Sálmur 28
- Festingin víða, hrein og há,
- og himinbjörtu skýin blá,
- og logandi hvelfing, ljósum skírð,
- þið lofið skaparans miklu dýrð.
- Og þrautgóða sól, er dag frá degi
- Drottins talar um máttarvegi,
- ávallt birtir þú öll um lönd
- almættisverk úr styrkri hönd.
- Og þótt um helga þagnarleið
- þreyti vor jörð hið dimma skeið
- og enga rödd og ekkert hljóð
- uppheimaljósin sendi þjóð,
- skynsemi vorrar eyrum undir
- allar hljómar um næturstundir
- lofsöngur þeirra, ljóminn hreinn:
- Lifandi Drottinn skóp oss einn.
Addison - Sb. 1945 - Jónas Hallgrímsson
Sálmur 29
- Mikli Drottinn, dýrð sé þér,
- dásemd þína' um aldaraðir
- ásamt þínum englaher
- allir lofa viljum glaðir,
- falla þína fótskör á,
- faðir, þína dýrð að sjá.
- Lát þitt ríki lýsa vítt
- löndin yfir frið að veita,
- láttu fæðast lífið nýtt,
- ljós þitt vorum hjörtum breyta,
- láttu yfir lönd og höf
- ljóma þína sigurgjöf.
- Helgur andi, heiður þér
- hver ein tunga' á jörðu færi.
- Faðir, Guð, vér þökkum þér,
- þér og Jesús, bróðir kæri.
- Ástar þinnar eilíft ljós
- oss sé blessun, vörn og hrós.
Ignaz Franz - Sb. 1945 - Friðrik Friðriksson
Sálmur 31
- Þú sendir, Drottinn, dögg af hæðum
- í dropum smáum niðu'r á jörð,
- að kveikja líf í köldum æðum
- og klaka leysa böndin hörð.
- Lát náðardaggar dropa þinn
- svo drjúpa' í mína sálu inn.
- Þú lætur, Drottinn, ljós af hæðum
- hér lýsa sólargeislum í,
- það grundu skrýðir geislaklæðum
- og gulli faldar himinský.
- Ó, lát þú náðarljósið þitt
- svo lýsa skært í hjartað mitt.
- Þú sendir, Guð, þinn son af hæðum,
- hann sól og dögg var allri jörð.
- Hann lýsir oss í ljóssins fræðum
- og leysir synda böndin hörð.
- Það ljósið prýði líf mitt allt,
- sú lífdögg þíði helið kalt.
Sb. 1886 - Valdimar Briem
Sálmur 32
- Upp hef ég augu mín
- alvaldi Guð, til þín.
- Náð þinni' er ljúft að lýsa,
- lofa þitt nafn og prísa.
- Allt er að þakka þér
- það gott, sem hljótum vér
- um allar aldaraðir,
- eilífi ljóssins faðir.
- Vér erum gleymskugjörn,
- gálaus og fávís börn,
- en þú, sem aldrei sefur,
- á öllum gætur hefur.
- Eg veit, að aldrei dvín
- ástin og mildin þín,
- því fel ég mig og mína,
- minn Guð, í umsjá þína.
Sb. 1945 - Herdís Andrésdóttir
Sálmur 33
- Ég fel mig þinni föðurnáð,
- minn faðir elskulegi,
- mitt líf og eign og allt mitt ráð
- og alla mína vegi.
- Þú ræður öllu' og ræður vel
- af ríkdóm gæsku þinnar.
- Þín stjórn nær jafnt um himins hvel
- og hjólið auðnu minnar.
- Ég fel mig þinni föðurhönd
- í freistinganna þrautum.
- Mitt styð þú hold og styrk þú önd
- og stýr af háskabrautum.
- Þótt búi' eg yst við íshafs skaut,
- ég er í skjóli þínu.
- Þú stýrir himinhnatta braut
- og hverju feti mínu.
- Ég fel mig þínum föðurarm,
- er fast mig sorgir mæða.
- Þú einn kannt sefa hulinn harm
- og hjartans undir græða.
- Hið minnsta duft í mold þú sérð
- og mælir brautir stjarna,
- þú telur himintungla mergð
- og tárin þinna barna.
- Ég fel mig þinni föðurhlíf,
- er fer ég burt úr heimi,
- en meðan enn mér endist líf,
- mig ávallt náð þín geymi.
- Þú ystu takmörk eygir geims
- og innstu lífsins parta,
- þú telur ár og aldir heims
- og æðaslög míns hjarta.
Sb. 1886 - Valdimar Briem
Sálmur 34
- Upp, skapað allt í heimi hér,
- að heiðra Guð, vorn Drottin,
- hið minnsta verk hans mikið er,
- um mátt hans allt ber vottinn.
- Þótt kóngar fylgdust allir að
- með auð og veldi háu,
- þeir megnuðu' ei hið minnsta blað
- að mynda' á blómi smáu.
- Hvað get ég sagt? Ó, málið mitt
- ei megnar, Guð, að lýsa,
- hve margt er ástarundur þitt,
- hve öflug stjórnin vísa.
- Ó, miklið Guð, þér menn á jörð,
- á málum óteljandi,
- ó, mikla Guð, þú hólpin hjörð,
- á himna dýrðarlandi.
Brorson - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson
Sálmur 35
- Drottinn minn, Guð, þú ert bjarg mitt og borg,
- brugðist þú getur mér eigi.
- Þú ert mitt athvarf í sérhverri sorg,
- sól mín á harmanna degi.
- Frelsisins merki ég hef upp hátt,
- hjálpin úr upphæðum kemur brátt.
- Drottinn minn, Guð, þú ert vernd mín og vörn
- voðans í ólgandi flóði.
- Frelsa þú lýð þinn og blessa þín börn,
- blessaði faðirinn góði.
- Lifandi Drottinn, ég lofa þig,
- ljósanna faðir, ó, bænheyr mig.
Sl 28 - Sb. 1945 - Valdimar Briem
Sálmur 36
- Eilíf, dýrleg, æðsta vera,
- alvöld, heilög, rík af náð,
- þakkarfórn skal þér fram bera,
- þér, ó, Guð, sé lofgjörð tjáð.
- Mikill, góður einn þú ert,
- öll þín verk það segja bert.
- Þú einn ræður öllu yfir,
- allt þú blessar, sem að lifir.
- Þó mín dauðleg augu eigi
- auglit þitt nú sjái hér,
- né þann ljómann líta megi,
- ljóssins Guð, er skín hjá þér,
- hjarta mitt samt þekkir þig,
- þig, er veikan styrkir mig
- og sem faðir elskar, gleður,
- öllum náðargæðum seður.
- Frá þér ljós og lífið streymir,
- líkn og blessun hvert eitt sinn.
- Mig þín föðurforsjón geymir,
- frelsar, annast, Drottinn minn.
- Þú mér vísar lífsins leið,
- léttir kross og heftir neyð,
- veitir mátt og megn að stríða
- mitt í freisting, hryggð og kvíða.
- Gæsku þinnar geislar skína
- gjörvallt yfir ríki þitt,
- allt mér vottar elsku þína,
- í þér fagnar hjarta mitt.
- Allt, sem lifir, í þér gleðst
- og af þinni mildi seðst,
- allt, sem lifir, lof þér segi,
- lof þitt, faðir, aldrei þegi.
Sb. 1871 - Páll Jónsson