Fiðrildi og falsspámenn

Fiðrildi og falsspámenn

Í sjónvarpinu var í vikunni fræðsluþáttur á vegum BBc. Sjónvarpsmaðurinn góðkunni David Attenborough, sýndi okkur m.a. fiðrildi úr skógum Amazon. Þau voru af öllum regnbogans litum. Fegurð og fjölbreytni, sem kallar fram lofgjörð um sköpun Guðs, einkenndi þau. Eitt af því sem hann dró fram var að sum skrautlegustu fiðrildanna voru eitruð og því áttu þau síður á hættu að vera etin.

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. Matt 7.15-23

Í sjónvarpinu var í vikunni fræðsluþáttur á vegum BBc. Sjónvarpsmaðurinn góðkunni David Attenborough, sýndi okkur m.a. fiðrildi úr skógum Amazon. Þau voru af öllum regnbogans litum. Fegurð og fjölbreytni, sem kallar fram lofgjörð um sköpun Guðs, einkenndi þau. Eitt af því sem hann dró fram var að sum skrautlegustu fiðrildanna voru eitruð og því áttu þau síður á hættu að vera etin. Síðan benti hann á mörg fiðrildi sem ekki voru eitruð, en voru sláandi lík hinum eitruðu. Svo lík að mannlegt auga átti mjög erfitt með að greina muninn. Hið sama gilti um skordýraætur. Þá spurði Attenborough hvernig fiðrildin sjálf gætu forðast kynblöndun, fyrst þau væru svo sláandi lík. Þá kom nokkuð merkilegt í ljós. Fiðrildin sjálf hafa sjónsvið sem nemur infrarauða geisla. Það sýndi að fiðrildin voru afar ólík í infrarauðu ljósi. Sá munur hjálpaði þeim að greina sína eigin tegund, sem kom m.a. í veg fyrir kynblöndun.

Fjallræðan og falsspámenn

Guðspjall dagsins er tekið úr niðurlagi fjallræðu Jesú. Fjallræðan var töluð til lærisveina hans, fólksins, sem var með honum á fjallinu. Að því leiti er hún töluð beint til kristinna safnaða í dag. Hún byggir á því að guðsríkið er komið í Jesú og fyrirgefning syndanna. Jesús hefur ræðu sína á sæluboðunum, „Sælir eru fátækir í anda, því þeirra er himnaríki.“ Hann kennir af myndugleika, eins og sá sem valdið hefur. Hann leiðréttir og útleggur boðorð og gefur þeim dýpri og ríkari merkingu. „þér hafið heyrt að sagt var... en ég segi yður.” Í fjallræðunni talar sá sem sagði við lærisveina sína: „Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum”. Hann gefur til kynna að hann sé sá sem muni dæma „á þeim degi”, sem er hinn efsti dagur. Jesús hefur sjónsvið, líkt og fiðrildin, sem sér allt og þekkir allt. Á efsta degi mun hann skera úr: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér illgjörðamenn.“

Jesús varar við hættu. Hann segir að fram muni koma falsspámenn. En spámaður er sá sem talar í nafni Drottins. Í nútímanum má segja að það séu þeir sem leiða söfnuði, prestar og forstöðumenn, djáknar, kennarar í söfnuðum og trúboðar.

Jesús varar í guðspjallinu við falsspámönnum sem komi í sauðaklæðum en eru gráðugir vargar. Þeir villa á sér heimildir. Þeir koma fram sem vammlausir og flekklausir kennimenn, prédika guðs orð í nafni Jesú og framkvæma tákn í hans nafni. M.ö.o. hafa tileinkað sér orð og atferli sinnar kirkju til að komast í aðstöðu, sem gerir þeim kleift að vinna að eigin sjálfsmiðlægu markmiðum. Því miður tengjast þau oft því að ná völdum, safna auði og notfæra sér veikleika safnaðarmeðlima. Hrikalegustu dæmin eru leiðtogar sem hafa leitt heilan söfnuð út í sjálfsvíg. En hér á landi hafa komið upp sorgleg og alvarleg mál innan safnaða sem tengjast leiðtogum. Jesús varar við. Það þýðir að hann ætlast til þess að við séum ekki auðtrúa eða ginkeypt, heldur séum á varðbergi og gerum ráð fyrir syndinni.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá

Á Íslandi er tófan óvinur sauðkindarinnar. Hún leggst á fé, þegar aðra fæðu þrýtur. Það má því segja að þar sem ekki er reynt að halda tófu í skefjum þagni fuglasöngurinn smám saman í kjarri og móa.

