Sú þjóð sem í myrkri gengur - Hælisleitendur, Dyflinnarreglugerðin og kærleikur Krists.

Sú þjóð sem í myrkri gengur - Hælisleitendur, Dyflinnarreglugerðin og kærleikur Krists.

Nöfn segja okkur lítið svo mig langar til þess að fá að segja ykkur sögu þessara stúlkna
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
10. september 2017

Ég var staddur á Austurvelli í blíðunni í gær um þrjúleytið ásamt nokkrum fjölda fólks. Tilefnið var mótmælafundur sem boðaður hafði verið til til þess að mótmæla því að Íslensk yfirvöld munu á næstu dögum senda úr landi og aftur á flótta tvær ungar stúlkur, hina átta ára gömlu Mary, sem kominn er hingað frá Nígeríu og hina ellefu ára gömlu Haniye frá Afganistan, sem eiga það sameiginlegt að vera fæddar á flótta og hafa aldrei upplifað skjól, öryggi og frið fyrr en þær komu til Íslands. Þrátt fyrir að stúlkurnar og fjölskyldur þeirra teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafa Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafnað beiðni þeirra um vernd á Íslandi.

Nöfn segja okkur lítið svo mig langar til þess að fá að segja ykkur sögu þessara stúlkna. Mary er átta ára gömul. Hún er fædd á flótta. Hún kom til Íslands fyrir einu og hálfu ári síðan og gengur nú í fyrsta skiptið á ævi sinni í skóla. Mary er hér ásamt móður sinni, Joy, sem er fórnarlamb mansals og föður sínum, Sunday, sem flúði pólitískar ofsóknir í Nígeríu og hitti Joy fyrst á leiðinni frá Líbýu til Ítalíu.

Haniye Maleki er ellefu ára gömul. Hún er fædd á flótta og er ríkisfangslaus – sem þýðir að ekkert ríki vill veita henni skjól. Hún fór yfir Miðjarðarhafið á slöngubát í baráttunni fyrir lífi sínu og framtíð. Tvisvar. Hún þjáist af alvarlegum andlegum veikindum sem hún þarf nauðsynlega aðstoð með. Hún er því metin í „sérstaklega viðkvæmri stöðu“ af yfirvöldum. Hið sama á við um einstæðan föður hennar sem er alvarlega veikur líkamlega. Hann lenti í slysi á flóttanum og er bæklaður á fæti. Hann þarf tíma og aðstoð til að ná sér á ný svo hann geti séð fyrir sér og dóttur sinni. Haniye hefur að miklu leyti séð um föður sinn síðustu árin á flótta.

Báðar eru þessar stúlkur og fjölskyldur þeirra verða sendar úr landi á grundvelli hinnar svokölluðu Dyflinarreglugerðar sem Ísland á aðild að. Ísland gerðist aðili að Dyflinnarreglugerðinni árið 2001. Dyflinnarsamstarfið gengur út á samstarf vegna hælisumsókna á Schengen-svæðinu svokallað og er ætlað að koma í veg fyrir að einstaklingur ferðist á milli Shcengen landanna og sæki um hæli í hverju landi. Schengen ríkin eru ríki ESB og Efta fyrir utan Stóra –Bretland – sem sagt Vestur- Evrópuríkin. Er m.a. fjallað um það hvaða ríki beri að taka við afgreiðslu umsóknar um hæli. Senda má viðkomandi flóttamann til þess ríkis þar sem hann fyrst kom á flótta sínum, að því uppfylltu að það ríki sem á í hlut samþykki endurviðtöku. Þess ber að geta að ríkjum ber ekki skylda til að endursenda hælisleitendur til annarra ríkja samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni heldur er um heimildarákvæði að ræða.
Ísland hefur þá sérstöðu að hingað er ekki hægt að komast beint frá flestum þeirra landa þar sem fólk þarf að búa við styrjaldir og ofsóknir og því oftast nauðsynlegt að fara í gegnum annað land á Schengen-svæðinu. Þetta leiðir til þess að yfirvöld á Íslandi geta endursent fólk sem sækir um hæli til þess Schengen lands sem það kom frá, eins og heimilt er samkvæmt Dyflinarreglugerðinni.

