Lobsingt ihm alle zeit.
Sbr. Slm 96.1-2; 98.1,2,4,8-9 – Frá Taizé samfélaginu – Tómas Sveinsson, Jón Ólafur Sigurðsson