Mustarðskornið

Mustarðskornið

Biblíudagurinn snýst ekki fyrst og fremst um biblíuútgáfur þótt nú séu góð tíðindi af nýrri útgáfu íslenskrar Biblíu 21. aldar, heldur um það hvernig við virðum og umgöngumst Orð Guðs í okkar lífi, hvernig það er virt og hvernig það fær að virka í okkur sjálfum.

Þá sagði hann: Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin.

Og hann sagði: Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess. Mark. 4.26-32

Hér uppi í turni kirkjunnar er gömul klukka. Hún er elsti gripur kirkjunnar og þá það elsta sem hér er í þessu húsi, frá árinu 1617, frá tímanum fyrir tyrkjaránið 1627. Á þessari klukku er að lesa kjarna úr lexíu þessa Drottins dags, sem er biblíudagurinn. Á klukkunni stendur:

Verbum Domini manet in aeternum,

sem í latneskum útgáfum Jesajabókar segir og:

Stabunt aeternum dogmata sacra Dei,

en það útleggst af þessari latínu:

Orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega,

eða af eldri þýðingum:

Orðið vors Guðs varir eilíflega.

Þessi orð eru steypt í kopar hinnar öldnu klukku, sem hringt hefur látlaust og án þess að bresta allan þann tíma sem þessi Landakirkja hefur staðið og þjónað sínu hlutverki og reyndar miklu lengur en það. Það er táknrænt fyrir varanleika Orðsins en um leið tengist saga klukkunnar sögu manndrápanna og mannránanna hér á 17. öld, hinum miklu fórnum sem eyjamenn hafa mátt þola af því að vera rík eyja í alfaraleið. Tengist það ekki síður hetjulegri baráttusögu þeirrar kristnu menningar sem hér hefur varað.

Fyrri hluti setningarinnar er einmitt um hverfulleika mannlífsins og hvernig allt í þessum heimi er dauðlegt og breytir þá engu, um þann dóm, hvort blómið var fagurt eða störinn brúnn eða svartur, grasið grænt, nýjanál að vori eða þegar tekið að fölna á hallanda sumars, hvort hetjur áttu í hlut eða venjulegt fólk. Grasið visnar og blómin fölna segir í þessum forna vitnisburði um Orð Guðs fyrir munn Jesaja spámanns: Flos perit, herba jacet, sic transit gloria mundi, Grasið visnar, blómin fölna, svo hverfur heimsins prýði. Verbum Domini manet in aeternum, Orðið vors Guðs varir eilíflega.

Um þennan varanleika orðsins getum við því ekki efast og allra síst á degi sem þessum, sjálfan biblíudaginn. Biblíudagurinn snýst ekki fyrst og fremst um biblíuútgáfur þótt nú séu góð tíðindi af nýrri útgáfu íslenskrar Biblíu 21. aldar, heldur um það hvernig við virðum og umgöngumst Orð Guðs í okkar lífi, hvernig það er virt og hvernig það fær að virka í okkur sjálfum. Við þurfum að líta lengra í þessum efnum en venjulega, því við erum sannarlega að fjalla um eilífðarmálin, mál sem hafa þýðingu langt út yfir hinn hverfula tíma sem við nú lifum. Og samt er það ekki horfinn tími eða fyrirbæri sem löngu fyrr var raunverulega til en er núna horfinn í móðu sögunnar. Orð Guðs vors varir eilíflega í þeim skilningi að við verðum að spyrja áleitinna spurninga enn þann dag í dag, líkt og gert hefur verið um aldir alda, spyrja eins og spurt hefur verið um nokkrar eilífðir. Og spurningin er í mínum huga ekki um það hvort ég ætla að slá til og gera boðskap Guðs að mottói í mínu lífi og kalla mig þá kristinn. Spurningin er um hvort Orðið verði varanlegur partur af tilveru einstaklingsins og leiði til þess að þessi tiltekni maður á tiltekinni öld, t.d. ég eða við saman, ætlum að gangast undir hlýðni við þetta eilífa orð Guðs.

