Agaleysi og ofbeldi á aðventu

Agaleysi og ofbeldi á aðventu

Erum við ekki í samfélaginu í dag eins og fávísu meyjarnar í sögu Jesú? Við höfðum í höndunum ljós sem við gátum notað til þess að lýsa upp veginn bæði fyrir okkur sjálf og börnin okkar, sem við gátum notað í baráttunni gegn ofbeldi, agaleysi og upplausn.

Ég er búinn að eiga all sérstæða og gleðilega viku núna þessa síðastliðnu viku. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég hef verið að heimsækja skóla, leikskóla og bekkjardeildar víða um Hafnarfjörð til þess að tala við börn um jólin og boðskap þeirra. Þetta er búið að vera mjög ánægjulegt verð ég að segja ykkur, að hitta svona mörg börn og fá að spjalla við þau og sjá hvað þau eru að gera. Og í næstu viku ætla skólarnir að koma í heimsókn hingað í Hafnarfjarðarkirkju til að syngja jólasálma og hlýða á söguna um fæðingu Jesú.

Allir krakkar eru auðvitað yfir sig spenntir yfir jólunum sem eru í nánd og eru fús að heyra jólasöguna og allt sem henni tengist. Í sömu ferðum hef ég líka heilsað upp á kennara og foreldra og aðra sem vinna með börn og unglinga, allt hefur þetta verið jafn gaman. En því er ekki að leyna að á bak við alla gleðina sem ríkir hjá börnum, kennurum og foreldrum þessa dagana, búa áhyggjur sem í mörgum tilfellum kasta skugga á allt það sem gert er. Það þarf ekki að sitja lengi með kennurum eða foreldrum áður en talið berst að ástandinu hjá börnum og unglingum á íslandi í dag.

Við erum líka á undanförnum vikum búin að heyra um vaxandi áfengisneyslu unglinga, og aukna sókn í fíkniefni. Allt eru þetta slæmar fréttir. Svo er hitt ekki minna áhyggjuefni, hvað í raun mörgum börnum og unglingum líður hreynt og beint illa bæði innan og utan skóla. Það ríkir nefnilega orðið eitthvað ógnvænlegt miskunnarleysi í röðum barnanna, miskunnarleysi sem enginn kemst undan að því er virðist og heldur öllum í helgreipum, bæði gerendum og þolendum. Ég hef heyrt margar ljótar sögur af börnum sem eru ofsótt í skólanum af minnsta tilefni og þora vart að fara í skólann. Stríðnin gengur úr hófi fram.

Nýjasta vopnið eru bloggsíður barnanna þar sem níðskrif fjúka. Þeir sem fyrir barðinu á ofbeldisseggjunum verða eru hvergi óhultir. Hægt væri að nefna mörg dæmi um þetta hér, en ég held að ég láti það vera, við þekkjum efalaust öll einhver úr okkar eigin fjölskyldu. Skýrslur sýna að stór hluti af tíma margra kennara fer í að reyna að halda uppi aga í bekkjunum, allt niður í yngstu bekkina. Börn sem áður hlýddu kennurum sínum, alla vega í 6 og 7 ára bekk, rífast nú við þá og kalla öllum illum nöfnum. Agaleysi og ofbeldi einkennir hinn harða heim barnanna okkar. Ef þú ekki trúir mér skaltu spyrja barnið þitt þegar þú kemur heim í kvöld, eða barnabarnið.

* * *

Fæstir foreldrar vilja auðvitað af því vita að börnin þeirra séu að leggja önnur börn í einelti eða séu að koma af stað vandræðum í félagahóp. Margir kjósa því að kenna skólanum um og segja að það sé bara skólakerfinu að kenna að börnin eru svona agalaus. En er það nú alveg rétt? Ekki er það skólunum að kenna hvernig börnin eru þegar þau koma 6 ára í skólann í fyrsta sinn. Þar hljóta fjölskyldurnar að bera ábyrgð. Orsakirnar eru margar. Tímaleysi foreldra sem mörg hver vinna langan vinnudag , upplausn í mörgum fjölskyldum, ofbeldismyndir í sjónvarpi og kvikmyndahúsum, og svo mætti lengi telja.

