Sálmar

Sálmur 10

 • Vort traust er allt á einum þér,
 • vor ástarfaðir mildi.
 • Þín náð og miskunn eilíf er,
 • það alla hugga skyldi.
 • Þú ert vor stoð og einkahlíf,
 • svo engu þurfum kvíða,
 • vor huggun, athvarf, ljós og líf.
 • Æ, ljúft er því að stríða.
 • Í hverju, sem að höndum ber,
 • og hvað sem bágt oss mætir,
 • þín hjálp oss nálæg ætíð er
 • og allar raunir bætir.
 • Þín forsjón vakir yfir oss,
 • þín alvöld hönd oss leiðir,
 • þú linar böl og léttir kross
 • og lífsins meinum eyðir.
 • Þú græðir hjartans sviðasár,
 • þú syndir fyrirgefur,
 • þú stöðvar öll vor angurstár,
 • þú alla náð umvefur.
 • Þín föðurnáð, æ fersk og ný,
 • oss föðurgæðum seður
 • og lífsins kjörum öllum í
 • oss annast, blessar, gleður.
 • Vort traust er allt á einum þér,
 • því allt þú gott oss veitir.
 • Þín náð og miskunn eilíf er,
 • þú öllu' í sigur breytir.
Sb. 1871 - Páll Jónsson

Sálmur 11

 • Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra
 • dýrka ber og veita lotning tæra.
 • Hver tunga, vera
 • skal vitni bera,
 • að voldug eru
 • þín ráð og þér þakkir færa.
 • Guð er Guð, þótt veröld væri eigi,
 • verður Guð, þótt allt á jörðu deyi.
 • Þótt farist heimur
 • sem hjóm og eimur,
 • mun heilagt streyma
 • nýtt líf um geim, Guðs á degi.
 • Björgin hrynja, hamravirkin svíkja,
 • himinn, jörð og stjörnur munu víkja,
 • en upp mun rísa,
 • og ráð hans prísa,
 • hans ríki vísa
 • og ljósið lýsa og ríkja.
Dass - Sigurbjörn Einarsson

Sálmur 12

 • Upp, skepna hver, og göfga glöð
 • vorn Guð með þakkarfórn,
 • af ástarverkum eilíf röð
 • :,: er öll hans voldug stjórn. :,:
 • Ó, lofið mesta meistarann,
 • þér menn, á hverri tíð,
 • því mikla gjörir hluti hann
 • :,: um heiminn ár og síð. :,:
 • Oss öllum líf og afl og brauð
 • hann óverðskuldað gaf,
 • í líkn á vora leit hann nauð
 • :,: og létti byrðum af. :,:
 • Vor sól og skjöldur æ hann er,
 • vort athvarf, traust og hlíf,
 • vort ljós í dalnum dimma hér,
 • :,: í dauðanum vort líf. :,:
 • Hann opnar helgan himin sinn,
 • er heims er lokið vist,
 • og sínum þangað safnar inn
 • :,: í samfélag við Krist. :,:
 • Ó, lofum allir, lofum hann,
 • hann lofi rödd og mál,
 • hann lofi allt, er lofa kann,
 • :,: hann lofi hjarta' og sál. :,:
Gerhardt - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson

Sálmur 13

 • Þú Guð ert mikill, annað allt er smátt,
 • þú einn átt ríkið, dýrð og vald og mátt.
 • Hvað má því valda, að þú minnist mín
 • í myrkri jafnt og þegar sólin skín,
 • eins mannsins barns, er fetar vegar villt
 • í veröld, sem er mörgum þrautum fyllt?
 • Á ferð ég er og fáráður ég spyr
 • við fótskör þína, krýp við þínar dyr.
 • Öll hugsun þín er hulin fyrir mér,
 • hver hugsun mín er opin fyrir þér.
 • Hvað má því valda, að þú minnist mín
 • svo mjög sem ég hef rofið boðin þín?
 • Ó, hjarta mitt, þú hefur fundið svar,
 • í húmið inn það ljósið til mín bar,
 • það ljós, sem kemur kærleik þínum frá
 • og kennir mér að skilja, heyra og sjá,
 • að þú ert faðir minn, og fórnin þín
 • hún friðþægir og hylur afbrot mín.
Sigurjón Guðjónsson

Sálmur 14

 • Guð :,: hæst í hæð, :,: þig himnum ofar
 • í heiði stjarnamergðin lofar
 • með göngu sinnar himinhljóm.
 • Þó sér ei meira sjónin veika
 • en sjálfs þín guðdóms skuggann bleika,
 • ei þig í hæstum helgidóm.
 • Einn dropa' af dýrð, ei dýrðarhafið
 • :,: sér dauðlegt auga, þoku vafið. :,:
 • Og hvað mót veru verk þitt er?
 • Ó, lútum guðdóms geislavaldi,
 • þér, Guð, vor sál í skuggsjá haldi,
 • sem daggtár sólar blíðmynd ber.
 • Guð :,: hæst í hæð, :,: þér hörpur óma
 • í hvössum ægigeisla ljóma
 • við englaskarans sigursöng.
 • Þar himnesk dunar hljóðstraums bára,
 • þú heyrir samt frá djúpi tára
 • hvert andvarp manns við örlög ströng.
 • Dýrð sé þér hátt og djúpt í geimi,
 • :,: þú dreifir myrkrum, lýsir heimi. :,:
 • Send vorum anda von og þrótt.
 • Hvað megnar allur myrkrakraftur?
 • Þín máttarhöndin leiðir aftur
 • úr sorta ljómann, sól og nótt.
Sb. 1945 - Steingrímur Thorsteinsson