Þá má því spyrja hvort unnt sé að koma í veg fyrir að slíkir falsspámenn komist til áhrifa?

Kirkjur og söfnuðir hafa ýmis ráð, þó seint verði hægt að koma í veg fyrir það að öllu leyti. Höfum það í huga að Jesús sagði að þeir kæmu í sauðaklæðum til að villa á sér heimildir, en benti á að það mætti þekkja þá af ávöxtunum.

Jesús bendir kirkjunni á að skoða vel ávextina af lífi þeirra og starfi, því aðeins gott tré beri góða ávexti. Það er verkefni allra kirkna. Mig langar í því sambandi að nefna fáein atriði.

Þjóðkirkjan er evangelísk lúthersk, sem segir okkur hvaða áherslur skulu vera í boðun hennar. Ef prestar og djáknar prédika og kenna eitthvað annað en játningarnar og vígsluheitið segja til um er unnt að taka á því. Safnaðarmeðlimir koma með kvartanir til prófasts eða biskups.

Reglur um fjármál safnaða eru skýrar. Sóknarnefndir sjá um fjármál og rekstur safnaða, en prestar og djáknar sjá um boðun, fræðslu og sálgæslu. Það er mikilvægur varnagli.

Þjóðkirkjan hefur komið sér upp skýrum reglum um kynferðisbrot og meðhöndlun þeirra. Siðareglur og starfsreglur eru skýrar hjá kirkjunni og þeim samtökum sem starfa innan hennar. Hver sá sem vill starfa í söfnuði verður að veita samþykki fyrir því að sakaskrá sé skoðuð.

Allt eru þetta mikilvægir þættir hjá Þjóðkirkjunni sem eiga að vernda söfnuðinn. Kirkjan horfist í augu við raunveruleikann og tekur mið af orðum frelsarans. Hún lærir af reynslunni og reynir að bera góðan ávöxt.

Ég þekki mína og mínir þekkja mig

Þegar ég var á fyrsta ári í guðfræðideild Háskóla Íslands vissi ég það eitt að ég stefndi að því að verða prestur. Ég var með fjarska óljósar hugmyndir um starfið. Presturinn minn í sunnudagaskólanum í Neskirkju var sr. Jón Thorarensen. Í minningunni var hann oftast í svörtum jakkafötum og með hvítan prestaflibba. Alls ekki alvarlegur, heldur lifandi og skemmtilegur. Sagði okkur sögur sem gerðu okkur að betrri börnum, og það geislaði af honum gleði og góðmennska. Hann var mér fyrirmynd, sem mig langaði til að líkjast. Mig langaði til að kynnast þeim Jesú sem hann kenndi mér um.

Í 10. Kafla Jóhannesarguðspjalls segir Jesús:

„Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.  Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“

  Jesús leggur áherslu á að hann þekki börnin sín og ekkert geti slitið þau úr hendi hans. Í skírninni erum við færð Guði og erum merkt honum á enni og brjósti. Við erum börnin hans. Jesús þráir að kynnast fólki. Það sjáum við í því að hann var stöðugt að heimsækja það. Hann ræddi við fólk og það áttaði sig á því að hann þekkti líf þess og hjarta. Þeir sem áttuðu sig á því að hann væri kristur urðu breyttar manneskjur. Jesús er góði hirðirinn og það er gott að tilheyra honum og vera þekktur af honum. Elska hans er eilíf.

Í pistlinum segir Páll: „Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs.

Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ “

Sálmarnir okkar segja Abba, faðir, á mismunandi vegu s.s. Ástarfaðir himinhæða, og Ó, faðir, gjör mig lítið ljós. Syngjum því af hjartans einlægni, fullviss um að við séum börn Guðs.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.