666

666

Opinberunarbók Jóhannesar segir frá andstæðingi Guðs og kallar hann dýrið eða Andkristinn. "Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
11. apríl 2007

Opinberunarbók Jóhannesar segir frá andstæðingi Guðs og kallar hann dýrið eða Andkristinn. "Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex. (Op 13.11-18). Hann er reyndar nefndur víðar í Biblíunni. Hann er í raun Satan í fornri Biblíulegri merkingu þess orðs, ekki andi eða illur vættur, heldur maður sem berst af öllum mætti gegn vilja Guðs (sjá 1.Jóhannesarbréf, kafla 2, vers 18-23). Hann mun ríkja á jörðinni við endi tímans. Frá honum er sagt á þann hátt að eins og Guð gerðist maður í Jesú, þá muni hið illa gerast maður í andstæðingi Krists, andkristinum.

Reyndar er hugmyndin um þennan and-messías komin úr gyðinglegum heimsslitafræðum inn í kristin hugmyndaheim. Þessi maður, andkristurinn, mun verða hin endanlega holdtekning hins illa í heiminum. Hann mun verða stjórnmálalegur leiðtogi er tekur sér guðlegt vald og leiðir þjóðirnar í loka áhlaupi hin illa gegn Guði. Sem slíkur er hann falsspámaður sem blekkir þjóðirnar. Eins og skírðir kristnir menn eru merktir Jesú með tákni krossins, þannig munu allir er fylgja andkristinum verða merktir tölu hans sem er talan .i.666;. Hugmyndin um þessa tölu er felur í sér nafn andkristins er komin úr gyðinglegri talnaspeki. Allir stafir hebreska stafrófsins tákna ákveðna tölu, alef = 1, bet = 2 o.s.frv. Þannig er hægt að finna tölu allra orða með því að leggja saman talnagildi stafa orðsins og deila í með fjöldanum. Í Mishna er tala andkristsins talin vera 364 og víðar má finna fleiri tölur. En er þá hægt að lesa nafn andkristsins úr tölunni 666? Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess í gegnum tíðina og hafa menn með ýmsum aðferðum lesið úr þessari tölu bæði nafn Hitlers, Stalíns, Péturs Rússakeisara og Napóleons svo einhverjir frægir séu nefndir.

Sumir hafa jafnvel haldið fram að strikamerki kreditkorta feli í sér þetta merki og að andkristurinn sé í raun kolkrabbi kapítalismans og eiginhagsmunaseminnar sem muni heltaka jörðina á 21.öldinni. Hefðbundna skýringin er sú að talan 666 sé tala Nerós keisara í Róm er hóf hina fyrstu miklu ofsókn gegn kirkjunni. "Neró Keisari" heitir á hebresku "KSR NRN" en engir sérhljóðar eru ritaðir á því máli. Orðið "Neró" eitt og sér myndar ekki töluna 666. Er þá tilgátan sú að við lok tímans muni einhver í líkingu Neró ríkja á jörðinni eða Neró koma aftur til jarðarinnar. En allt eru þetta getgátur. Önnur hugmynd um túlkun tölunnar 666 byggir á fornri talnaspeki.

Talan 7 er heilög tala og táknar manninn sem fullkomna sköpun Guðs. Talan 6 er þá ófullkomin, eitthvað skortir upp á og þrisvar sinnum 6 er hin algera ófullkomnun.

Niðurstaða Biblíunnar er sú að allar vangaveltur um hið illa og eðli þess séu aukaatriði hjá þeirri miklu staðreynd að Guð sé mitt á meðal okkar í heiminum og þó að baráttan gegn myrkrinu oft sé erfið þá muni Guð að lokum sigra það og ljós hans lýsa öllu.

Þessar vangaveltur endurspeglast reyndar í íslenskum þjóðsögum.

