Krossfesting Jesú

Krossfesting Jesú

Eitt af því sem við getum verið alveg viss um varðandi Jesú er þetta: Hann var krossfestur, dó á krossi. Um það eru allir á sama máli, lærisveinar hans, kristnar heimildir og andstæðingarnir sem hæddu hann vegna þessa.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
22. apríl 2011

Eitt af því sem við getum verið alveg viss um varðandi Jesú er þetta: Hann var krossfestur, dó á krossi. Um það eru allir á sama máli, lærisveinar hans, kristnar heimildir og andstæðingarnir sem hæddu hann vegna þessa.

En hvað var eiginlega þessi krossfesting? Ætli við áttum okkur á því þegar við horfum á gullna krossana í kirkjunum?  Aftökustaðirnir í Rómaveldi á tímum Jesús voru hver öðrum líkir. Yfirleitt voru þeir staðsettir rétt utan við borgarhliðin, á fjölförnum vegi sem lá inn í borgina, því allir áttu að geta borið hina krossfestu augum.

Þar var oft að finna krossa uppistandandi frá fyrri aftökum og á þeim hangandi rotnandi lík sem óargadýr, hundar og fuglar höfðu rifið í sundur og kroppað í, rifið í sig – lokkuð að aftökustaðnum af blóðlyktinni.

Hinir dæmdu vissu að það var þetta sem beið þeirra á meðan þeir hröktust í gegnum borgina af hermönnunum, niðurlægðir, barðir og aðhlátusefni, berandi hver sinn eigin kross. Oft gekk á undan þeim maður með skilti þar sem dómssökin var letruð á.

Og allstaðar flugurnar.

Fjórða plágan sem Guð lét Egyptaland þjást af samkvæmt Mósebókum var flugnagerið. Flugurnar voru óþolandi og ærandi, skriðu inn í öll líkamsop, sárin, augun, munninn.

Munum að eitt af nöfnum djöfulsins er Beelsebul – “Flugnahöfðinginn”.

Þegar við hugsum um þjáningar hinna krossfestu megum við ekki gleyma flugunum.

Og hitanum.

Og svitanum sem rann í stríðum straumum.

Og tímanum sem silaðist áfram.

Eða háðsglósunum.

Við hugsum okkur gjarnan að Jesús hafi verið negldur á háan kross og sjáum fyrir okkur málverkin af fólki klifrandi upp stiga til að taka niður líkama hans.

En krossinn var ekki endilega hár.

Sumir krossar voru rétt um tveir metrar.

Þannig að hundarnir gátu glefsað í hina krossfestu, fólkið hrækt á þá og slegið þá. Það eru meira að segja til frásagnir af því hvernig hundar átu krossfesta menn lifandi á krossinum.

Auk þess var hinn krossfesti nakinn – en það var til að auka niðurlæginguna.

Stundum miskunnuðu menn sig yfir hinn dæmda og brutu bein hans til að flýta fyrir köfnun og dauða. En stundum var það einmitt ekki gert til að lengja þjáninguna.

Og menn voru ekki endilega festir upp með nöglum, heldur allt eins bundnir. Það stendur hvergi í guðspjöllunum að Jesús hafi verið krossfestur með nöglum.

Aðeins að hann var krossfestur.

Krossfestingin var óhuggulegasta aftökuaðferð fornaldar. Hún var gerð til að vekja óhug, hræða aðra frá uppreisn gegn ríkinu. Hún var kvalræði, langdregið, úthugsað kvalræði.

Sadismi.

Oft hékk hinn látni á krossinum þangað til hann rotnaði af.

Og þannig drápu Rómverjar Jesú sem kallaður var Messías, sem úrhrak, afbrotamann, einn af hinum minnstu í samfélaginu –

Samkvæmt Markúsarguðspjalli, elsta guðspjallinu, deyr Jesús í myrkrinu. Og hann dó frekar fljótt, sem sýnir hveru mjög honum hafði verið misþyrmt áður. Yfirleitt voru menn marga daga að engjast til dauða á krossinum.

Hann var þrotinn kröftum.

Í myrkrinu hrópaði hann “Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig”?

Allir höfðu yfirgefið hann.

Nema móðir hans og María Magdalena.

Lærisveinninn sem Jesú elskaði?

Meira að segja Guð hafði yfirgefið hann.

Engir englar björguðu honum.

