Sálmur 13
- Þú Guð ert mikill, annað allt er smátt,
- þú einn átt ríkið, dýrð og vald og mátt.
- Hvað má því valda, að þú minnist mín
- í myrkri jafnt og þegar sólin skín,
- eins mannsins barns, er fetar vegar villt
- í veröld, sem er mörgum þrautum fyllt?
- Á ferð ég er og fáráður ég spyr
- við fótskör þína, krýp við þínar dyr.
- Öll hugsun þín er hulin fyrir mér,
- hver hugsun mín er opin fyrir þér.
- Hvað má því valda, að þú minnist mín
- svo mjög sem ég hef rofið boðin þín?
- Ó, hjarta mitt, þú hefur fundið svar,
- í húmið inn það ljósið til mín bar,
- það ljós, sem kemur kærleik þínum frá
- og kennir mér að skilja, heyra og sjá,
- að þú ert faðir minn, og fórnin þín
- hún friðþægir og hylur afbrot mín.
Sigurjón Guðjónsson