Dauði Osama Bin Laden - gleðitíðindi?

Dauði Osama Bin Laden - gleðitíðindi?

Að gleðjast yfir aftöku hans er annað mál - að fagna dauða hans eins og leiðtogar Vesturlanda gera af hjartans einlægni - eins og um sigur í landsleik í fótbolta sé að ræða -það getur varla talist í anda þeirra gilda sem Vesturlönd þykjast standa fyrir.

Mánudaginn 2.maí berast þau tíðindi utan úr hinum stóra heimi, að sérsveit bandaríska hersins hafi skotið Osama Bin Laden, son hans,og einhverja fleiri, í skyndiárás á híbýli Bin Ladens í herskóla í Pakistan.

Þessi skotárás er endahnúturinn á löngum eltingarleik Bandaríkjamanna við einn mesta hryðjuverkaforingja síðustu ára.

Eflaust var þessi aftaka nauðsynleg.

Bandaríkjamenn þurftu að ná honum til að réttlæta styrjaldirnar í Afganistan og Írak.

Þurftu að ná honum til að koma lögum yfir morðingjann sem stóða að baki mestu hryðjuverkaárásum síðari tíma á Vesturlöndum og víðar.

Lítið við því að segja.

Og þar sem enginn vildi hýsa hann sem fanga af ótta við hefndaraðgerðir lærisveina hans, hefur þeim sérsveitarmönnum efalaust komið í hug hið fornkveðna - "Öxin og jörðin geyma hann best".

Sem sagt - dapurleg endalok sorglegrar sögu.

Fáir gráta líklegast Osama Bin Laden og hans illu verk.

Að gleðjast yfir aftöku hans er annað mál - að fagna dauða hans eins og leiðtogar Vesturlanda gera af hjartans einlægni - eins og um sigur í landsleik í fótbolta sé að ræða - það getur varla talist í anda þeirra gilda sem Vesturlönd þykjast standa fyrir.

Stundum eru slíkar árásir ill-nauðsynlegar. Því miður. Rétt eins og stríð getur verið eini kosturinn í slæmri stöðu, til að stöðva óréttinn, í föllnum heimi. En að gleðjast yfir sundurskotnu líki útlaga í fylgsnum pakistanskra herbúða - það er ekkert annað en ósmekklegt - sér í lagi úr munni þeirra sem hampa kristinni trú í öðru hverju orði.

Jesús segir "Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina. Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta." (Matteus 5).