Gullna reglan og innflytjendur

Gullna reglan og innflytjendur

Umfram allt, virðum hvort annað sem manneskjur, sem börn Guðs, hvort sem við erum kristin eða múslímar, frá Íslandi, Litáen, Póllandi, Ísrael, Palestínu, Danmörku eða Filipseyjum. Hættum að skipta þeim sem hér búa í "Við" og "Þessir hinir".
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
19. nóvember 2006

Gullna reglan svokallaða er ein megin undirstaða siðfræði Vesturlandabúa eins og ég hef áður bent á hér á tru.is. Hana er að finna í ræðu Jesú Krists í Matteusarpguðspjalli og hún hljóðar þannig með orðum hans:

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra
Í ljósi þessarar grundvallarreglu er sorglegt hvernig heyrst hefur talað um innflytjendur í skúmaskotum hér á landi að undanförnu. "Þessir" innflyjendur eru sagðir "pakk", það þarf að vernda börnin okkar fyrir "þeim", "þeir" eru allir nauðgarar og glæpamenn, best væri setja "þá" í gám og senda þá burt af landi ... og margt hefur verið sagt þaðan af verra. Saga 20. aldarinnar sýnir hvert slík orðræða leiðir.

En þegar "Við" flytjum til útlanda ætlumst "Við" til að vel sé á móti okkur tekið. Um 20-30.000 Íslendingar búa erlendis. Ekki viljum við að þeir séu úthrópaðir glæpamenn eða þeirra menning fyrirlitin. Sjálfur hef ég búið í ein 7 ár á erlendri grundu. Vinátta heimamanna og viðmót var mér þá ómetanlegt. Sömuleiðis gat áhugaleysi og fyrirlitning sumra á okkur Íslendingum sært mig djúpt.

"Þeir" sem hingað flytja til "Okkar" auðga landið og menninguna. "Við" ættum að taka á móti "Þeim" eins og við vildum að "Þeir" tækju á móti "Okkur" eða bönum okkar þegar við flytjum erlendis til náms og starfa. Og "Við" ættum reyndar að ganga skrefinu lengra. "Við" og "Þau" erum jafn ólík eða lík hvert og eitt eins og við erum mörg. Tökum vel á móti fólki sem vill auðga okkur með reynslu sinni, menningu sinni og trú. Umfram allt, virðum hvort annað sem manneskjur, sem börn Guðs, hvort sem við erum kristin eða múslímar, frá Íslandi, Litáen, Póllandi, Ísrael, Palestínu, Danmörku eða Filipseyjum. Hættum að skipta þeim sem hér búa í "Við" og "Þessir hinir".

Það er að segja, ef við viljum að Gullna reglan sé áfram leiðarljós okkar í þessu landi.