Réttlátt samfélag

Réttlátt samfélag

Frumvarp að nýrri stjórnarskrá er uppskrift að réttlátara samfélagi. Eins og öll mannanna verk er hún ekki fullkomin. Hún er aftur á móti mikilvægt skref í áttina að settu marki. Markmiðið hlýtur að vera réttlátt samfélag og þangað hljótum við að stefna.

Arnfríður GuðmundsdóttirRéttlæti er eitt af þessum stóru hugtökum sem við vitum svona nokkurn veginn hvað merkir, en engu að síður vefst stundum fyrir okkur að skilgreina það. Víða er talað um réttlæti í heilagri ritningu. Þar er gjarnan talað um réttlæti Guðs, sem fyrirmynd okkar. Þar er líka talað um að réttlætið eigi að vera takmark okkar, það sem líf okkar á að snúast um. Hjá Jesaja spámanni segir m.a.:

Ávöxtur réttlætisins verður friður og afrakstur réttlætisins hvíld og öryggi um eilífð. (Jes 32.17)
Það er algengara að talað sé félagslegt réttlæti en réttlæti á hinu persónulega sviði og flest erum við sammála um það að við viljum búa í réttlátu samfélagi. Án efa eru hugmyndir okkar um það hvað réttlátt samfélag er að einhverju leyti ólíkar, þó að það sé fleira sem við getum verið sammála um. Í samfélagi okkar er hugmyndin um réttlátt samfélag mótuð af gyðing-kristna trúararfi sem við höfum búið við í rúmlega eitt þúsund ár. Grunnurinn í þeirri hugsun er sú að við séum öll sköpun Guðs. Hugmyndin um jafnrétti og jafnræði allra þegna samfélagins er byggð á þessum grunni. En þrátt fyrir allt þá skortir mikið á að við séum í reynd öll jöfn. Þar liggur brotalömin og þessvegna þurfum við að halda áfram að vinna að því að réttlætið nái fram að ganga í samfélagi okkar.

Mannréttindakaflinn í nýju frumvarpi að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er samþykkt var á fundi í stjórnlagaráði miðvikudaginn 27. júlí s.l. hefst á endurskoðaðri jafnræðisreglu, sem hljómar svo:

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Á meðan sumir voru á því að það ætti að láta nægja að segja: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar,“ fannst meirihlutanum mikilvægt að telja upp atriði sem oft hafa orðið þess valdandi að einstaklingum sé mismunað í samfélagi okkar. Að sama skapi þótti ástæða til að halda inni þeirri tvítekningu sem er í gildandi stjórnarskrá og kveður á um að óheimilt sé að mismuna einstaklingum vegna kyns.

Ástæðan fyrir útvíkkaðri jafnræðisreglu í frumvarpi um nýja stjórnarskrá er skýr, einfaldlega sú að við búum ekki í réttlátu samfélagi. Aftur á móti er stefnan sett þangað. Listinn í nýrri jafnræðisreglu er ekki tæmandi og er ekki ætlað að vera það. Markmiðið er að gefa skýr skilaboð um að ekki skuli liðið að gert sé upp á milli fólks. Þess vegna þarf listinn ekki að vera tæmandi. Einstaklingar sem búa við órétt vegna annarra ástæðna en taldar eru upp eiga að geta hvílt í þeirri fullvissu að réttur þeirra sé engu að síður að fullu tryggður.

Frumvarp að nýrri stjórnarskrá er uppskrift að réttlátara samfélagi. Eins og öll mannanna verk er hún ekki fullkomin. Hún er aftur á móti mikilvægt skref í áttina að settu marki. Markmiðið hlýtur að vera réttlátt samfélag og þangað hljótum við að stefna. Við náum ekki þangað nema við tökum ákveðin skerf í þá átt og séum tilbúin til að leggja okkar að mörkum til að svo megi verða. Nú er boltinn hjá þjóðinni og það er einlæg ósk mín og von að hún veiti nýrri stjórnarskrá brautargengi. Slíkt myndi að mínu mati færa okkur nær markinu um að réttlætið nái fram að ganga í samfélagi okkar.