Kannski er kjarni vandans sá að við höfum allt of lengi ýtt börnunum okkar til hliðar í þjóðfélaginu, látið þau sæta afgangi, þrengt að þeim og reynt að koma þeim fyrir í geymslum eða múta þeim með peningum, tólum og tækjum til þess að hafa þau góð. Og við höfum líka tekið frá þeim og reyndar okkur sjálfum eitthvað að trúa á og lifa fyrir, eitthvað gildismat sem stenst og skiftir máli og getur orðið undirstaðan undir mannsæmandi líf. Þó við séum með um fjölmörg börn í sunnudagaskólum kirkjunnar svo dæmi sé tekið, þá eru ótrúlega mörg börn sem aldrei hafa heyrt á Jesú minnst, aldrei hafa beðið bænir með foreldrum sínum, aldrei hafa tekið inn á sig barnatrúnna sem hefur reynst svo mörgum vel í lífsins ólgusjó. Tilverugrundvöllur þessara barna er byggður á sandi en ekki bjargi.

* * *

Guðspjall dagsins þar sem Jesús segir dæmisöguna um brúðarmeyjarnar tíu kemur mæta vel inn í stöðuna eins og hún er í dag hjá okkur og börnunum okkar. Og hún segir okkur líka hver Jesús er og hvernig hann kemur inn í líf okkar og barnanna okkar.

Brúðarmeyjarnar fóru til þess að taka á móti brúðguma með logandi olíulömpum, ætluðu efalaust að lýsa honum veginn í brúðkaupið. Fimm þeirra hugsa sem svo að óþarfi sé að hafa með aukabirgðir af olíu, brúguminn sé alveg að koma. Hinar fimm eru hyggnari og hafa með aukaolíu á könnum, til vonar og vara, ef þær þurfi nú að bíða. Og viti menn. Það dregst að brúðguminn komi og þær sofna. Þegar hann loksins kemur er olían búin í lömpunum. Hinar hyggnu geta bætt á sína lampa því þær voru með aukaolíu meðferðis, en hinar verða að hlaupa út í búð að kaupa nýja olíu. Á meðan er brúðkaupið haldið og þær sem þurftu að hlaupa burt og kaupa meira missa af öllu saman.

* * *

Erum við ekki í samfélaginu í dag eins og fávísu meyjarnar í sögu Jesú? Við höfðum í höndunum ljós sem við gátum notað til þess að lýsa upp veginn bæði fyrir okkur sjálf og börnin okkar, sem við gátum notað í baráttunni gegn ofbeldi, agaleysi og upplausn. Það var ljós Jesú, boðskapur hans sem öll börn lærðu og kunnu. Það ljós er ekkert svikaljós, heldur Guð sem gerðist maður, til þess að ekkert gæti gert okkur mennina viðskila við kærleika Guðs. Eins og brúðguminn í guðspjallinu kemur Jesús til okkar, býður okkur samfylgd, styrk og leiðsögn. Hann er hinn lifandi Guð mitt á meðal okkar. En hvernig tökum við á móti honum? Hvernig kennum við börnum okkar að taka á móti honum? Og hver er afleiðingin? Auðvitað hefur einelti og stríðni alltaf verið til en með ljósi Jesú væri hægt að vinna gegn því. Nú hefur slokknað á lömpum okkar. Við erum orðin kærulaus. Þjóðfélagið leggur enga sérstaka áherslu á kristin gildi lengur, það er einstaklingshyggjan og lögmál frumskógarins sem gildir. Ef við hefðum verið eins og hyggnu meyjarnar fimm, þá ættum við til andlegan varasjóð sem við gætum gripið til þegar börnin okkar lenda út í horni samfélagsins, þegar eineltið, agaleysið og upplausnin keyrir um þverbak.

Ég er ekki að segja að lausnin á vanda skóla, foreldra, barna og unglinga sé að kenna betur kristinfræði í skólum. Lausnin er kannski fólgin í því, þvert á móti að vekja samfélag hinna fullorðnu, vekja það til lífsins, hella olíu á andlausa lampa þjóðfélags sem tapað hefur áttum og gildum. Við þurfum að fylkja okkur undir ljós krist Jesú. "Vakið" segir Jesús við okkur í dag. "Vakið" þurfum við að segja við hvort annað og náunga okkar. Því þegar allt kemur til alls þá er það hugarfarsbreytining sem mestu máli skiftir, það að hafa eitthvað að standa á og lifa fyrir, ljós sem hægt er að fylgja.

Og Jesús, hann er það ljós.