Þær Mary og Haniye eru því sannarlega ekki þær fyrstu sem fá þessa meðferð hjá yfirvöldum hér á landi.
Við Íslendingar státum okkur gjarnan af því að vera Vestrænt menningarríki, velferðarríki sem byggir lög og reglur meðal annars á kristnum grunni og viljum virða rétt einstaklingsins til sanngjarnrar meðferðar. Dyflinarreglugerðin er aftur á móti notuð af yfirvöldum til að komast hjá því að veita flóttamönnum og hælisleitendum sanngjarna meðferð og málaleitan þeirra.

Textar dagsins í dag tala beint inn í þessa atburði alla, eins og jafnan. Guðspjallið er út Fjallræðu Jesú. Jesús segir þar:” Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn”.
Við eigum sem sagt að elska náunga okkar og bjóða hann velkominn til okkar. Og náungi okkar er ekki aðeins sá sem við þekkjum, fjölskylda okkar og vinir, Íslendingar og aðrir nærsveitamenn – heldur alveg sérstaklega þeir sem við þekkjum ekki – segir Jesús.

Páll postuli undirstrikar þetta í frægasta texta Nýja testamentisins sem við líka fengum að heyra hér í dag.
Það er kærleikurinn sem á að vera leiðarljós okkar og aflgjafi í lífinu segir Páll – kærleikurinn sem trúir öllu, vonar allt og umber allt. Kærleikurinn sem Páll talar um er enginn rómantísk draumsýn. Gríska orðið sem hann notar í textanum, en Nýja Testamentið er ritað á grísku, er agape. Agape er kærleikur sem er innsta eðli Guðs. Ekkert annað skiptir máli ef við viljum lifa sem lærisveinar Krists, ekki trúarhiti okkar, ekki bænastundir og messuhald, ekki kirkjurekstur og skrúði, vígslubiskupskjör og fínerí – heldur það eitt að lifa í kærleikanum, starfandi kærleika sem gleðst ekki yfir óréttvisinni heldur samgleðst sannleikanum.

Allt er þetta dregið saman í Spádomsbók Jesaja sem við fengum að heyra hér í dag. Hann er svo skýr og sterkur og talar svo sínu eigin máli, að það er alger óþarfi að predika út frá honum. Hann segir:

“Sú fasta, guðsþjónusta sem mér líkar, (segir Drottinn), er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði og sár þín gróa skjótt, réttlæti þitt fer fyrir þér en dýrð Drottins fylgir eftir“.

Heyrum þetta aftur: Ef þú hýsir bágstadda, hælislausa menn brýst ljós þitt fram sem morgunroði og dýrð Drottins fylgir þér.

Þjóð sem sendir þær Mary, Haniye og aðra slíka hælisleitendur úr landi og skákir í skjóli reglugerðar, getur ekki talist Kristin þjóð.
Hún gengur í myrkri – ekki í morgunroðanum
Dýrð Drottins fylgir henni ekki.

Því miður, mér þykir það leitt, en þannig er það.
Og þess vegna er það hlutverk okkar, sem kirkju, köllun og ábyrgð, að opna augu þjóðarinnar, valdamanna, að hún hleypi ljósinu að, láti kærleikann ríkja. Jafnvel þó það kosti óvinsældir.
Því eins og segir í Spádómsbók Jesaja: Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal, réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur. Þú munt líkjast vökvuðum garði, uppsprettu sem aldrei þrýtur. Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir, þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða og þú verður nefndur: múrskarðafyllir, sá sem reisir byggð úr rústum“.

Viljum við ekki vera Múrskarðsfyllir Íslendingar?

Textar:
Lexía: Jes 58.6-12
Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.
Þá muntu kalla og Drottinn svara,
biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“
Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
Drottinn mun stöðugt leiða þig,
seðja þig í skrælnuðu landi
og styrkja bein þín.
Þú munt líkjast vökvuðum garði,
uppsprettu sem aldrei þrýtur.
Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir,
þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða
og þú verður nefndur: múrskarðafyllir,
sá sem reisir byggð úr rústum.

Pistill: 1Kor 13.1-7
Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Guðspjall: Matt 5.43-48
Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.