Hvar eru hinir níu?

Hvar eru hinir níu?

Líkþráir menn eða holdveikir voru um daga Jesú og lengst af sögu manna útilokaðir úr mannlegu félagi. Þeir fengu til dæmis ekki að koma nálægt helgihaldinu við musterið í Jerúsalem á tímum Jesú. Hvað þá fengu þeir að taka þátt í bænalífinu í samkunduhúsunum víðs vegar um landið. Rétt eins og Samverjarnir voru þeir taldir óhreinir, en ekki aðeins af Gyðingum heldur af öllum mönnum. Sjúkdómur þeirra var líka hræðilegur, smitaðist við snertingu og var auk þess ólæknanlegur. Það er þess vegna engin tilviljun að guðspjallið skuli segja að hinir líkþráu stæðu “álengdar”.

Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: Jesús, meistari, miskunna þú oss!

Er hann leit þá, sagði hann við þá: Farið og sýnið yður prestunum. Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur? Síðan mælti Jesús við hann: Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér. (Lúk.17:11-19)

Náð sé með oss og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I

Guðspjall dagsins segir frá því að Jesús var á ferð til Jerúsalem og lá leið hans þá á mörkum Samaríu og Galíleu. Það segir ekki nákvæmlega af ferðum hans en Gyðingar litu Samaríumenn eða Samverja hornauga og töldu þá óhreina og vildu engin samskipti hafa við þá. Jesús lét slíkt sig engu skipta og oft ber það við í guðspjöllunum að hann heimsækir Samaríu og Samverja og boðar þeim fagnaðarerindið, reyndar við litla hrifningu Gyðinga. Hvað sem því líður þá er Jesús sem sagt á ferð meðal Samverja í guðspjalli dagsins. Og þegar hann kemur inn í þorp nokkuð mæta honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu :”Jesús, meistari, miskunna þú oss”. Eins og jafnan gerist í guðspjöllunum hittum við Jesús meðal þeirra sem eru fyrirlitnir og útskúfaðir úr samfélagi manna.

Líkþráir menn eða holdveikir voru um daga Jesú og lengst af sögu manna útilokaðir úr mannlegu félagi. Þeir fengu til dæmis ekki að koma nálægt helgihaldinu við musterið í Jerúsalem á tímum Jesú. Hvað þá fengu þeir að taka þátt í bænalífinu í samkunduhúsunum víðs vegar um landið. Rétt eins og Samverjarnir voru þeir taldir óhreinir, en ekki aðeins af Gyðingum heldur af öllum mönnum. Sjúkdómur þeirra var líka hræðilegur, smitaðist við snertingu og var auk þess ólæknanlegur. Það er þess vegna engin tilviljun að guðspjallið skuli segja að hinir líkþráu stæðu “álengdar”. Útskúfaðir voru þeir og skyldu hvergi koma nærri heilbrigðu fólki.

II

“Jesús, meistari, miskunna þú oss”.

Þannig hljóðar bæn hinna útskúfuðu. Þeir eru reyndar alls ekki einir um þessa bæn. Við heyrum hana endurhljóma í guðspjöllunum. Beiningamaðurinn blindi ávarpar Jesú þannig, það gera fleiri í svipuðum aðstæðum. Sjálf áköllum við hann með sömu orðum í hverri guðsþjónustu : Drottinn, miskunna þú oss, Kristur miskunna þú oss, Drottinn miskunna þú oss”. Jesúbænin svokallaða sem notuð er á meðal kristinna manna um víða veröld kveður við sama tón. “Drottinn Jesús Kristur, sonur Guðs, miskunna mér syndugum”. Með þeirri bæn biðjum við Jesú að rétta okkur við á nýjan leik, græða það sem við höfum sundrað í lífi okkar. Öll þurfum við á slíkri fyrirbæn að halda. Sérhver getur litið í eigin barm og skoðað verkin sín. Hvernig höfum við komið fram við náunga okkar, við nánustu ástvini okkar og fjölskylda, við samferðafólk okkar um lífsins veg? Og hvernig höfum við farið með okkar eigið líf ? Erum við sátt eða ósátt við okkur sjálf? Höfum við sært aðra og svikið, e.t.v. svikið okkur sjálf? Ætli það sé ekki margt hjá okkur hverju og einu sem við lítum til með sorg og eftirsjá í hjarta á þessum morgni, margt í lífi okkar sem við hefðum viljað að færi á annan veg en reyndin varð? Biblían kallar þetta ástand synd, en orðið synd þýðir sundrung. Á margan hátt ríkir sundrungin í samfélagi manna og okkar eigin lífi. Við þurfum á miskunn Guðs að halda, þeirri miskunn sem gerir hið sundraða heilt, brúar bilið og hleypir lækningarmætti fyrirgefningarinnar inn í lífið okkar.

III

Hvernig brást Jesú við miskunnarbæn hinna holdveiku og útskúfuðu? Jesús leit til þeirra og sagði við þá :”Farið og sýnið yður prestunum”. Prestarnir við musterið í Jerúsalem höfðu það hlutverk að skera úr um hvort men væru líkþráir eða ekki. Hinir tíu héldu því af stað og nú brá svo við segir guðspjallið að þeir urðu hreinir. Hér er á ferð ein hinna mörgu frásagna Nýja testamentisins af lækningarmætti Jesú. Þær sögur sýna að Jesús lætur sér ekki aðeins annt um andlega velferð manna. Hann er ekki kominn til þess eins að hugga og fá þjáða og vondaufa til þess að sætta sig við orðinn hlut. Boðskapur hans er ekki ópíum eða stundarnautn. Hann elskar ekki aðeins í orði heldur verki. Elska hans er starfandi elska, hann læknar og reisir við hina föllnu, leiðir þá á ný inn í samfélag manna og umbyltir vonlausum aðstæðum í nýtt líf. Það sem áður var útskúfað og sundrað og á valdi syndar er nú aftur orðið heilt. Með Jesú Kristi kemur Guðs ríki þannig inn í heiminn. Það er ríki kraftaverkanna, og það er um leið ríki réttlætis, því verk Jesú fela öll þetta tvennt í sér, kraftaverkið og réttlætið. Guðsríkið fylgir hinum upprisna Jesú æ síðan og allt til okkar daga. Við getum því beðið hann um kraftaverk í okkar eigin lífi. Við biðjum reyndar um þau á hverjum sunnudegi, eins og ég áður benti á er við segjum: “Jesús Kristur, miskunna þú oss”. Og það er hið stærsta kraftaverk að fyrir hans miskunn öðlumst við fyrirgefningu og getum hafið nýtt líf undir merkjum hans.

IV

Nú ber svo við í frásögn guðspjallsins að einn hinna tíu snýr aftur til Jesú er hann sér að hann er orðinn heill og lofar Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína, segir guðspjallið, að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði þá :”Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur”? Síðan mælti Jesús við Samverjann: “Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér”.

Í íslensku biblíuþýðingunni er þessu guðspjalli gefið heiti og yfirskrift ;”Hvar eru hinir níu?” stendur þar og hefur staðið lengi, einnig í eldri þýðingum. Það er augljóst hvar áhersla liggur. Ekki á sjálfu kraftaverkinu heldur á þakkarhug samverjans eina sem snýr aftur og vanþakklæti hinna níu. Athygli okkar er beint að viðbrögðum líkþráu mannanna og þar með að okkar eigin viðbrögðum gagnvart Jesú í okkar lífi. Við erum hvött í guðspjallinu til að þakka allt hið góða sem fram kemur gagnvart okkur á lífsins leið. Við erum hvött til að þakka líf okkar og heilsu, skynsemi og tilfinningu, þakka handleiðslu Guðs á erfiðum tímum og styrk í sorg, þakka fyrirheitið um upprisu og eilíft líf að þessu loknu. Og við erum einnig hvött til þess að sýna þakklæti okkar, ekki aðeins í orði, heldur einnig í verki, með því að gefa Guði dýrðina.

Á þessu vill oft verða misbrestur, ekki aðeins hjá okkur sem einstaklingum heldur líka sem þjóð og kristnu samfélagi. Það er eins og segir í sálmi Valdimars Briem sem sunginn var hér fyrr:

”En gjafarinn oss gleymist þrátt, þótt gæsku reynum hans og mátt. Af gjöfum drottins gleðjumst vér, en gleymum að oss þakka ber” (sálmur 192 v.4) .

