Ofurfyrirsætur hversdagsins

Ofurfyrirsætur hversdagsins

Ekki líður sá dagur að okkur berist ekki einhver tilboð. Sum þeirra reyna að fullvissa okkur um að ef við tökum þeim þá bíði okkur betra líf. Líf þar sem hamingjan er í fyrirrúmi og þar sem ekkert skortir. Eða í fáum orðum sagt: hið fullkomna líf.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
22. nóvember 2006

Ekki líður sá dagur að okkur berist ekki einhver tilboð. Sum þeirra reyna að fullvissa okkur um að ef við tökum þeim þá bíði okkur betra líf. Líf þar sem hamingjan er í fyrirrúmi og þar sem ekkert skortir. Eða í fáum orðum sagt: hið fullkomna líf.

Tilboðin beinast að okkur sem persónum. Þau gefa til kynna að einhverjum sé afar umhugað um okkur nánast dag og nótt. Snúast oft um hvernig við getum bætt útlit okkar og er þá búið að gefa sér að eitthvað sé kannski athugavert við það eða við sjálf séum ekki ánægð með hvernig við erum. Tilboðin geyma í raun og veru uppskrift af því hvernig manneskjan eigi að vera samkvæmt hugmyndum mannhönnuða. Þau kynda undir stöðugt ósætti við hversdagslegt líf manneskjunnar þar sem það fellur ekki að uppskriftinni.

Nútímamanneskjan á að vera grönn og fögur, vel klædd og eftirsótt af öllum sakir velgengni og yndisþokka. Hún ekur um á gljáfægðum nýjum bílum og drekkur ilmandi kaffi úr baunum sem hún malar sjálf í eigin kaffivél. Nútímamanneskjan á að þjóta á milli landa með farsímann í annarri hendi og ferðatölvuna í hinni. Býr í húsnæði þar sem ný húsgögn eru í hverju horni eða í stálgrárri auðn ef hún hallast að þeirri línunni. Nútímamanneskjan er mikilvæg og okkur er gefið til kynna að án hennar muni allt fara illa. Heimurinn standi og falli með henni. Já, hún er ómissandi.

Tilboðin sem okkur berast sýna mynd af manneskju sem búist  er við að við vildum helst sjálf vera eða í það minnsta líkjast að einhverju leyti. Mörg þessara tilboða ota að okkur fyrirmyndum og virðast ganga út frá því að skortur sé á þeim. Auðvitað gerum við okkur hvert og eitt ákveðnar hugmyndir um okkur og þær koma úr ýmsum áttum. Við sjáum okkur sjálf í nokkurs konar hugarspegli og oft veltum við því fyrir okkur hvernig við lítum út til sálar og líkama. Við getum fengið það á tilfinninguna í tilboðsstraumnum að það sé dálítið hallærislegt að vera hversdagsleg manneskja á miðjum vellinum eða sú sem stendur í vörninni og gætir þess að hvínandi skuldaboltar æði ekki inn í markið. Sé dálítið ósmart að vera kannski með nokkur aukakíló í farteskinu og hafa ekki kjark til þess að herja gegn þeim í helgidómum líkamsræktarstöðvanna. Já, að það sé ekki eftirsóknarvert að vera þessi hversdagslega manneskja sem engin veit um og allt stefnir að því að afmá hana.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við hversdagslegar manneskjur með drauma um hamingju og góða heilsu. Í raun og veru erum við öll ofurfyrirsætur hversdagsins vegna þess að við erum nokkuð ánægð með hann og lifum hann yfirleitt af. Og erum bara þó nokkuð hamingjusöm – sátt við allt og alla þrátt fyrir hversdagslega árekstra á heimili og í vinnu – og í eigin sálarkirnu. Lífstaktur okkar yrði svo sem ekkert betri þótt við ginum við öllum þeim tilboðum um betra líf og fríðara útlit sem hellist yfir okkur á hverjum degi. Allt verður hversdeginum að bráð hvort heldur það er líf í konungshöllu eða fiskiþorpi við sundin blá. Hversdagslegar manneskjur eru skynsamar manneskjur og vita nokkuð vel hvað þjónar að hamingju þeirra og þurfa svo sem ekki flennistórar myndir af íturvöxnu fólki í hátískuklæðnaði og hraðskreiðum bílum til að segja til um hvar hamingjuna sé að finna. Við getum verið stolt af því að vera hversdagslegar manneskjur.

Öll þekkjum við dæmi af fólki sem hefur kokgleypt hugmyndir tilboðanna um það hvernig manneskjan eigi að vera og setið svo eftir með sárt ennið. Siglt í strand á skuldaströnd þar sem ýmsir hafa fundið sér næturstað – huggað sig svo við það að sælt sé sameiginlegt skipbrot. Nú er það svo að hin mörgu tilboð sem vilja stýra hugsun okkar og framtíð minnast sjaldan á andlega hlið lífsins. Þau eru fátæk af þeim. Það er enda engin furða því að grunnur hinna andlegu verðmæta er ólíkur þeim grunni sem efnisleg verðmæti standa á.

Nútímamanneskjan er í engu frábrugðin fyrri tíma fólki hvað snertir þrá eftir andlegum gæðum. Þó efnishyggjan eigi sterk ítök meðal vestræns fólks hefur henni ekki tekist að uppræta þessa þrá. Gleymum því ekki og leggjum því rækt við andlega hugsun í önnum hversdagsins.