Sálmur 15
- Ætti ég að láta linna
- lof um Guð minn, hann, sem er
- læknir allra meina minna,
- mig í líknarskauti ber?
- Allt, sem hans í hjarta bærist,
- heit er ást og blessuð náð,
- gjöf er hans og gæskuráð,
- að ég lifi, er og hrærist.
- Allt fær brugðist annað skjótt,
- aldrei Drottins kærleiks gnótt.
- Eins og fuglinn veika vefur
- vængjum sínum unga smá,
- allt eins Drottins hönd mér hefur
- hjúkrað móðurlífi frá.
- Hann, sem fyrst mér lífið lénti,
- lét ei af að blessa mig,
- gaf mér föður sjálfan sig
- og á lífsins leið mér benti.
- Allt fær brugðist annað skjótt,
- aldrei Drottins kærleiks gnótt.
- Guð af miskunn soninn sendi,
- sem á krossi deyddur var,
- að mitt syndalíf ei lendi
- loks í dauða glötunar.
- Ó, þú miskunn öllu stærri,
- ó, þú líknar grunnlaust haf,
- dýpt þín allri dýpt ber af,
- allri þú ert hugsun hærri.
- Allt fær brugðist annað skjótt,
- aldrei Drottins kærleiks gnótt.
- Guð mér helgan gefur anda
- guðdómsorði dýru með,
- að í hverjum voða' og vanda
- veg ég réttan fái séð.
- Hjarta mitt svo huggun finni,
- hels er ógnar myrkur svart,
- trúarljósið tendrar bjart
- andi Guðs í öndu minni.
- Allt fær brugðist annað skjótt,
- aldrei Drottins kærleiks gnótt.
- Himinn, jörð og hafið víða
- heill og blessun færa mér,
- hvert sem augað læt ég líða,
- líknarhönd míns Guðs það sér.
- Allt ber Guðs um elsku vottinn,
- allt um vísdóm hans og mátt.
- Allt í veröld hrópar hátt:
- Lof sé þér og dýrð, vor Drottinn.
- Allt fær brugðist annað skjótt,
- aldrei Drottins kærleiks gnótt.
Gerhardt - Sb. 1886 - Helgi Hálfdánarson