Bjargarleysi samfélagsins

Bjargarleysi samfélagsins

Þegar flett er upp í orðabók þá er bjargarleysi meðal annars skilgreint sem fátækt, , atvinnuleysi, skortur, allsleysi, örbirgð og neyð. Það má því með sanni segja að það ríki bjargarleysi hjá mörgum á Íslandi í dag.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
21. desember 2008

Þegar flett er upp í orðabók þá er bjargarleysi meðal annars skilgreint sem fátækt, , atvinnuleysi, skortur, allsleysi, örbirgð og neyð. Það má því með sanni segja að það ríki bjargarleysi hjá mörgum á Íslandi í dag. Og ef að líkum lætur munu enn fleiri verða bjargarleysinu að bráð eftir áramót þegar uppsagnir fjölmarga sem sagt var upp á haustdögum taka gildi.

Nú kann efalaust einhverjum þykja of sterkt að orði kveðið að tala um allsleysi, örbirgð og neyð. En ef svo er áttar sá hinn sami sig ekki á því ástandi sem svo margir búa við. Það er sorglegt frá því að segja að stöðugt stærri hópur þarf að leyta á náðir hjálparstofnana hér innanlands til að fá mat. Þannig hefur það reyndar löngum verið, sérstaklega fyrir jól. En nú bregður svo við að mjög breiður hópur fólks er í þessari stöðu. Fólk sem lifir ekki af launum sínum eða bótum, venjulegt fólk sem getur ekki bjargað sér og sínum. Eru allar bjargir bannaðar.

Þetta finnum við sem störfum á vegum kirkjunnar vel þegar fólk streymir til okkar í hjálparleit, í leit að mat handa sér og sínum. Sorglegast er þegar sjálft velferðarkerfið bregst, þegar stofnanir samfélagsins neita að hjálpa fólki sem til þeirra leita og vísa á hjálparstarf hverskonar.

Því það sýnir að bjargarleysi samfélagisins er algert.

En nú er ekki tími til að velta slíku fyrir sér. Nú þarf að bjarga fólki, börnum og fullorðnum sem búa við fátækt, skort, allsleysi, örbirgð og neyð.

Strax.

Því hungurvofan knýr á dyrnar.

Hvernig ætlum við að standa að slíkum björgunaraðgerðum? Með því að treysta á alþjóða hjálparstofnanir og kirkjuna? Eða með virku velferðarkerfi sem grípur strax í taumana?

Svarið þolir enga bið.