Sálmur

Sálmur 590

 • Faðir vor, þín eilíf elska vakir
 • yfir hverju spori barna þinna.
 • Lát þú oss, sem leitum þín og biðjum,
 • ljós þíns orðs og návist þína finna.
 • Kristur segir: Komið til mín allir,
 • kærleiksandi minn er þín að leita,
 • til að helga annir, raun og yndi,
 • innri gleði, styrk og frið að veita.
 • Lof sé þér, sem lífið átt og gefur,
 • lindin alls hins góða, fagra, bjarta,
 • einn þú ræður allt, sem huga dreymir,
 • alla dul og von í mannsins hjarta.
 • Þú, sem leggur lífsins huldu brautir,
 • lætur ást og drauma tveggja mætast,
 • gjör þau eitt í trú og von og vilja,
 • veit þeim náð að láta heit sín rætast.
 • Verið, brúðhjón, vígð til lífs með Kristi,
 • vakið, biðjið, fylgið, treystið honum,
 • verði allt, sem annað hinu gefur,
 • uppfylling á hans og ykkar vonum.
 • Látið hendur hlýna við hans loga,
 • hug og augu spegla ljós hans anda,
 • svo þið verðið gleði Guðs hvort öðru,
 • gjöf, sem blessar hamingju og vanda.
 • Dýrð sé þér í dag og allar stundir,
 • Drottinn, faðir, sonur, helgur andi.
 • Heyr þá bæn, að börn þín saman verði,
 • blessun sér og gæfa þjóð og landi.
Sigurbjörn Einarsson

 

Hljóðskrá sálms 590