Ísrael 70. ára – þriðji hluti

Ísrael 70. ára – þriðji hluti

Fjöldaflótti Palerstínumanna 1948. Vorið 1948 pökkuðu Bretar saman, uppgefnir eftir hildarleik heimsstríðins, og héldu heim. Þeir skildu eftir sig algera ringilreið í Palestínu. Bæði gyðingar og arabar frömdu þá hræðileg hryðjuverk hvor á öðrum í baráttu um yfirráð.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
19. júlí 2019

Fjöldaflótti Palerstínumanna 1948.

Vorið 1948 pökkuðu Bretar saman, uppgefnir eftir hildarleik heimsstríðins, og héldu heim. Þeir skildu eftir sig algera ringilreið í Palestínu. Bæði gyðingar og arabar frömdu þá hræðileg hryðjuverk hvor á öðrum í baráttu um yfirráð. Þekktasta fjöldamorðið átti sér stað í bænum Deir Yasin. Það er lítill arabískur sveitabær við veginn til Jerúsalem. Þótt bærinn hefði samið um frið við varnarsamtök gyðinga réðst deild hryðjuverkamanna gyðinga frá hryðjuverkasamtökunum Irgun og Sterlingan á bæinn 9. apríl 1948. Þeir mættu mótspyrnu og nokkrir hryðjuverkamannanna voru felldir. Félagar þeirra hefndu sín með því að láta vélbyssuhríð rigna yfir bæinn. Margir bæjarbúa féllu undan vélbyssukúlunum. Þeim sem lifðu af kúlnahríðina var smalað saman og stillt upp við vegg þar sem gyðingar skutu þá alla með köldu blóði. Talið er að gyðingar hafi þar myrt um 250 bæjarbúa. Mörg fleiri samfélög araba urðu fyrir samskonar árásum. En örlög bæjarbúa í Deir Yasin áttu eftir að hafa mikil áhrif. Gyðingar notuðu þessa hryllilegu atburði til þess að hræða araba og hrekja þá á flótta. Afleiðingan varð að 350.000 manns höfðu yfirgefið landið þegar Ísraelsríkið var stofnað.

Hið langa stríð Ben-Gurions.

David Ben-Gurion varð fyrsti forsætisráðherra Ísraels hins nýja. Hann hafði komið árið 1906 sem ungur maður til Palestínu frá hinum rússneska hluta Póllands. Árið 1948 var hann orðinn 62 ára kall með skalla. En hann hafði helgað allt líf sitt baráttunni fyrir ríki gyðinga. Hann hafði barist af hörku á frumkvöðlaárunum við óblíða náttúru, araba og Breta, fengið malaríu og verið gerður útlægur af Tyrkjum í Fyrri heimsstyrjöldinni. Þá flúði hann til USA. Maður hefði því getað talið að hann væri ánægður eftir stofnun ríkisins árið 1948. En dagbækur hans sýns að svo var ekki. “Landið gleðst og heldur hátíð – en enn einu sinni syrgi ég meðal fagnandi” skrifaði hann þar. Hann hafði líka ástæðu til að óttast. Sama kvöld héldu herdeildir Egypta til Sínaí, til að ráðast á Ísraelsríkið nýja. Og fleiri arabaríki bættusr við. Innanlandsófriðurinn varð því að styrjöld Ísraels við heri Egypta, Sýrlendinga, Líbana, Íraka og Jórdana, sem þá hétu Trans – Jórdanía. Egypskar flugvélar létu sprengjum rigna yfir Tel Aviv. En þó löndin væru fjölmenn töldu herir þeirra ekki nema um 80.000 hermenn. Ísraelsmenn réðu yfir 60.000 hermönnum og mörgum hertum eftir áratuga stríð og skærur. Þó voru aðeins 19.000 þeirra vopnaðir og búnir til átaka þegar stríðið braust út. Styrjöldin gekk undir mörgum nöfnum. Arabar kölluðu hana “Fyrsta Palestínska stríðið”, Palestínumenn “Hörmungarnar” og Ísraelsmenn “Frelsisstríðið”. Ísraelsmönnum tókst að hrekja burt herdeildir Egypta, Sýrlendinga og Líbana. Og leggja undir sig stór svæði Palestínuaraba. Fyrir Palestínuaraba varð stríðið að sannkölluðum “Hörmungum”. Ísraelsmenn hröktu á flótta íbúa margra þeirra svæða sem þeir lögðu undir sig. Margir flýðu á náðir nágrannalandanna. Þeir hafa ekki enn átt þaðan afturkvæmt. Af 860.000 aröbum sem höfðu búið á því svæði sem varð Ísrael, fengu aðeins um 133.000 að vera um kyrrt. Afgangurinn lenti í flóttamannabúðum á Vesturbakkanum sem Trans- Jórdanía stjórnaði, eða á Gaza, sem Egyptar stjórnuðu. Afgangurinn dreifðist um Líbanon, Sýrland og Egyptaland. Enn í dag má finna flóttamannabúðir Palestínuaraba í nágrannaríkjum Palestínu, þar sem flóttamenn hafa dvalið í margar kynslóðir.

Hvort þessir flóttamenn fái að snúa aftur heim til Palestínu er ein af stóru spurningunum varðandi þær deilur sem enn eru uppi milli Palestínumanna og Ísraela.

Ísrael 70 ára - fimmti hluti

Það að arabalöndunum mistókst að ná aftur þeim landsvæðum sem glatast höfðu í Sex daga stríðinu varð til þess að landnám Ísraelsmanna jókst á hernumdu svæðunum, bæði á Vesturbakkanum og í Austur – Jerúsalem

Ísrael 70. ára – fjórði hluti

Arabar áttu erfitt með að kyngja ósigrinum árið 1948 sem ég sagði frá í síðasta pistli. Árið 1952 efldist stolt araba þegar Gamal Abdel Nasser tók völdin í byltingu hersins í Egyptalandi og neyddi Breta til að yfirgefa landið.

Ísrael 70. ára – annar hluti.

Síonisminn, eða þjóðernishyggja gyðinga, varð til í lok 19. aldar og það var Austurríkismaðurinn Theodor Herzl sem mótaði stefnuna á fyrsta þingi Síonista í Basel árið 1898 með bók sinni “Gyðingaríkið”.