Árið 1627 féll kirkja Vestmannaeyinga. Hún varð rjúkandi brunarúst. Fram að því var oft tæpt að trúa heimsins dýrð og prýði tilverunnar. Rán fóru hér fram fyrr og fyrr og síðar hafa Vestmannaeyingar mátt þola ánauð. Flest í þessum heimi hér á Heimaey hefur tekið breytingum. Hið gamla er horfið og árin sem liðin eru koma aldrei til baka. Það gerir heldur ekki landið austur á eyju eða húsin sem fóru undir í jarðeldunum 1973. Eða þá það sem einkenndi samfélagið fyrir gos. En eitt er það sem hefur staðist í lífi Eyjamanna og það eru þau orð hjá Jesaja sem eru upphafsorð þessarar prédikunar, um orðið eilífa. Meira að segja Heimaklettur, eða heimasti kletturinn af þeim þremur, hefur tekið breytingum, en það sem meira er, hann varð auðvitað einu sinni til. Sú prýði heimsins skartar sinni prýði sannarlega fyrst og fremst sökum þess hvernig hún er til komin, sköpuð ásýnd og táknmynd þessa Heimaeyjar-heims. Hinn prýðilegi heimur okkar hefur mynd sína af Orði Guðs, því í öndverðu skapaði hann himinn og jörð og allt sem prýðir þennan heim. Enn í dag er hann að vinna að sístæðri sköpun sinni, með daglegum afskiptum, hjálpæði, blessun og líkn. Hverju ættum við öðru að þakka þá björgun sem varð í þeim hremmingum sem þegar hafa verið nefndar og eru þó ónefndar fjölmargar hremmingar þess á milli að ekki sé minnst á eilífa björgun mannsins, frá manni til manns, mann fram af manni, frá degi til dags, dag eftir dag, ár og öld?

Og það höfum við sannarlega gert. Við höfum þakkað Guði og við erum enn á ný í þeim sporum að kalla eftir leiðsögn hans og björgun. Við væntum auk þess frelsunar í eilífum efnum.

Það vantar þó uppá það hjá okkur flestum að við hlýðum þessu Orði Guðs, sem talar hér til okkar, og eins þótt við eigum þessa sögu sem ég hef tæpt hér á, og jafnvel þótt við höfum margsinnis fundið að Guð er ekki aðeins góður, heldur er hann stöðugt að verki í okkar lífi. Ætli við yrðum ekki hissa, ef við heyrðum allt í einu, einsog af himni:

Heyr, kallað er:

Greiðið götu Drottins ... !

Þetta er næstum eins og gott bíómyndaatriði. Líklegasta svarið er trúlega: Ha? Ég? Eða þá: Þú hlýtur að fara mannavillt, þú hlýtur að vera að hringja vitlaust – skakkt númer! Og ef þetta væri ein amerísk spennumynd og persónan væri fulltrúi hjá einhverri skammstafaðri stofnun myndi hann sennilega flagga merki, draga úr slíðri og segja skipandi röddu á móti: Gerðu grein fyrir þér, Identify yourself!

Í nútímanum er töluvert um ólæsi á birtingu hins himneska í mannlegum veruleika. Það hefur verið svo á öllum tímum, enda er eina skýrustu sönnun þess að finna í þeirri staðreynd að Jesús talaði yfirleitt í líkingum eða dæmisögum til samtímamanna sinna. Og svo þegar nýir tímar renna upp hefur það ekki nema takmarkaða þýðingu að endurtaka þær dæmisögur eða líkingar. Við hljótum að vera frekar illa læs á það sem átti þó frábærlega við á þessum forna tíma. Margt af því sem sagt er í Biblíunni á þennan hátt hefur skilað sér ótrúlega vel til nýrra og nýrra kynslóða, en það er af því að því hefur verið haldið á lofti og sögurnar hafa verið sagðar og skýrðar. Gömlu myndrnar hafa reynst sígildar á sinn hátt, en allir þeir atvinnuhættir og menningarlegar aðstæður sem þær eru sprottnar úr, hafa fyrir löngu horfið. Og erfitt er oft að greina þarna á milli. Við gætum freistast til að segja sem svo að þessi texti sé allur meira og minna sögulega skilyrtur. Vissulega er hann það af því hann er sagður í tilteknum aðstæðum. Það er hins vegar hálfgerð trúvilla að draga þá ályktun að textinn eigi bara ekki allskostar við í nútímanum, því hann er nefnilega sannur og eilífur þrátt fyrir sögulegt og samtímalegt mót sitt, líkingar og myndir. Það er þó í hinni yfirborðslegu guðfræði sem textinn er meðhöndlaður af æði mörgum í okkar samtíð, því miður. Það hefur leitt til þess að oft er biblíutextinn afgreiddur á þann hátt og strikaður út. Og þunn verður Biblía þeirra á endanum, líklega eitthvað svipuð Biblíu Hitlers, sem tókst það þrekvirki á hendur að þurrka út allt um Gyðinga!

