Sálmur 1
- Sé Drottni lof og dýrð,
- hans dásemd öllum skýrð,
- hann lofi englar allir
- og æðstu ljóssins hallir,
- hann lofi hnatta hjólin
- og heiðri tungl og sólin.
- Hann lofi líf og hel
- og loftsins bjarta hvel,
- hann lofi lögmál tíða,
- sem ljúft hans boði hlýða
- og sýna veldis vottinn,
- ó, veröld, lofa Drottin.
- Hver þjóð um lög og láð,
- ó, lofið Drottins náð,
- þér glöðu, hraustu, háu,
- þér hrelldu, veiku, lágu,
- þér öldnu með þeim ungu,
- upp, upp með lof á tungu.
- Með öllum heimsins her
- þig, Herra, lofum vér
- af innsta ástar grunni
- með öndu, raust og munni.
- Vort hjarta bljúgt sig hneigir
- og hallelúja segir.
Sl 148. - Sb. 1671 - Jón Þorsteinsson
Matthías Jochumsson
Sálmur 2
- Lof sé þér um ár og öld,
- mikli Drottinn dýrðarinnar,
- dýrðar vil ég minnast þinnar,
- þér sé vegsemd þúsundföld.
- Kynslóð eftir kynslóð lofar
- kærleik þinn og speki' og mátt,
- þú, sem ríkir öllu ofar,
- allt þú blessar, stórt og smátt.
- Miskunnsamur mjög þú ert,
- ó, hve þú, minn Guð, ert góður,
- gæskuríkur, þolinmóður,
- öll þín verk það vitna bert.
- Öll þín verk þitt veldi róma,
- vegsama þitt dýrðarráð,
- öll þín verk þó einkum hljóma
- um þinn kærleik, líkn og náð.
- Allra vona augu' á þig,
- þú upp hendi þinni lýkur,
- þú ert ætíð nógu ríkur
- alla' að blessa' og einnig mig.
- Öllum þeim, sem á þig kalla,
- allt þú lætur gott í té,
- frelsar þú og annast alla,
- eilíft lof og dýrð þér sé.
Sl 145 - Sb. 1886 - Valdimar Briem
Sálmur 3
- Lofið vorn Drottin,
- hinn líknsama föður á hæðum,
- lofið hann allir
- með söngvum og vegsemdar ræðum,
- lofi hann sál,
- lofi hann athöfn og mál,
- gnótt hann oss veitir af gæðum.
- Lofið vorn Drottin,
- hann leiðir og verndar og styður,
- leysir úr nauðum
- og heyrir þess andvörp, er biður,
- byggðir um lands
- blessaðar ástgjafir hans
- drjúpa sem dögg til vor niður.
- Lofið vorn Drottin,
- hann ávaxtar iðninnar sveita,
- atvinnu synjar ei
- þeim, er sér bjargræðis leita,
- farsæld og frið
- fulltingi, hjástoð og lið
- öllum oss virðist hann veita.
- Lofið vorn Drottin,
- er englanna hersveitir hlýða,
- hans eftir skipunum
- stormar og eldingar bíða,
- dýrð honum ber,
- himinninn hástóll hans er,
- jörðin hans fótskörin fríða.
- Lofið vorn Drottin,
- og takið með englum hans undir,
- allir hann vegsamið
- lífs yðar gjörvallar stundir,
- hátt göfgið hann,
- Herrann vorn Guð, sem oss ann,
- allar hann lofið á lundir.
Sl 103 - Neander - Sb. 1801 - Helgi Hálfdánarson
Sálmur 4
- Dýrð í hæstum hæðum,
- himna Guð, þér syngja
- allir þínir englar og öll þín hólpin hjörð.
- Jörð það endurómar,
- allar klukkur hringja,
- fagnandi hjörtu færa þakkargjörð.
- Dýrð í hæstum hæðum.
- Helgir leyndardómar
- opnast fyrir augum
- þess anda', er ljós þitt sér.
- Allt, sem anda dregur, elsku þína rómar,
- tilveran gjörvöll teygar líf frá þér.
- Dýrð í hæstum hæðum.
- Hingað oss þú sendir
- soninn þinn að sýkna hinn seka lýð á jörð.
- Síðan hátt til himna
- hann með krossi bendir,
- sigur hann gefur sinni barnahjörð.
- Dýrð í hæstum hæðum,
- hljómar þér um aldir,
- þyrnikrýndur, krossi píndur
- kóngur lífs og hels.
- Lýtur þér og lofar lýður, sem þú valdir,
- lýsandi' á jörð sem ljómi fagrahvels.
- Dýrð í hæstum hæðum. Heilagri þrenning,
- föður, syni' og friðaranda,
- færum lofgjörð vér,
- göfgi þig með gleði
- gjörvöll jarðarmenning,
- Guð einn og þrennur, þökk þér einum ber.
Heber - Sb. 1945 - Friðrik Friðriksson
Sálmur 5
- Drottinn, vor konungur,
- dýrlegt er nafn þitt hið blíða,
- dýrlegt og vegsamlegt
- heims meðal gjörvallra lýða.
- Drottinn, þín hjörð
- dýrkar þitt nafn hér á jörð
- eins og um alheiminn víða.
- Lofgjörð þú bjóst þér hjá
- börnunum saklausu' og ungu,
- brjóstmylkingunum þú
- jafnvel knýr vegsemd af tungu.
- Þögnuðu þeir,
- þá mundu flytja því meir
- boðskap þann björgin hin þungu.
