Er vitlaust gefið á kirkjuþingi?

Er vitlaust gefið á kirkjuþingi?

Vissulega væri hér komið stjórnkerfi fyrir kirkjuna sem bæri keim af stéttarþingum 19. aldar þar sem gerður er greinarmunur á vígðum og óvígðum og valdsviði hvors um sig. Hugsanlega væri hér þó fundin leið til að ráða fram úr þeim lýðræðishalla sem nú gætir vissulega í stjórnkerfi þjóðkirkjunnar og dregur úr áhrifum hins óvígða fjölda í kirkjunni.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
21. mars 2017

Hér um kvöldið átti ég kost á að taka þátt í líflegri umræðu á vegum safnaðar norður í landi. Talið snérist um lýðræði og þátttöku óvígðra í ákvarðanatöku og stjórnun þjóðkirkjunnar. Þetta eru auðvitað grundvallaratriði í kirkju sem kennir sig við þjóð og vill starfa í þeim anda sem þjóðkirkjum hefur verið ætlað frá upphafi. Þar á frumkvæðið að eiga upphaf sitt í söfnuðunum, grasrótinni, en ekki í hátimbruðu valdakerfi.

Lýðræðishalli Á fundinum var meðal annarra maður með langa reynslu af forystustörfum í heimasókn sinni en er einnig vel heima á „efri“ stjórnsýslustigum þjóðkirkjunnar. Hann benti á að á kirkjuþingi hallaði mjög á óvígða þrátt fyrir að þeir séu í fimm atkvæða meirihluta á þinginu en þar sitja 17 óvígðir og 12 prestar. Auk þess eiga svo setu þar þrír biskupar og fulltrúi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar með málfrelsi og tillögurétti en án atkvæðisréttar.

Ef svo vildi til að kirkjuþing klofnaði í vígða og óvígða út af einhverju máli ráða úrslit óvígðra alltaf úrslitum þar sem þeir eru í meirihluta. Þessa eru þó tæpast mörg dæmi. Reynsluboltinn benti enda á að þrátt fyrir þetta hallaði alltaf á leikmenn hvað áhrifavald varðar. Rökstuddi hann það með því að hinir vígðu, auk þeirra sem seturétt eiga og öll eru meira eða minna vígð(!), væru fagmenn á heimavelli í öllum málum sem kæmu til kasta þings. Því væru forsendur þeirra alltaf mun betri en hinna óvígðu til að setja sig inn í mál og taka afstöðu til þeirra. Rödd þessara sérfræðinga mætti sín því ætíð meira í umræðunum sem auðvitað mótar niðurstöðuna. Auk þess vildi hann svo halda því fram að prestar og guðfræðingar væru atvinnumenn í að koma fyrir sig orði. — Vissulega má fallast á þessa gagnrýni. Samt vil ég slá varnagla við síðast talda atriðið. Á kirkjuþingi situr margt óvígt fólk sem er sérfræðingar á sínu sviði og/eða þaulvant félagsmálafólk, jafnvel alþingismenn ef ekki ráðherrar. Ekki má því varpa rýrð á færni hinna óvígðu þótt þekking þeirra og reynsla kunni að liggja á öðrum sviðum en hinu kirkjulega.

Hvað er til bóta? Ábendingar sem þessar ber að taka alvarlega. En hvað er til úrbóta?

Nú sitja á kirkjuþingi 29 fulltrúar með atkvæðisrétt auk biskupanna þriggja. Fulltrúa Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar ber að mínu mati einkum að skoða sem óháða rödd sem hefur það hlutverk að breikka umræðuna líkt og þegar utanaðkomandi fulltrúar sitja í stjórnum eða ráðum stofnana af ýmsu tagi (t.d. háskólaráði). Hér verður athyglinni einkum beint að kjörnum fulltrúum á þinginu sem sitja þar með atkvæðisrétti.

Kjörnar samkomur á borð við kirkjuþing verða að vera nægilega fjölmennar til að endurspegla þau félög, samtök eða stofnanir sem þeim er ætlað að leiða í allri sinni breidd. Eigi kirkjuþing að uppfylla það skilyrði má það ekki vera fámennara en nú er. Á hinn bóginn eru einnig veigamikil rök gegn því að það verði öllu fjölmennara. Nægir þar að benda á kostnaðarrökin þótt afleitt sé ef þau væru látin vega þyngra en lýðræðisrök.

