Sálmar

Sálmur 19

 • Þitt lof, ó, Drottinn vor,
 • himnarnir hljóma,
 • þitt heilagt nafnið prísa ber.
 • Vor jörð skal söngvana enduróma:
 • Þú alheims stýrir, lof sé þér.
 • Þú reistir hvelfingar himinsins heima,
 • þín hönd gaf ljósið skærri sól.
 • Þú ekur sigrandi gegnum geima
 • á geislans braut að ysta pól.
Gellert - Sb. 1945 - Þorsteinn Gíslason

Sálmur 20

 • Guð, allur heimur, eins í lágu' og háu,
 • er opin bók, um þig er fræðir mig,
 • já, hvert eitt blað á blómi jarðar smáu
 • er blað, sem margt er skrifað á um þig.
 • Þá morgunsólin upp í austri stígur,
 • á æðra himinljós hún bendir mér,
 • og þá er sólin hægt í vestri hnígur,
 • á hvíld og frið hún bendir mér hjá þér.
 • Þá allt til lífsins vorið fagra vekur,
 • það von til þín í brjósti glæðir mér,
 • og þegar aftur hausta' og húma tekur,
 • það hvetur mig að leita skjóls hjá þér.
 • Þá yfir löndin stormur geisar stríður,
 • með sterkum róm hann boðar almátt þinn,
 • og þá um vanga blærinn leikur blíður,
 • hann boðar þú sért ljúfur faðir minn.
 • Þá eldur skær með björtum loga brennur,
 • hann birtir skýrt, að heit þín gæskan er
 • og svalalind, er sífellt áfram rennur,
 • hún sýnir, að þín miskunn aldrei þver.
 • Þá heyri eg glaða himinfugla syngja,
 • þeir hrósa þinni dýrð, sem öllum skín,
 • og andvörp þau, er einatt hjörtun þyngja,
 • þó upp um síðir leita, Guð, til þín.
 • Ó, veit mér, Guð, þín verk ég skoða megi,
 • þau veri jafnan hjartans unun mín.
 • Og þótt þín hátign holdið stundum beygi,
 • mitt hjarta reisir aftur náðin þín.
Sb. 1886 - Valdimar Briem

Sálmur 21

 • Minn Guð og Herra' er hirðir minn,
 • mér hjálpararm hann réttir sinn.
 • Ég veit hann æ mér vill hið besta,
 • ég veit hann ei mig lætur bresta
 • það neitt, er getur gagnað mér,
 • því góður hirðir Drottinn er.
 • Um blómum stráða, græna grund
 • mig Guðs míns leiðir föðurmund
 • að svalalindum silfurskærum
 • og svalar mér úr lækjum tærum.
 • Hans líknarhöndin hressir mig
 • og hjálpar mér á réttan stig.
 • Og þótt ég gangi' um dauðans dal,
 • hans dimma mér ei ógna skal.
 • Ef geng ég trúr á Guðs míns vegi,
 • mér grandar dauðinn sjálfur eigi.
 • Þín hrísla' og stafur hugga mig,
 • minn hirðir, Guð, ég vona' á þig.
Sl 23 - Sb. 1886 - Valdimar Briem

Sálmur 22

 • Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu,
 • miskunn þín nær en geisli á kinn.
 • Eins og vér finnum andvara morguns,
 • eins skynjar hjartað kærleik þinn.
 • Í dagsins iðu, götunnar glaumi,
 • greinum vér þig með ljós þitt og frið.
 • Hvar sem ein bæn er beðin í hljóði,
 • beygir þú kné við mannsins hlið.
 • Hvar sem er unnið, hugur þinn starfar,
 • hús vor og tæki eru þín verk.
 • Þú vilt vér teljum vort það, sem gefur
 • viskan þín rík og höndin sterk.
 • Djúp er þín lind, sem lífgar og nærir,
 • lófinn þinn stór, vort eilífa hlé.
 • Gjör þú oss, Kristur, Guðs sonur góði,
 • greinar á þínu lífsins tré.
Frostenson - Sigurbjörn Einarsson