Sálmur 15

 • Ætti ég að láta linna
 • lof um Guð minn, hann, sem er
 • læknir allra meina minna,
 • mig í líknarskauti ber?
 • Allt, sem hans í hjarta bærist,
 • heit er ást og blessuð náð,
 • gjöf er hans og gæskuráð,
 • að ég lifi, er og hrærist.
 • Allt fær brugðist annað skjótt,
 • aldrei Drottins kærleiks gnótt.
 • Eins og fuglinn veika vefur
 • vængjum sínum unga smá,
 • allt eins Drottins hönd mér hefur
 • hjúkrað móðurlífi frá.
 • Hann, sem fyrst mér lífið lénti,
 • lét ei af að blessa mig,
 • gaf mér föður sjálfan sig
 • og á lífsins leið mér benti.
 • Allt fær brugðist annað skjótt,
 • aldrei Drottins kærleiks gnótt.
 • Guð af miskunn soninn sendi,
 • sem á krossi deyddur var,
 • að mitt syndalíf ei lendi
 • loks í dauða glötunar.
 • Ó, þú miskunn öllu stærri,
 • ó, þú líknar grunnlaust haf,
 • dýpt þín allri dýpt ber af,
 • allri þú ert hugsun hærri.
 • Allt fær brugðist annað skjótt,
 • aldrei Drottins kærleiks gnótt.
 • Guð mér helgan gefur anda
 • guðdómsorði dýru með,
 • að í hverjum voða' og vanda
 • veg ég réttan fái séð.
 • Hjarta mitt svo huggun finni,
 • hels er ógnar myrkur svart,
 • trúarljósið tendrar bjart
 • andi Guðs í öndu minni.
 • Allt fær brugðist annað skjótt,
 • aldrei Drottins kærleiks gnótt.
 • Himinn, jörð og hafið víða
 • heill og blessun færa mér,
 • hvert sem augað læt ég líða,
 • líknarhönd míns Guðs það sér.
 • Allt ber Guðs um elsku vottinn,
 • allt um vísdóm hans og mátt.
 • Allt í veröld hrópar hátt:
 • Lof sé þér og dýrð, vor Drottinn.
 • Allt fær brugðist annað skjótt,
 • aldrei Drottins kærleiks gnótt.
Gerhardt - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson

Sálmur 16

 • Ó, Herra Guð, þér heiður ber,
 • mitt hjarta lofgjörð flytur þér.
 • Þú annast minn æ hefur hag,
 • þín hönd mig geymdi nótt og dag.
 • Þá réttum vegi veik ég frá
 • og villtist lasta brautir á,
 • þín föðurgæska guðdómleg
 • mér greiddi' að nýju réttan veg.
 • Þá huggun þráði hjarta mitt,
 • þú huldir stundum auglit þitt.
 • Þó lést þú aldrei einan mig,
 • og aftur náð þín birti sig.
 • Ég alla blessun þakka þér,
 • sem þinnar líknar vottur er,
 • en einkum glaður þakka' eg það,
 • að þú sem barn mig tókst þér að.
Gellert - Sb. 1801 - Valdimar Briem

Sálmur 17

 • Sérhvert ljós um lífsins nótt,
 • hugsvölun í hverjum þrautum,
 • hverja gleði' á lífsins brautum,
 • sérhvert lán og gæðagnótt,
 • allt hið fagra' er augað lítur
 • andinn hvað sem dýrlegt veit,
 • alla sælu', er hjartað hlýtur,
 • Herra, skóp þín elskan heit.
 • Alls hins góða er hún rót,
 • lind, er heilsu lífsins geymir,
 • lind, er rík af blessun streymir,
 • lindin, er allra eymda bót,
 • lind, er heillum lýði vefur,
 • lind, er helgan veitir auð,
 • lind, er fegurð lífi gefur,
 • lind, er vekur hjörtun dauð.
 • Ó, þú, Drottinn dýrðarhár,
 • föðurást þín aldrei sefur,
 • Eden nýja hún oss gefur,
 • þvær af syndir, þerrar tár.
 • Fyrir Jesú, frelsið manna,
 • fyrirgafst þú líka mér.
 • Líf og himinsælu sanna
 • sé ég búna' í faðmi þér.
Wexels - Sb. 1886 - Stefán Thorarensen

Sálmur 18

 • Í gegnum lífsins æðar allar
 • fer ástargeisli, Drottinn, þinn,
 • í myrkrin út þín elska kallar,
 • og allur leiftrar geimurinn,
 • og máttug breytast myrkraból
 • í morgunstjörnur, tungl og sól.
 • En skærast, Guð minn, skín og ljómar
 • í skugga dauðans vera þín,
 • er röddin þinnar elsku ómar
 • í endurleystri sálu mín
 • og segir: Þú ert sonur minn,
 • því sjá þú, ég er faðir þinn.
 • Og aldrei skilur önd mín betur,
 • að ertu Guð og faðir minn,
 • en þegar eftir villuvetur
 • mig vermir aftur faðmur þinn,
 • og kærleiksljósið litla mitt
 • fær líf og yl við hjarta þitt.
 • Lát undur þinnar ástar vekja
 • upp elsku hreina' í hverri sál
 • og öfund burt og hatur hrekja
 • og heiftrækninnar slökkva bál.
 • Lát börn þín verða í elsku eitt
 • og elska þig, sinn föður, heitt.
Sb. 1886 - Matthías Jochumsson