Er móðgandi að lofsyngja Krist á krossinum?

Er móðgandi að lofsyngja Krist á krossinum?

Í vetur og vor hefur trúmálaumræðan verið óvenju lífleg. Rætt hefur verið um starf kirkjunnar og stöðu en einnig stundum um kenningu og inntak kristinnar trúar. Umræðan er oftast af hinu góða. Þó þurfa þeir sem kveða sér hljóðs að leitast við af fremsta megni að gæta sannmælis og sanngirni.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
08. maí 2008

Í vetur og vor hefur trúmálaumræðan verið óvenju lífleg. Rætt hefur verið um starf kirkjunnar og stöðu en einnig stundum um kenningu og inntak kristinnar trúar. Umræðan er oftast af hinu góða. Þó þurfa þeir sem kveða sér hljóðs að leitast við af fremsta megni að gæta sannmælis og sanngirni. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 29. apríl s.l. virðist mér því t.d. haldið fram að í kristinni trú sé „dauðinn lofsunginn, pínan dásömuð“ með hneykslanlegum hætti. Er það í raun og veru svo?

PassíusálmarnirÞað er rétt að á tímabilum hefur gætt ofuráherslu á þjáningu og píslir Krists. Í því sambandi má benda á stefnu sem kalla má píslardulhyggju og gerði vart við sig víða um lönd á ofanverðum miðöldum. Svipaðra áherslna gætti í ýmsum greinum píetsima á 18. öld. Hvorugur þessarra strauma hafði nein teljandi áhrif hér. Passíusálmahefð 17. aldar þar sem pína Krists er íhuguð eins og gert er í sálmum sr. Hallgríms Péturssonar varð hér þeim mun sterkari. Áherslur af þessu tagi skjóta svo auðvitað upp kollinum enn á okkar dögum. Nú síðast e.t.v. með kröftugustum hætti í Passíu Mel Gibsons sem mörg okkar sáu á hvíta tjaldinu og þótti nóg um.

Kristin trú er aftur á móti í eðli sínu hvorki dauðadýrkun né upphafning þjáningar. Hún er upprisutrú. Mesta hátíð hennar er ekki föstudagurinn langi heldur páskadagur. Þrátt fyrir að kross, jafnvel róðukross, sé ugglaust algengasta tákn kristinna manna er það þó ekki krossin heldur konur við tóma gröf sem er kröftugasta mynd kristninnar – ef ekki Kristur upp risinn, hinn sigrandi Kristur, Christus Victor! Sigurhróp kirkjunnar er: Kristur er upp risinn! – Brotinn er broddur dauðans! Þess vegna lýkur sr. Hallgrímur Passíusálmum sínum ekki í svartnætti heldur með lofgjörð:

Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst, viska, makt seki og lfgjörð stærst sé þér, ó Jesú, Herra hár, og heiður klár. Amen, amen, um eilíf ár. (Passíusálmur 50:18)

Á hinn bóginn mega hvorki kristnir menn né aðrir verða svo einsýnir að þeir afneiti þjáningunni – þeirri þjáningu sem sagt er frá í guðspjöllunum einkum píslarsögu Krists eða þeirri þjáningu sem ýmsir verða að líða í eigin lífi. Þegar þjáning Krists er útlistuð í máli eða mynd er inntakið oftast þetta: Það er enginn yfirgefinn í þjáningu sinni, það þjáist enginn einn. Guð stendur með hinum þjáða. Þjáning Krists er boðuð til að árétta þetta en ekki til að upphefja eða dásama pínuna sem slíka. Í mynd Krists á krossinum skynjar kristinn maður samstöðu með hinum þjáða á tímum og á öllum stöðum. Missi menn sjónar af samhengi fagnaðarerindisins gæti sama mynd einkennst af kvalalosta. – Öll tákn verður að túlka í tengslum við samhengi þeirra, uppruna og sögu. Þessu máli gegnir einnig um mynd Krists á krossinum.

Svo er það auðvitað þannig að smekkur breytist. Sjálfur á ég ekki gott með að gera öll ummæli Pássíusálmanna að mínum. Ég virði þau þó í sínu samhengi og geri ekki kröfu til sr. Hallgríms um að hugsa eins og 21. aldar maður.