Sálmur 23

 • Þín miskunn, ó, Guð, er sem himinninn há
 • og hjarta þíns trúfestin blíða,
 • þinn heilagan vísdóm má hvarvetna sjá
 • um heims alla byggðina fríða.
 • Sem rammbyggðu fjöllin þín réttvísin er,
 • sem reginhaf dómur þinn hreini.
 • Vor Guð, allra þarfir þú glögglega sér
 • og gleymir ei aumingjans kveini.
 • Já, dásöm er náð þín og dag sérhvern ný,
 • ó, Drottinn, í skaut þitt vér flýjum.
 • Vér hræðast ei þurfum í hælinu því,
 • er hörmunga dimmir af skýjum.
 • Ef sálirnar þyrstir, þú svölun þeim lér,
 • þær saðning fá hungraðar frá þér.
 • Vor Guð, þínu' í ljósinu ljós sjáum vér,
 • og lífsins er uppspretta hjá þér.
Sl 36 - Ingemann - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson

Sálmur 24

 • Lofið Guð, ó, lýðir, göfgið hann,
 • heiðrið Guð, ó, heiðrið föður þann,
 • tignið Drottins tignarnafn, hans tign ei breytist,
 • miklið Drottins náðarnafn, hans náð ei þreytist,
 • mildin hans við menn ei þrýtur,
 • miskunn hans til aumra lítur,
 • ástin hans ei enda hlýtur,
 • eilíf tryggð hans aldrei bregst.
 • Öll hans stjórn og umsjá ber um elsku vottinn.
 • Lofi nafn hans lýður hver, já, lofið Drottin.
Sl 117 - Sb. 1671 - Jón Þorsteinsson - Helgi Hálfdánarson

Sálmur 25

 • Englar hæstir, andar stærstir,
 • allir lofi Drottins nafn.
 • Allt, sem andar, allt, sem lifir,
 • uppi, niðri, himnum yfir,
 • dýrki, lofi Drottins nafn.
 • Himinn fagur, hver einn dagur,
 • hver ein nótt með stjörnusafn,
 • stormar, þrumur, hvað sem hræðir,
 • hvað sem vekur, örvar, glæðir,
 • lofi Herrans heilagt nafn.
 • Æðstum Drottni aldrei þrotni
 • eilíft lof og þakkargjörð.
 • Syngið, feður, syngið, mæður,
 • syngið, niðjar, menn og bræður.
 • Heiðri Drottin hæð og jörð.
Blackie - Sb. 1945 - Matthías Jochumsson

Sálmur 26

 • Nú gjaldi Guði þökk
 • hans gjörvöll barnahjörðin,
 • um dýrð og hátign hans
 • ber himinn vott og jörðin.
 • Frá æsku vorri var
 • oss vernd og skjól hans náð,
 • og allt vort bætti böl
 • hans blessað líknarráð.
 • Vor Guð, sem gjörvallt á,
 • oss gefi snauðum mönnum
 • í hjörtun æðstan auð
 • af andans gæðum sönnum,
 • í náð og sátt við sig
 • oss seka taki hann
 • og leiði loks til sín
 • í ljóss og dýrðar rann.
 • Guð faðir, þökk sé þér
 • og þínum dýrsta syni
 • og æðstum anda skýrð
 • af engla' og manna kyni.
 • Þitt vald, sem var og er
 • og verður alla tíð,
 • sé heiðrað hátt um jörð
 • og himin ár og síð.
Rinckart - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson

Sálmur 27

 • Þér sé, Guð, þökkin tjáð,
 • þín miskunn staðföst er,
 • um himin, lög og láð
 • lífið streymir frá þér,
 • svo langt sem augað eygir,
 • um vísdóm þinn gjörvallt vitni ber.
Sb. 1945 - Hjálmar Jónsson frá Bólu