Flóttavegurinn

Flóttavegurinn

Þannig hafa hóparnir farið flóttaveginn, milljónir og aftur milljónir. Fólk á flótta. Saklaust fólk. Fórnarlömb hins illa. Til að bjarga lífi og limum, til að forða börnum sínum frá hungurdauða eða óðum morðhundum. Fólk sem hrakið er af heimilium sínum - sleppur á burt, ef til vill með með fátæklegar föggur í pokaskjatta.

Svo yrkir skáldið Snorri Hjartarson í ljóðasafninu, Lauf og stjörnur er út kom árið 1966.

Ég heyrði þau nálgast í húminu beið á veginum rykgráum veginum

Hann gengur með hestinum höndin kreppt um tauminn gróin við taumin

Hún hlúir að barninu horfir föl fram á nóttina stjarnlausa nóttina.

Og ég sagði; þið eruð þá enn sem fyrr á veginum flóttamannsveginum

en hvar er nú friðland hvar fáið þið leynzt með von ykkar von okkar allra ?

Þau horfðu á mig þögul og hurfu mér sýn inn í nóttina myrkrið og nóttina

Það er ekki erfitt að lesa í hvert skáldið er að vísa í með ljóði sínu. Hver eru þessi þið, sem hann talar um. Það eru væntanlega María, Jósep og barnið Jesús. Fólk á flótta.

Flóttinn til Egyptalands heitir þetta í ritningunni. Í Egyptalandi var á þeim tíma griðland ofsóttra; þar var hæli og skjól.

En ástæða þessa ferðalags Maríu og Jóseps er helgisögn er Mattheusarguðpjall geymir. Þegar konungurinn Heródes fregnar að fæddur sé sveinn í ríki hans, er spáð er um verði konungur, þá lætur hann það ekkert þvælast fyrir sér, hefur engar vöflur, heldur skipar að öll sveinbörn í Betlehem og nágrannasveitum skuli aflífuð. Dauðasveitir konungs fara um og myrða öll nýfædd sveinbörn. En María og Jósep komast undan til Egyptalands og dvelja þar, samkvæmt helgisögninni, uns þau telja öruggt að snúa aftur til Galíleu.

Þetta er sterkt ljóð og áleitið eftir skáldið frá Hvanneyri. Hann bindur saman helgisögnina af flóttanum til Egyptalands og hlutskipti flóttafólks um aldir, frá öndverðu fram á okkar tíma. Það er myrkur í þessu ljóði. Þungt yfir. Nóttin er stjarnlaus - flóttafólkið er þögult, hefur engin orð uppi, svarar engu, þau halda bara áfram inní nóttina og myrkrið.

Og þannig hafa hóparnir farið flóttaveginn, milljónir og aftur milljónir. Fólk á flótta. Saklaust fólk. Fórnarlömb hins illa. Til að bjarga lífi og limum, til að forða börnum sínum frá hungurdauða eða óðum morðhundum. Fólk sem hrakið er af heimilium sínum - sleppur á burt, ef til vill með með fátæklegar föggur í pokaskjatta - oft í hópum, eins og hjörð sem rennur undan smalahundum - fólk sem veit ekki hvernig dagurinn endar, eða þá hvernig morgundagurinn verður, eða hvort hann verður yfirleitt. Veruleiki flóttafólksins er hluti mannkynssögunnar, ófagur, blóðugur partur af sögu átaka, ofbeldis og grimmdar.

Við lok síðari heimsstyrjaldar skiptu flóttamenn í Evrópu tugum milljóna. Flestir þeirra voru þýskir, að stórum hluta konur og börn og gamalmenni; fólk úr austurhéruðum Þýskalands er flúði grimmilega hemdarinnrás Rússa. Og stór hluti þessa fólks var lútherskt fólk er flúði blómleg landbúnaðarhéruð Slesíu og Pommern og Austur Prússlands, er lögð voru í rúst og síðar innlimuð í Pólland.

