Gullna reglan

Gullna reglan

Kristinn maður á ekki aðeins að láta vera að gera öðrum eitthvað sem hann vill ekki að þeir geri sér. Hann á að grípa frumkvæðið og gera það fyrir aðra sem hann myndi vilja að þeir gerðu fyrir sig. Hann á að ganga fram fyrir skjöldu, án þess að ætlast til nokkurs í staðin, gera gott.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
09. nóvember 2006

Gullna reglan svokallaða er ein megin undirstaða kristinnar siðfræði. Hana er að finna í ræðu Jesú Krists í Matteusarguðspjalli sem kölluð er fjallræðan. Gullna reglan hljóðar þannig með orðum Jesú:

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra
Síðan bætir hann við: „þetta er lögmálið og spámennirnir“ - eða með öðrum orðum, þetta er öllum öðrum boðum mikilvægara. Lögmálið og spámennirnir eru tveir þriðju hlutar hebresku Biblíunnar sem kristnir menn kalla Gamla testamentið.

Álíka kenningu er að finna víðar í sögunni en hjá Jesú. „Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér, þá mun engum mislíka við þig“ - kenndi kínverski spekingurinn Konfúsíus löngu fyrir daga Jesú. Og – „Þetta er grundvallarskylda: Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að þeir geri þér“ - stendur í hinu mikla verki hindúismans Mahabharata. Hillel, einn fremsti rabbíni gyðinga sem uppi var um svipað leiti og Jesús sagði: „Ekki gera öðrum það sem er andstætt þér- þetta er kjarni lögmálsins, allt annað eru bara skýringar á þessu“. Og þannig mætti lengi telja

En Jesús Kristur er sá eini sem sett hefur þessa reglu fram í því formi sem birtist í fjallræðunni. Hann var umfram allt byltingarmaður og umbreytti öllum hefðbundnum kenningum. Oft hóf hann ræðu sína með því að segja :„Þér hafið heyrt að sagt var.en ég segi yður“. Þannig umbylti hann líka gullnu reglunni. Kristinn maður á ekki aðeins að láta vera að gera öðrum eitthvað sem hann vill ekki að þeir geri sér. Hann á að grípa frumkvæðið og gera það fyrir aðra sem hann myndi vilja að þeir gerðu fyrir sig. Hann á að ganga fram fyrir skjöldu, án þess að ætlast til nokkurs í staðin, gera gott, í nafni kærleikans, ekki aðeins að láta vera að gera illt. Á þessu tvennu er reginmunur.

Með þessari einföldu reglu gerir Jesús umhyggjuna fyrir náunganum að kjarnanum í lífi hvers kristins manns. Enginn getur fylgt Jesú nema með því að sýna náunganum kærleika í verki. Gullna reglan eins og hann setti hana fram er byltingarboðskapur og sem slíkur er hann undirstaða allra hugmynda okkar nútímamanna um jafnrétti, manngildi og mannréttindi.