- Líti' eg til himinsins,
- handaverk þín er ég skoða,
- herskara stjarnanna,
- tign þína' og almátt er boða,
- undrar mig á,
- ást þín og náð hvað er há,
- oss er þú einnig vilt stoða.
- Hvað eru dauðlegir
- menn, að þú minnst þeirra getur,
- mannanna börn, að þú
- vegsemdar slíkrar þau metur?
- Manninn á jörð
- máttugri englanna hjörð
- lítið eitt lægra þú setur.
- Handaverk sjálfs þín
- þú honum til umráða gefur,
- hamingju, blessun og
- sæld hann þú krýnir og vefur,
- Drottinn, þitt nafn
- dýrki þitt herskara safn,
- allt það, sem andardrátt hefur.
Sl 8 - Sb. 1886 - Valdimar Briem
Sálmur 6
- Drottinn, ó, Drottinn vor,
- dagarnir líða,
- allt er að breytast, en aldrei þú.
- Ver þú oss veikum hjá,
- vernda þína arfleifð.
- Líknandi hendi, ó, leið oss nú.
- Drottinn, ó, Drottinn vor,
- drag oss æ nær þér,
- lífið hið eina' er hjá einum þér.
- Þar veitir þú oss frið,
- þróttinn til að lifa,
- sigurvon eilífa eignumst vér.
- Drottinn, ó, Drottinn vor,
- dýrð þína að efla,
- göfga þig einan æ gef oss náð,
- vinna þitt verk á jörð,
- vera þér til dýrðar,
- vegsama nafn þitt um lög og láð.
Níels Steingrímur Thorláksson
Sálmur 7
- Ó, hvað þú, Guð, ert góður,
- þín gæska' og miskunn aldrei dvín.
- Frá lífi minnar móður
- var mér æ nálæg aðstoð þín.
- Mig ávallt annast hefur
- og allt mitt blessað ráð,
- og mér allt gott æ gefur,
- ó, Guð, þín föðurnáð.
- Það mér úr minni' ei líði,
- svo mikli' eg nafnið þitt
- og þér af hjarta hlýði,
- þú hjartans athvarf mitt.
Sb. 1871 - Páll Jónsson
Sálmur 9
- Lofsyngið Drottni, lýðir tignið hann.
- Hefjið gleðihljóma, heiðrið skaparann.
- Miskunn hans er mikil, máttarverkin stór.
- Lofi, lofi Drottin loft og jörð og sjór.
- Lofsyngi Drottni ljóssins bjarti her.
- Óminn ber að ofan, undir tökum vér.
Valdimar V. Snævarr
Sálmur 10
- Vort traust er allt á einum þér,
- vor ástarfaðir mildi.
- Þín náð og miskunn eilíf er,
- það alla hugga skyldi.
- Þú ert vor stoð og einkahlíf,
- svo engu þurfum kvíða,
- vor huggun, athvarf, ljós og líf.
- Æ, ljúft er því að stríða.
- Í hverju, sem að höndum ber,
- og hvað sem bágt oss mætir,
- þín hjálp oss nálæg ætíð er
- og allar raunir bætir.
- Þín forsjón vakir yfir oss,
- þín alvöld hönd oss leiðir,
- þú linar böl og léttir kross
- og lífsins meinum eyðir.
- Þú græðir hjartans sviðasár,
- þú syndir fyrirgefur,
- þú stöðvar öll vor angurstár,
- þú alla náð umvefur.
- Þín föðurnáð, æ fersk og ný,
- oss föðurgæðum seður
- og lífsins kjörum öllum í
- oss annast, blessar, gleður.
- Vort traust er allt á einum þér,
- því allt þú gott oss veitir.
- Þín náð og miskunn eilíf er,
- þú öllu' í sigur breytir.
Sb. 1871 - Páll Jónsson
Sálmur 11
- Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra
- dýrka ber og veita lotning tæra.
- Hver tunga, vera
- skal vitni bera,
- að voldug eru
- þín ráð og þér þakkir færa.
- Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,
- verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.
- Þótt farist heimur
- sem hjóm og eimur,
- mun heilagt streyma
- nýtt líf um geim, Guðs á degi.
- Björgin hrynja, hamravirkin svíkja,
- himinn, jörð og stjörnur munu víkja,
- en upp mun rísa,
- og ráð hans prísa,
- hans ríki vísa
- og ljósið lýsa og ríkja.
Dass - Sigurbjörn Einarsson
Sálmur 12
- Upp, skepna hver, og göfga glöð
- vorn Guð með þakkarfórn,
- af ástarverkum eilíf röð
- :,: er öll hans voldug stjórn. :,:
- Ó, lofið mesta meistarann,
- þér menn, á hverri tíð,
- því mikla gjörir hluti hann
- :,: um heiminn ár og síð. :,:
- Oss öllum líf og afl og brauð
- hann óverðskuldað gaf,
- í líkn á vora leit hann nauð
- :,: og létti byrðum af. :,:
- Vor sól og skjöldur æ hann er,
- vort athvarf, traust og hlíf,
- vort ljós í dalnum dimma hér,
- :,: í dauðanum vort líf. :,:
- Hann opnar helgan himin sinn,
- er heims er lokið vist,
- og sínum þangað safnar inn
- :,: í samfélag við Krist. :,:
- Ó, lofum allir, lofum hann,
- hann lofi rödd og mál,
- hann lofi allt, er lofa kann,
- :,: hann lofi hjarta' og sál. :,:
Gerhardt - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson