Hallgrímur Pétursson – fimmti hluti og síðasti

Hallgrímur Pétursson – fimmti hluti og síðasti

Í lok fjórða hluta þessarar pistlaraðar um Hallgrím Pétursson stóð skáldið yfir moldum Ragnheiðar Brynjólfsdóttur í Skálholti.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
15. apríl 2014

Í lok fjórða hluta þessarar pistlaraðar um Hallgrím Pétursson stóð skáldið yfir moldum Ragnheiðar Brynjólfsdóttur í Skálholti.

Á útmánuðum l663 hafði Hallgrímur dvalið um sinn í Skálholti, þar sem Ragnheiður lá fyrir dauðanum, heltekin af berklum. Segir séra Torfi Jónsson í Gaulverjabæ, bróðursonur Brynjólfs Sveinssonar, beinlínis frá því í bréfi, að biskup léti kalla Hallgrím til Skálholts út af öllum þeim raunum er yfir dundu þennan vetur. Þetta sama ár veiktist Hallgrímur reyndar sjálfur mjög alvarlega, en náði sér aftur og orti þá "Þakkargjörð fyrir afturfengna heilsu".

Segðu lof drottni, sál mín, nú sætt með hjartans fögnuði. Daglega jafnan þakka þú þínum lifanda Guði hvör þér líf, kraft og heilsu gaf, hjálp náð og miskunn veitti nær þjáning þreytti; leysti þig öllu angri af, eymd þinni í farsæld breytti.

Í ágústmánuði l662 vildi það slys til að bærinn í Saurbæ brann til kaldra kola. En Hallgrímur gafst ekki upp heldur lagði allt sitt í Drottins hendur sem fyrr. Af þessu tilefni orti Hallgrímur sàlminn Hugbót.

Guð er minn Guð, þó geysi nauð og gangi þannig yfir, syrgja skal spart, þó missta' eg margt, máttugur Herrann lifir. Af hjarta nú og hreinni trú til hans skal ég mér venda. Nafn Drottins sætt fær bölið bætt, blessað sé það án enda.

Gaf mér hans náð gott lukkuráð, að gleðinnar eflist kraftur, frjálst á hann þá og fullvel má frá mér taka það aftur. Hans náðin blíð á hverri tíð huggun virðist mér senda. Nafn Drottins sætt fær bölið bætt, blessað sé það án enda.

Svo vinsæll var prestur nú meðal sóknarmanna sinna, að þeir og aðrir vinir hlupu undir bagga með honum, og reisti hann allan bæinn þegar í stað og hafði lokið því fyrir haustið.

Á árunum l665-6 kennir Hallgrímur holdsveikinnar, þess sjúkdóms er síðar átti eftir að draga hann til dauða. Dró sjúkdómurinn smátt og smátt úr honum allan þrótt og mátt. l667 lýsir séra Hallgrímur því við prófast, að hann vilji sleppa Saurbæjarprestakalli. Af því verður þó ekki um sinn, en í apríl l668 fer fram prestskosning í Saurbæ, og er þá kosinn prestur þangað séra Hannes Björnsson frá Borg á Mýrum. Bjó séra Hannes á hálfri Saurbæjarjörð fyrst í stað, en að fullu síðan, og er staðurinn í Saurbæ tekinn út í hendur séra Hannesi 5. mai l669. Samþykkti Brynjólfur biskup afhendinguna þremur dögum síðar, og lauk þar með 25 ára prestsstarfi séra Hallgríms Péturssonar. Eftir þetta bjuggu þau Hallgrímur og Guðríður tvö ár með Eyjólfi syni sínum á Kalastöðum, en að svo búnu fluttust þau að Ferstiklu.

Virðist Brynjólfur biskup hafa látið sér annt um Hallgrím og viljað að honum hlúa, og falla hlýleg orð í hans garð í bréfum biskups á þessum árum.

Á Ferstiklu elnar Hallgrími sóttin, og þar yrkir hann andlátssálma sína. Hallgrímur lést á Ferstiklu 27. október l674, sextugur að aldri.

Um þær mundir var að brjótast út hið svokallaða Skánska stríð milli Dana og Svía, blóðug átök um yfirráðin yfir Lundi og Málmey, sem endaði þannig að Danir misstu endanlega Skán í hendur sænskra. Var þetta undanfari Stóra Norðurlandaófriðarins sem stóð frá 1699 -1721. Varð sú styrjöld að Evrópustyrjöld þar sem Karl XII hinn sænski fyrst lagði undir sig Danmörku, Þýskaland, Pólland og öll Eystrasaltslöndin. En missti að lokum heimsveldið í hendur Rússa, þegar 40.000 manna sænskum her var útrýmt í Poltava í Úkraínu 1709. Ekki riðu Danir heldur feitir frá þeim átökum þó þeir styddu Rússakeisara. Varð ófiðurinn upphafið að endalokum stórveldisdrauma Dana og Svía.

Þannig að arfakóngur vor í Danmörku hafði í nægu að snúast og ekki nema von að honum hætti til að gleyma Íslandi.

Á sama tíma geysaði galdrafárið um álfuna.

Þetta voru myrkir og erfiðir tímar og lýsir Hallgrímur eins og viti vonar í dimmu aldarfarsins.

Guðríður Símonardóttir lifði mann sinn Hallgrím. Var hún fyrst hjá Eyjólfi syni sínum á Ferstiklu. En hann andaðist l679, og fór Guðríður þá til séra Hannesar í Saurbæ og dvaldist þar til æviloka, l8. desember l682. Þetta og fleira sýnir mikinn hlýhug séra Hannesar til gömlu prestshjónanna og það, hvílíkur mannkostamaður séra Hannes var.

Hallgrímur og Guðríður hvíla í Saurbæjarkirkjugarði.