Í skugga þessa veruleika, á árinu 1947 voru stofnuð samtök lútherskra kirkna, Lútherska heimssambandið - er lagt sig hefur eftir því að vinna að réttlæti og friði og hlú að þeim sem eru fórnarlömb. Flest eru þau nú utan Evrópu. Og margir eru þeir sem þrá ekkert heitar en að komast til Evrópu og byrja þar nýtt líf.

Það hefur verið sagt að forfeður okkar sem numu land á Íslandi á níundu og tíundu öld hafi verið flóttamenn, undan ofríki Noregskonungs. Það er hæpin sögutúlkun. Þeir sem hingað komu, þeirra á meðal Skallagrímur er lagði undir sig Mýrar og Borgarfjörð og setti bú sitt á Borg, voru hluti af norskri yfirstétt, valdsmenn og höfðingjar sem urðu undir í valdabaráttu við Harald hárfagra er vildi sameina mörg smáríki í Noregi í eitt. En landnámshöfðingjarnir höfðu með sér fólk er þeir höfðu tekið herfangi í á Bretlandseyjum og á Írlandi: fólk sem hafði kannski svipaða stöðu og flóttamenn; ófrjálst fólk sem réði sér ekki sjálft og líf þess og líðan hafði nú ekki mikla vikt meðal herrafólksins og húsbændanna. Í ambátta- og þrælaliði Skallagríms var Brák hin írska, sem leikkonan Brynhildur Guðjónsdóttir hefur gert svo frábær skil í meistaraverki sínu á fjölunum hér í Landnámssetri. Abáttin ófrjálsa, Brák gaf líf sitt svo að Egill, sonur fólsins Skallagríms, fengi að lifa.

En flóttamenn ber að ströndum okkar gjöfula lands. Ekki ber íslensk löggjöf fagurt vitni um hug okkar til þeirra sem vilja leita hér griða. Endalaust berast okkur fréttir af brottvísun hælisleitenda og dapurlegum aðbúnaði þeirra sem einhvern veginn hafa þó komist í gegn um tollmúrana og eru vistaðir hér í óvissu og óöryggi og vita það eitt að þau eru ekki velkomin. Svo heimtum við samúð og skilning á kjörum okkar hjá útlendu fólki sem íslenskrar fjármálastofnanir, í skjóli vanhæfra stjórnmálamanna, hafa hlunnfarið og skilið eftir á vonarvöl.

Í kreppu og erfiðleikum er fátt hollara þjóð sem horfir með hrolli á efnahagsumhverfið, en að opna faðminn og taka við þeim sem, þó ekkert eiga og ekkert hafa og óttast um líf sitt ef þau verða send á heimaslóðir. Þrátt fyrir aðsteðjandi erfiðleika, tekjusamdrátt, niðurskurð, erfiðari skuldir er samfélag okkar í grunninn gott og ríkulega búið. Við erum við þess fullmegnug að vera veitul, lúta og líkna þeim sem ekkert eiga og lifa, - líkt og Marteinn Lúther sagði framgöngu hins kristna manns - að vera glöð og fagnandi fyrir hverjum manni og gera hinum þurfandi vel.

“hvar fáið þið leynst með von ykkar, von okkar allra ? “ spyr skáldið í ljóði sínu. Þá eins og birtir. Von er þó, þrátt fyrir allt, þrátt fyrir stjarnlausa nótt og orðvana foreldra á rykugum flóttamannsveginum.

Vonin er Jesús, barn jólanna. Guð birtir sig í mynd barnsins, ekki sem hugljómun eða leiftur í heimi sálar- hann fæðist inní heiminn; heiminn sem er í senn undursamleg sköpun Guðs, dýrðaríki hafs og jarðar, heiminn sem gefur okkur fæðu og fóstur - jólabarnið kemur líka inn í heim sem er markaður myrkraverkum mannanna, blóðþorsta og illmennsku, miskunnarleysi og hatri. Jesús verður hluti af þessum heimi og deilir hlutskipti með okkur.

Vonin er þá samt, þrátt fyrir myrkur og dapurlegar horfur. “Hann gengur með hestinum, höndin kreppt, um tauminn gróin við taumin.” Jósep heldur í vonina. Hönd hans er gróin um tauminn og hann sleppir ekki. Ekkert annað en lúinn taumurinn er honum fast í hendi á þeirri stundu. Þannig fara þau á sinni flóttaleið.

