Breytist staða þjóðkirkjunnar, verður aðild skilyrði fyrir þjónustu hennar?

Breytist staða þjóðkirkjunnar, verður aðild skilyrði fyrir þjónustu hennar?

Vonandi lítur evangelísk-lútherska kirkjan hér á landi svo á að hún sé hluti af almennri kirkju Krists sem beri sérstök skylda til að starfa meðal landsmanna allra þeim til heilla og ríki Guðs til eflingar jafnvel þótt hún í engu nyti annars stuðnings og verndar af hálfu ríkisvaldsins en önnur trú- og lífsskoðunarfélög.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
13. september 2012

Í gegnum tíðina, og einkum undanfarið, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er um stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá, hef ég fengið ýmsar spurningar og heyrt þeim varpað fram til annarra. Ég hef verið spurður um það hvernig yrði með hátíðisdaga og frídaga sem tengjast kristni, s.s. jól, páska, ef þjóðkirkja yrði ekki í stjórnarskrá. Fólk hefur velt því fyrir sér hvers vegna þjóðkirkjan eigi að njóta réttinda umfram önnur trúfélög og hvað felist í því að stjórnvöldum beri að styðja og vernda kirkjuna. Aðkoma fólks og þátttaka þess í kirkjustarfi er mismikil, stundum engin, og því ljóst að spurningar eru af ólíkum toga. Nú þegar þjóðin þarf að gera upp hug sinn um mikilvægt málefni, þykir mér skipta máli að svara sem flestum spurningum sem bornar eru upp. Ég hef því kosið að svara einni spurningu í senn, í sjálfstæðum greinum, fer hér á eftir svar við spurningu 5 af 7. 

Spurt er: Myndi kirkjan geta neitað t.d. að jarða þá sem ekki voru aðilar að henni í lifanda lífi ef hún yrðu aðskilin að fullu frá ríkinu og yrði því ekki lengur þjóðkirkja? Yrði mögulega tekið gjald fyrir það?

Ef öll formleg tengsl yrðu rofin milli evangelísk-lúthersku þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins og Þjóðkirkjan fengi að öllu leyti sambærilega lagalega stöðu og önnur trú- og lífsskoðunarfélög væri tæpast mögulegt að kalla hana til neinnar þeirrar ábyrgðar sem ekki væri mögulegt að kalla önnur trú- og lífsskoðunarfélög til að gegna. Þannig yrði evangelísk-lútherska kirkjan formlega séð ekki skyld til að þjóna öðrum en þeim sem henni tilheyra. Hún gæti því jafnvel hafnað því að annast greftrun annarra en þeirra sem henni tilheyrðu í lifanda lífi. Þetta helst í hendur við það að þjóðkirkju ber a.m.k. siðferðisleg skylda til að þjóna öllum — vera öllum opin — frjáls trúfélög (fríkirkjur) geta hins vegar ákveðið að takmarka þjónustu sína við eigin félaga og krefjast t.d. ákveðinnar, persónulegrar trúarjátningar til að veita tiltekna þjónustu. Misjafnt er í hverjum mæli fríkirkjur kjósa að vera lokaðar að þessu leyti til. Hér er þó ekki öll sagan sögð og vonandi lítur íslenska Þjóðkirkjan ekki svo á að hún sé þjóðkirkja vegna þess eins að hún starfar á grundvelli 62. gr. stjskr. og laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Vonandi lítur hún svo á að hún sé skuldbundin þjóðinni með margháttuðu móti burtséð frá þeirri lagalegu stöðu sinni. Það sem gerir kirkju að þjóðkirkju eru nefnilega alls ekki aðeins lög og stjórnarskrárákvæði heldur einnig saga, félagsleg og menningarleg samstaða, þjóðarvilji, kristilegur kærleiki og köllunarvitund og ýmislegt fleira sem ekki er alltaf gott að festa hendi á. Vonandi lítur evangelísk-lútherska kirkjan hér á landi svo á að hún sé hluti af almennri kirkju Krists sem beri sérstök skylda til að starfa meðal landsmanna allra þeim til heilla og ríki Guðs til eflingar jafnvel þótt hún í engu nyti annars stuðnings og verndar af hálfu ríkisvaldsins en önnur trú- og lífsskoðunarfélög. “Fullur aðskilnaður“ ríkis og kirkju þarf sem sé í engu að breyta því að kirkjan stæði öllum opin líkt og nú er. Á grundvelli ákvörðunar í þá veru yrði hún áfram þjóðkirkja þótt í öðrum skilningi væri en nú er. — Í stað lögfræðilegs þjóðkirkjuskilnings væri þá rætt um guðfræðilegan eða trúarlegan þjóðkirkjuskilning. Raunar má benda á söguleg og efnahagsleg rök fyrir því að Þjóðkirkjunni bæri að taka þann pól í hæðina sem hér er mælt fyrir. Fljótt eftir kristnitöku tók fólk að leggja einstökum kirkjubygginum til jarðeignir og aðrar eignir sem tryggt gátu rekstur kirknanna. Síðar var sami háttur hafður á til að skapa biskupsstólum, klaustrum og fleiri kirkjulegum stofnunum rekstrargrundvöll. Við siðaskiptin á 16. öld tók lútherska kirkjan við rekstri sóknarkirkna og biskupsstóla. Beggja vegna aldamótanna 1900 var í auknum mæli tekið að líta á hinar fornu kirknaeignir sem sameign sóknanna í landinu, þ.e. kirkjustofnunarinnar sem slíkar. Á 20. öld tók ríkið síðan við umráðarétti og síðar eignarrétti á þorra þessara eigna gegn því að tryggja rekstur kirkjunnar og þá einkum laun embættismanna hennar. — Þar sem þjóðin lagði þannig efnahagslegan grunn að starfi kirkjunnar í upphafi sem haldist hefur allt til þessa má líta svo á að evangelísk-lúthersku kirkjunni, arftaka fornra kirknaeignanna, beri að launa fyrir með því að veita öllum landsmönnum kirkjulega þjónustu. Löngu gegnar kynslóðir stæðu þannig straum af kirkjulegri þjónustu við óbornar. Það er fagur vottur um samstöðu þjóðar gegnum aldirnar með milligöngu kirkjunnar.