Íslenskar þjóðsögur og alþýðufrásagnir fjalla lítið um hina heimspekilegu hlið baráttunnar milli hins góða og illa í heiminum. Í þeim mætum við Kölska fremur í samskiptum við einstaklinga sem láta freistast af gylliboðum hans eða gera við hann samning og reyna að síðan að plata Myrkrahöfðingjann. Eins og í Mishna og Talmud tengja íslenskar frásagnir oft púka og ára við skít og ómennsku. Þar segi t.d. frá púkanum á fjósbitanum sem fitnar þegar fjósamaðurinn og konan bölva, en einnig freistar Kölski bænda og búaliðs til að slá slöku við nauðsynlegum verkum og lenda þau þá í erfileikum.

Málshættirnir "hvíldu þig, hvíld er góð" og "latur lítið hey" bera þess vitni.

Oftast tengist Djöfullinn galdramönnum í þjóðsögunum. Hann kennir svarta galdur eins og kirkjan taldi Óðin gera forðum. Það leiddi til þess að t.d. í Svíþjóð var sett = milli Djöfulsins og Óðins, enda var Óðinn mikið dýrkaður þar í landi fyrir kristnitöku.

Kölski býður líka fram þjónustu sína gegn sál galdramannsins að launum. Sögurnar fjalla síðan um keppni galdramanns og Kölska, með sál hins fyrrnefnda að veði. Galdrasögur fóru að berast hingað til lands á 12.öld og í þeim var Sæmundur fróði hvað frægastur. Voru þessar sögur gamansamar og yfirleitt sigraði galdramaðurinn Kölska með klókindum. Á 13.öld setur kirkjan þessar flökkusögur í guðfræðilegt kerfi þar sem samningur Kölska og galdramanns verður aðal þemað, galdramáttur fyrir sálu. Um 1700 eru nýjar sögur af Sæmundi ritaðar , fullar af bjartsýnni trú á mátt mannsins og glettni. En fljótlega kemst galdrafárið í algleyming og fólk er brennt fyrir samninginn við Kölska. Verða sögurnar þá fullar af hatri og illum öflum en glettnin og gamansemin víkur. Þegar galdraofsóknunum lýkur skjóta hinar eldri sögur aftur upp kollinum en víkja svo fljótlega fyrir hinum myrka anda. Hefur þar hræðilegt ástand þjóðarinnar sitt að segja, en hún barðist fyrir tilveru sinni við ís, eldgos, einokun, mannfelli og pest. Sést á þessu að árferðið hefur mikil áhrif á það hvernig menn hugsa sér mátt hins illa.

Frægasta þjóðsagan af samskiftum galdramanns og Kölska er efalaust sagan af Galdra-Lofti. Hún er til í þremur útgáfum fyrir utan leikritið sem skáldið Jóhann Sigurjónsson samdi. Fyrst er Loftsgetið stuttlega í Árbókum Espólíns, en lengri er frásagan í þætti Gísla Konráðssonar frá því um 1860 þar sem Loftur er sagður gera "kontrakt", samning, við Kölska. Fyrirgerir hann þar sálu sinni. Skýrir það hvers vegna grá hönd dregur Loft á kaf í þriðju útgáfu sögunnar, þjóðsögu séra Skúla Gíslasonar, þó ekki sé þar minnst á "kontraktinn".

Kjarninn í sögunum um Galdra-Loft er tilraunin til þess að ná í Rauðskinnu, galdrabókina miklu sem í íslenskum sögum er tákn hinnar huldu speki og hins dularfulla máttar. Að öðlast máttinn er að sigra heiminn, verða Guði líkur en tapa um leið sálu sinni, því hvort sem maðurinn nær herfanginu eða ekki er sálin seld hinu illa. Sem hinn íslenski .i.Faust; er .i.Galdra-Loftur; dæmdur frá upphafi. Hið sama gilti um hinn þýska Faust.

Gerði hann samning við djöfulinn. Myrkrahöfðinginn skyldi uppfylla allar óskir Faust í 24 ár og hljóta sálina að launum. Þessi þráður tengir saman Biblíuna, Mishna, Talmúd og þjóðsögurnar. Sá sem vill gera sig að Guði, tapar sálu sinni.