En flóttinn er margvíslegur. Í þeim aðstæðum sem nú eru uppi á Íslandi er margt sagt og margt fullyrt - þetta eru tímar hinna stóru orða, orða og einföldu lausna. Úr þeim orðavaðli er berst eyrum okkar þarf að vinsa vel, því margir eru hundarnir sem gjamma og hanar sem monta sig á haug og þykjast eiga svör við öllu.

En í orðaflaumnum sem að okkur berst, skulum gæta að varnaðarorðum sem lúta að því að takist ekki að snúa bráðlega við og treysta sjálfbært og stöðugt efnahagslíf, þá kynni svo að fara að ungt fólk flýi land og leiti betri kjara í útlöndum. Það gæti orðið fólksflótti er skaða myndi mjög samfélag okkar og yrði okkur afar dýrt. Þetta hafa lönd þriðja heimsins reynt um áratugi. Að best menntaða fólkið fer og kemur ekki aftur. Ekki viljum við að okkar unga fólk verði efnahagslegir flóttamenn og að Ísland lifi með þeim sem óljós, fjarlæg minning.

Lífið er glíma. Það þekkjum við öll, eða ættum að þekkja. Sá sem ekki hefur reynt átök við sjálfan sig; sá er ekki hefur speglað sál sína í orðum drottins Jesú Krists, er fákunnandi og eins og framandi gestur í eigin huga og hjarta. Það er engum hollt að renna áfram í meðvitundarleysi og sjálfhverfu; vafinn inní bómull velsældar og alsnægta. Það vitum við nú. Þannig tilvera er eins og flótti, og að vera á flóttavegi frá samvisku sinni, eigin mennsku ber í sér þá sárustu fátækt er hugsast getur.

Hönd Jóseps var gróin við tauminn. Öll höfum við hendur er gagnast okkur í daglegum verkum, hendur sem við getum ekki verið án. En hugur okkar og hjarta hafa líka hendur. Hendur sem kallaðar eru til góðra verka; hendur sem eiga að uppörva og ylja, styðja og styrkja.

Von okkar allra er Jesús Um síðir komust María og Jósep heim til Nasaret. Þar var þeim gott að vera. Og heima er staður þar sem okkur líður vel og engin ógn steðjar að.

Og Jesús jólabarnið kallar okkur líka heim. Heim. Heim hvert ? Heim til sín; heim að ástarbirtu sinni - sem líknar, blessar, frelsar og færir okkur heim að okkur sjálfum, að við lifum og hrærumst í sannri mennsku; að við flýjum ekki okkur sjálf, heldur séum sönn og heil og eigum hlýjan opinn faðm sem getur orðið þeim skjól sem þurfa og reika í villum. Hann Jesús er von okkar, von allra..

Um hann sungum við í upphafssálmi aftansöngsins eftir Björn Halldórsson - þú réttlætisins sól. Í gegn um myrkur, harm og dauða, angist og ótta er í okkur kann að bærast, skín sól hans, frelsi hans og friður.

Ljósið sem María bar í þennan heim vill lýsa okkur veg, leiða okkur í samskiptum, slá birtu og yl inn í köld og hörð hjörtu. Tökum við þessu ljósi í gleði og í fögnuði og látum það lýsa okkur fram á veg, að lokinni helgri hátíð, inn í viðfangsefni og verk hversdagsins, í leik okkar og starf.

Kom þú Jesús með birtu þína og yl. Leita mín og finn mig. Hjálpa mér úr nauðum. Lát réttlætissól þína auðga líf mitt.

Þannig megum við hugsa nú, á heilagri jólahátíð. Í heitri bæn - í þökk fyrir allar gjafir skaparans og í ákalli til hans um að við megum efla mennskuna, fara í friði um samfélag okkar og þjóna Guði og mönnum með gleði. Að yfir okkur skíni mikið ljós.

Gleðileg jól. Í Jesú nafni. Amen