Við Íslendingar höfum margt að þakka. Við höfum risið úr öskustónni. Við sem eitt sinn vorum í útrýmingarhættu stöndum nú fremstir meðal þjóða heimsins. Forfeður okkar, afar okkar og ömmur, létu sig ekki dreyma um þá velmegun sem nú blasir við. Á þeirri vegferð hefur Kristur gengið með okkur og kristin gildi, kristin hugsjón, kristinn siður og kristin hugmyndafræði verið okkur leiðarljós. Boðskapur Krists og miskunn hans blés Íslendingum von og kjark í brjóst á erfiðum tímum. Handleiðsla kristinnar trúar efldi með mönnum réttlætiskennd. En einmitt nú, nú þegar allt gengur í haginn, þá gleymum við að gefa Guði dýrðina, þá gleymum við að þakka fyrir okkur. “Nú getum við sjálf og þurfum ekki á handleiðslu Krists og kristinnar trúar að halda” segja sumir stjórnmálamenn okkar eins og litlir krakkar sem hafa fengið ný leikföng upp í hendurnar. Við gleðjumst yfir gjöfum Drottins, en gleymum því að þær eru einmitt gjafir hans. Afleiðingin er vaxandi sundrung í samfélaginu, vaxandi siðleysi. Því hinn sterki og ríki þakkar sjálfum sér auð sinn og afl og telur sig ekki skulda neinum neitt. Og þeim sem minna mega sín er útskúfað úr samfélagi betri borgaranna sem skilja ekki lengur að öll erum við jafn dýrmæt og jafn mikils virði í augum gjafara allra góðra hluta. Fáir safna ótrúlegum auði og margir eiga vart til hnífs og skeiðir á meðan firringin eykst dag frá degi. Um leið týnist samkenndin og ábyrgðin gagnvart náunganum þegar kærleiksboðorði Krists er skipt út fyrir lögmál markaðarins og fjölhyggjusamfélagsins sem segir að allt sé afstætt og því í raun ekkert heilagt. Að lokum týnum við okkur sjálfum, börnum okkar og ástvinum í eftirsókn eftir vindi. Sömu afstöðu vex ásmegin gagnvart ástgjöfum sköpunarverksins sem við tökum í auknum mæli eins og sjálfsögðum hlutum, eins og við hefðum aflað þeirra af eigin dáðum og getum þess vegna farið með þær að vild. En erum það við sjálf sem höfum fyllt landið af orku, loftið af fuglum og vötnin og hafið af lífi?

V

Síðari ritningarlestur þessa Drottinsdags var stuttur, einungis eitt vers úr bréfi Páls postula til Galatamanna :”Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.Lífinu sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig (Gal.2:20)”.

Í þessum orðum birtist einlægt þakklæti postulans fyrir lífið sem honum er gefið og þá miskunnsemi sem Guð hefur sýnt honum. “Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér”.

Þessi orð gætum við gert að okkar hvatningu í dag til að snúa aftur, gefa Guði dýrðina og breyta því sem þarf að breyta, bæði í samfélaginu og okkar eigin lífi undir merkjum Krists. Sú hvatning myndi þá hljóða einhvernvegin svona: “Sjálfur-sjálf- lifi ég ekki af eigin rammleik, heldur lifi ég af því að Guð hefur gefið mér lífið og ég er dýrmætur, dýrmæt, í hans augum. Lífið er Guð, Guð er lífið sem mér er fengið til að lifa og annast um. Mér er fengið það til ráðstöfunar, til persónulegs þroska og til þjónustu við lífið og lífsins Guð. Ég þjóna lífinu og sýni gjafara þess þakklæti með því að gerast farvegur réttlætis hans í heiminum, með því að rétta hlut hins fátæka, umkomulausa og sjúka og vernda landið sem hann fól mér til varðveislu. Þannig lifi ég lífinu lifandi í samfélagi kristinna karla og kvenna sem er fyllt af anda Guðs”.

Þegar við nú göngum til móts við haustið og síðar veturinn skiptir það okkur miklu að varðveita þessa afstöðu. Mætti hún móta allt íslenskt mannfélag til framtíðar okkur og börnum okkar til blessunar rétt eins og hún reyndist forfeðrum okkar. En miskunn Guðs og kærleikur nær ekki aðeins til þessa lífs. Sú stund rennur upp í lífi okkar allra að haustar að á vegi lífsins. Þá er þess að minnast að Guð gaf okkur sumar lífsins og að Kristur hefur heitið okkur nýju vori eftir dauðans dimma vetur.

Andspænis þeim örlögum er gott til þess að vita, að sjálfur lifi ég ekki framar og hef reyndar aldrei gert, heldur lifir Guð í mér og ég í honum, ekki aðeins í dag og á morgun, heldur allar stundir og að eilífu. Amen.

Sr. Þórhallur Heimisson er prestur í Hafnarfjarðarkirkju. Þessi prédikun var flutt á fjórtánda sunnudegi eftir þrenningarhátíð, þann 21. september 2003.