Þjónusta kirkjunnar við þjóðina er með ýmsum hætti og kemur m.a. fram í almennu helgi- og hátíðahaldi, kirkjulegum athöfnum á ævihátíðum, sálgæslu og kærleiksþjónustu ak barna- og unglingastarfs. Flest þetta er unnt að veita án sérstakrar skuldbindingar af hálfu þeirra sem þiggja. Á því eru þó undantekningar. Þær kirkjur sem stunda skírn ungbarna verða eðli máls samkvæmt að gera ráð fyrir að henni sé fylgt eftir með fræðslu um trúna, m.a. til að barnið geti síðar á ævinni tekið upplýsta afstöðu um aðild sína að kirkjunni. Þá hefur ferming í þeim kirkjum sem hana ástunda aðeins merkingu að sá/sú sem fermist hafi áður þegið skírn. Skírn og ferming gera því ráð fyrir að barnið eigi einhvern þann að sem tengir það við kirkjuna og axlar ákveðna ábyrgð á uppfræðslu þess. Síðari spurningin sem hér er varpað fram er síðan allt annars eðlis. Þar er spurt um kostnaðarþátttöku sem er algerlaga „praktísks“ eðlis.

Þau sem greiða sóknargjöld mikinn hluta ævinnar greiða að hluta fyrir kirkjulega þjónustu með þeim hætti. Auk þess taka þau þátt í að standa straum af kirkjulegu starfi almennt. Óeðlilegt er í sjálfu sér að þau sem ekki tilheyra kirkjunni hljóti þjónustu endurgjaldslaust eða niðurgreidda af öðrum ef til „fulls aðskilnaðar“ kemur. Virðist því fátt eðlilegra en að þau sem ekki kjósa að tilheyra kirkjunni greiði þá þjónustu sem hefur beinan kostnað í för með sé og þá á einungis á kostnaðarverið. — Frekara gjalds má aftur á móti ekki krefjast af þeim samkvæmt núgildandi stjórnarskrá (sbr. 64. gr.). Hliðstætt fyrirkomulag þyrfti að ríkja í framtíðinni.