Síðasta orð hans var “Af hverju”?

Hann deyr í óvissunni.

Þannig lýsir Markús því.

Með örvæntingarfullu hrópi út í tómið.

Eins og Jonas Gardell lýsir þesu svo vel í bók sinni Um Guð. En hvers vegna var Jesús krossfestur?  Það sést kannski best hversu mikilvægur atburður krossfestingin er, og reyndar atburðir vikunnar fyrir hana sömuleiðis,að stærsti hluti Guðspjallanna fjallar um þá sögu. Þannig er t.d. einn þriðji hluti Markúsarguðspjalls helgaður píslarsögu Jesú eins og þessi frásögn er kölluð.

Píslarsagan er mögnuð átakasaga þar sem allar tilfinningar mannlífsins og mannsins skína í gegn. Þetta er saga svika, lyga, og dauða, en einnig vonar, ástar og  kærleika.

Frásögnin byrjar á Pálmasunnudag. Jesús kom til Jerúsalem ásamt lærisveinum sínum og var fagnað ákaflega af múgnum í borginni. Menn lögðu klæði sín á götuna og skreyttu hana með pálmagreinum eins og til að fagna konungi, en þaðan er einmitt nafn dagsins dregið.

Lýðurinn vænti konungs og uppreisnarmanns. Múgurinn fagnaði að því er hann hélt herforingja. Nú skyldi gera uppreisn gegn Rómverjum sem þá hersátu Ísrael! Og Jesús átti að vera hinn blóðugi uppreisnarleiðtogi. En til þess var Jesú ekki kominn.

Við sjáum líka í dag til hvers slíkar uppreisnir og blóðsúthellingar leiða. Jerúsalem er enn á valdi átaka og stríðs. Blóðið flýtur um götur hennar og harmagrátur hljóðar á torgum hennar. Jesús var ekki komin til að heyja stríð í þessum skilningi. En han var kominn til að heyja stríð fyrir alla menn, stríð gegn illskunni, mannvonskunni, hatrinu og óréttinum í heiminum. Ekki aðeins fyrir Ísraelsmenn heldur fyrir alla.

Hans fyrsta verk eftir að hann kom til borgarinnar var að hreinsa musterið af víxlurum og reka út úr því kaupahéðna með þessum orðum “Hús mitt á að ver bænahús en þið hafið gert það að ræningjabæli”. Dagana á eftir varð lýðnum og hinum ráðanadi stéttum í borginni ljóst að hér var komin maður sem ekki myndi uppfylla óskir um stríð og blóð, heldur gerði hann kröfu til allra manna um kærleika til náungans, hvort sem náunginn var karl eða kona, rómverskur eða grískur, Ísraelsmaður eða arabi. Þess vegna óttaðist valdastéttin hann, því hann afhjúpaði hana. Og þess vegna snerist lýðurinn gegn honum.

Á Skírdagskvöld kvaddi Jesú lærisveina sína  og þá um nóttina var hann svikinn í hendur fjandmanna sinna.

Föstudagurinn var síðan dagur sorgar og lyga, þegar ljúgvitni báru upp á Jesú lygasakir og hann var dæmdur til dauða og krossfestur af Pontíusi Pílatusi sem óttaðist múginn er hrópaði “Krossfestu krossfestu” og “komi blóð hans yfir oss og börn vor”. Það var hinn sami múgur og fáeinum dögum fyrr hafði fagnað Jesú með söng og pálmagreinum. Lesandinn athugi það!

Hvaða merkingu hefur svo saga krossfestingarinnar fyrir okkur í dag?

Jú hún segir okkur það að við erum aldrei ein, aldrei án Jesú í okkar lífi.

Við getum fagnað honum og tekið á móti honum í hjarta okkar í gleði og sorg.

Hann kemur til okkar þegar lífið á einhvern hátt leikur okkur grátt, þegar okkur finnst við vera krossfest.

Þá er hann með okkur á krossi lífsins og fylgir okkur í gegnum þjáningu og erfiðleika, hann sem lét lífið á krossi fyrir okkur.

Og þegar dauðinn sjálfur kallar, þá erum við ekki ein í dauðanum. Þar er líka Jesús, Jesú sem dó og var lagður í gröf, fyrir þig og fyrir mig, til þess að ekkert á jörðu og ekkert á himni gæti gert okkur viðskila við hann.