Vissulega má spyrja hvort 17 óvígðir fulltrúar geti talist endurspegla þjóðkirkjuna um land allt í öllum sínum fjölbreytileika. Miðað við fjölda þeirra má á hinn bóginn draga stórlega í efa að það þurfi raunverulega 12 fulltrúa til að endurspegla íslensku prestastéttina sem ekki er ýkja fjölmenn. Þá má loks spyrja: Ef grundvallarreglan er sú að óvígðir skuli vera í meirihluta á kirkjuþingi eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 21. gr. þjóðkirkjulaganna hvaða rök eru þá fyrir því að atkvæðamunurinn skuli einmitt vera fimm atkvæði?

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt er áleitin spurning hvort ekki beri að stokka rækilega upp á kirkjuþingi með því að breyta hlutföllum vígðra og óvígðra. Nægir t.a.m. ekki 9 presta á kirkjuþingi til að endurspegla hina vígðu stétt? Þannig mætti fjölga óvígðum fulltrúum í 20 og vinna þar með gegn a.m.k. óbeinum lýðræðishalla sem vissulega má fallast á að sé til staðar á þinginu.

Snyrtileg þjóðkirkjuskipan Færa má margs konar rök gegn þeirri hugmynd sem hér hefur verið reifuð. Þau augljósustu eru þau að fjölmörg mál sem koma til kasta kirkjuþings séu guðfræðileg eðlis eða hafi a.m.k. beinar eða óbeinar guðfræðilegar afleiðingar. Þá eru þungvæg kirkjuleg rök fyrir því að þeim sem gegna vígðum embættum í kirkjunni beri að hafa sterka — ef ekki ráðandi — stöðu þegar um kirkjuleg málefni eru leidd til lykta. Aftur á móti má spyrja hvort þau rök eigi við um öll kirkjuleg málefni eða aðeins sum.

Hér skal spurt hvort ekki sé ráðlegt að greina kirkjuleg málefni niður í þrjá flokka. Í fyrsta flokknum væru þá mál sem lúta að réttarstöðu þjóðkirkjunnar, réttindum hennar og skyldum; í öðrum flokknum ytri málefni kirkjunnar sem lúta að fjárstjórn hennar, rekstri, skipulagi og starfsháttum (að vissu marki) og loks innri mál sem lúta að boðun, helgihaldi og þeim málum sem lúta beint að „kjarnastarfsemi“ þjóðkirkjunnar.

Alþingi ber auðvitað að setja lög um réttarstöðu þjóðkirkjunnar að svo miklu leyti sem það heyrir ekki undir þjóðina sjálfa. Þessi mál koma til kasta hennar þegar um stjórnarskrárbreytingar er að ræða.

Jafnframt hlýtur að vera ljóst að þau sem gegna vígðu embætti í kirkjunni hljóta að bera meginábyrgð á innri málunum eins og þau eru afmörkuð hér. Aftur á móti má spyrja hvort ekki sé a.m.k. óhætt ef ekki beinlínis æskilegt að tempra áhrif þeirra og völd í ytri málunum sem sjaldnast fela í sér guðfræðileg jarðsprengjusvæði.

Hér skal þeirri hugmynd varpað fram að á næstu 10 árum verði stefnt að því að til verði þjóðkirkjulög sem aðeins lúta að réttarstöðu, réttindum og skyldum þjóðkirkjunnar. Eðlilegt er að stefna að þessu marki í tveimur umferðum, þ.e. í þeirri sem væntanlega lýkur á hausti komanda og svo annarri innan áratugar.

Þá skal lagt til að „prestastefna“, þ.e. samkoma hinna vígðu, presta og djákna, hafi ákvörðunarvald í innri kirkjumálunum, sem sé öllum málum sem lúta að helgihaldi og kenningu og skyldum málum. Þegar slík mál hafa verið leidd til lykta á þeim vettvangi ættu þau að koma til staðfestingar á kirkjuþingi. Telji kirkjuþing þar sem óvígðir væru í miklum meirihluta að ekki verði fallist á ákvörðun hinna vígðu — sem vissulega er ólíklegt — færi málið einfaldlega til frekari vinnslu á vettvangi „prestastefnu“.

Kirkjuþing (með breyttum hlutföllum vígðra og óvígðra) hefði svo ákvörðunarvald í ytri kirkjumálunum. Slík mál væri eftir atvikum rétt að kynna og fjalla um á „prestastefnu“ áður en þau væru leidd til lykta á kirkjuþingi.

Vissulega væri hér komið stjórnkerfi fyrir kirkjuna sem bæri keim af stéttarþingum 19. aldar þar sem gerður er greinarmunur á vígðum og óvígðum og valdsviði hvors um sig. Hugsanlega væri hér þó fundin leið til að ráða fram úr þeim lýðræðishalla sem nú gætir vissulega í stjórnkerfi þjóðkirkjunnar og dregur úr áhrifum hins óvígða fjölda í kirkjunni.