Það er sagt að ekki sé þörf að fara eftir þessu eða hinu. Það sé eins og gamalt fat sem ekki haldi lengur því vatni sem bera þarf áfram. Þessi stefna hentar nútímamninum afar vel og þeim lífsstíl sem hann lifir. Hann vill ekki vera bundinn og hefur á stórum hluta tuttugustu aldar skapað sjálfum sér frelsi og vald sem er að verða honum næsta óbærilegt. Tilveran einkennist næstum því af óbærilegum léttleika mannlegrar sjálfselsku.

Þessi kynslóð mun þreyta sitt skeið á enda því þannig hefur það verið um aldir alda. Ég hef ekki áhyggjur af því að fólk misnoti frelsi eða vald eða getu sína. Því meira frelsi í mannlegu samfélagi og því meira réttlæti því betur fær mannlífið þrifist. En það frelsi sem Drottinn býður og það frelsi sem fólgið er í eilífu orði Drottins er hið innra frelsi hvers manns undan oki og dróma heimsins. Frelsi undan sjálfhverfu mannsins. Ég held við þurfum enn á okkar tímum að óttast það mikla ólæsi sem er á þetta frelsi og þá einnig í stærra samhengi, ólæsi á samverkun hins guðlega og hins mannlega. Vegna hraðans og hins frábæra frelsis hvers manns til hugsjóna og athafna, sem aldrei hefur verið í jafn ríkum mæli á nokkrum tíma í sögu mannins, vegna alls þess er maðurinn hefur fengið að upplifa af prýði heimsins og kostulegum möguleikum nútímamannsins, einmitt vegna þess þarf hann nú sem aldrei fyrr að keppast við að sjá hina eilífu andrá þessarar samverkunar mitt í iðandi mannlegri reynslu – og lesa hana rétt.

Trú okkar þarf að byggja á hlýðni okkar við Orð Guðs eins og þar sé að birtast boð frá hinum himneska veruleika Guðs til hins mannlega veruleika okkar. Túin getur ekki verið sprottin af upplifun einstaklingsins og ekki óskýrðri dulúð. Ef hún er hins vegar sprottinn af Orði Guðs er hún sprottin af þeim sannleika sem það birtir, sannleikanum í Jesú Kristi. Á því er einmitt munur, sem allir geta séð, hvort líf okkar er í þessum sannleika, byggt á sannleikanum og hvort það beri sannleikanum vitni.

Orðið opinberar sig sannarlega í huga hvers og eins þegar það lýkst upp fyrir honum eins og opin bók að Guð er að verki í lífi hans. Þegar það gerist birtist Orð Guðs sem himneskur sjálfstæður veruleiki sem verkar á hinn jarðneska veruleika innan frá og á allan annan hátt. Við þessa opnun getum við lesið það í okkar eigin lífi að Orð Guðs er sannleikurinn og helgun lífsins í minni eigin mannlegu reynslu.

Og er það ekki satt, er Jesús Kristur birtir þetta undirstöðuatriði kristinnar trúar í sjálfum sér, holdtekningu orðsins og segir: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Ef líf okkar er þannig sprottið af Orði Guðs, sprettur það upp eins og stærsta tré af minnsta fræi, vex og dafnar, á vegi lífsins, í sannleika, í eilífri dýrð og fögnuði, í ljósi Guðs.

Landakirkja 11. febrúar 07 – Biblíudagurinn