Er heimsendir í nánd?

Er heimsendir í nánd?

En hvenær hin hinsta stund rennur upp, hvenær dómsdagur kemur, hvenær Kristur snýr aftur, það veit enginn - nema Guð einn. Við eigum ekki að velta því fyrir okkur heldur nýta hvern dag í baráttunni fyrir réttlæti Guðs.

Sú kenning að Guð muni dæma alla menn að þessu lífi loknu er ein af grunnkenningum kristinnar trúar rétt eins og hún er grunnstoð í gyðingdómi og íslam. Á fáum stöðum kemur þessi kenning betur fram en í dæmisögu Jesú í 25. kafla Matteusarguðspjall þar sem hann tengir dóminn við endurkomu sína og hina síðustu tíma.

Þar segir Jesús: "Þegar mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja hvern frá öðrum eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri". Jesús er mannssonurinn en mennirnir sauðirnir.

Dómsdagur er mikið í tísku um þessar mundir. Bíómyndir eins og Hringadrottinssaga, The Matrix, Star Wars og fleiri í þeim dúr fjalla um dómsdag eða heimsendi.

Og spádómar um heimsendi grassera.

Til dæmis keppast einhverjir kanar nú við að spá heimsendi 21. maí næstkomandi- og byggja það á Biblíupælingum og útreikningum.

Aðrir horfa í dagatal Maya-indjána sem rennur sitt skeið í desember 2012 og spá hinir sömu heimsendi þá, rétt fyrir jólin.

Sagan geymir óteljandi slík dæmi -

  En hvað er eiginlega þessi heimsendir?

Lýsingin á degi dómsins- endi heimsins- er svo lifandi hjá Jesú í Matteusarguðspjalli, að við sjáum allar aðstæður fyrir okkur, dómarann og allt mannkyn. Það eru ekki aðeins þeir sem játa kristna trú sem verða dæmdir á dómsdegi samkvæmt því er Jesús segir. Það eru allir menn, óháð trú, litarhætti og kyni sem munu koma fram fyrir mannssoninn. Þetta er önnur og harðari mynd sem við sjáum hér af Jesú en við erum vön að gera okkur í hugarlund. Hér er kominn dómarinn sem allir menn þurfa að standa reikningsskil gerða sinna gagnvart á hinum hinsta degi.

Jesú er vissulega bróðirinn besti og vinurinn kæri. En hann gerir til okkar kröfu um að við fylgjum sér í verki, ekki aðeins í orði kveðnu. Við verðum að bera ábyrgð á gjörðum okkar. Myndin af dómsdegi undirstrikar alvöru þessarar ábyrgðar. Það hvernig við tökum við boðskap hans og hvernig við í ljósi þessa boðskapar kjósum að lifa lífi okkar, það mun ákvarða þann dóm sem okkar býður á hinum efsta degi. En hver er mælistikan sem mannkyn allt verður dæmt eftir? Skiptir máli hvort menn séu lúterskir, kaþólskir eða hvítasunnumenn? Eða eiga til dæmis þeir sem eru fæddir hindúar, búddistar, múslímar eða eitthvað enn annað enga von um miskunn á degi dómsins? Við skulum gefa Jesú orðið. Hann segir í guðspjallinu við þá sem hljóta góðan dóm:

"hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín". En þessi orð Jesú vekja mikla undrun þeirra sem hafa fengið góðan dóm.

Þeir segja hissa:"herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta, eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Og Jesús svarar: Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér". Þar með er forsenda dómsins komin á hreint. Dómurinn  byggir sem sagt ekki á því hvort við höfum beðið afskiptalaus um aðra eftir því að hitta Jesú á förnum vegi, til þess að gera honum gott og græða á því inneign hjá almættinu. Nei, Jesú mætum við fyrst og fremst í öðrum mönnum.

Þess vegna gengur líka allt mannkyn fram fyrir dómarann Jesú á dómsdegi. Það skiptir ekki máli hvort menn hafi minni eða meiri þekkingu á þessu eða hinu í kenningu og siðum kirkjunnar. Það skiptir ekki máli hvort menn eru prestar, biskupar, auðjöfrar, forsætisráðherrar, húsmæður, vinstra eða hægra megin í pólitík, kristnir eða múslímar, trúaðir eða vantrúarmenn, samkynhneigðir eða gagnkynhneigð. Við dæmumst af því hvernig við mætum öðrum mönnum í þeirra neyð.

Lítum á dómsorðin:

"Gestur var ég og þér hýstuð mig" segir Jesús. Ef við viljum vera lærisveinar hans, þá eigum við ekki að snúa bakinu við hinum gestkomandi. Aldrei hefur verið eins mikil þörf á því eins og í dag að bjóða gesti velkomna, hýsa útlendinginn sem hingað sækir. Og sjaldan hefur verið eins rík ástæða til að snúa bökum saman og standa gegn hverskonar kynþáttafordómum og þjóðernisrembingi á landinu okkar bláa.

"hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, nakinn og þér klædduð mig? sjúkur og þér vitjuðuð mín, " segir Jesú. Hver er staða sjúkra og öryrkja í landinu okkar í dag? Getum við kinnroðalaust hlustað á þessi orð Jesú?

" Í fangelsi var ég og þér komuð til mín" segir Jesú.  Hvenær spyrjum við um hvað hægt sé að gera til að hjálpa þeim sem í fangelsi sitja í stað þess eingöngu að herða dómana yfir þeim? Krafan um þyngri refsingu gagnvart ólánsfólki yfirgnæfir orðið allt annað.  Og við lokum augunum fyrir mannréttindabrotum svokallaðra bandamanna okkar í Bretlandi og Bandaríkjunum  sem pynta fanga í nafni lýðræðis.

Og þannig mætti halda áfram að spyrja.

Krafa Jesú um réttlæti nær til alls samfélagsins. Það dæmist líka. Hér á landi ríkir til dæmis upplausn og ótti eftir fjármálahrunið árið 2008. Fátæktin knýr dyra, atvinnuleysi og örvænting.  Að baki býr spillingin sem því miður hefur grafið um sig í samfélaginu og komið okkur í þá aðstöðu sem nú blasir við. Hreyfiafl spillingarinnar var græðgin, hin óstöðvandi græðgi sem engu eyrði.

Og enn einu sinni kallar Jesús okkur  því til endurmats á lífi okkar. Enn einu sinni kallar Jesús  kirkjuna sína til að vera fánaberi réttlætisins í samfélaginu.

Við skulum láta hér staðar numið. Frásögn Jesú í guðspjallinu af hinum hinsta dómi heldur reyndar áfram. Þú getur sjálfur, sjálf flett upp á 25 kafla Matteusarguðspjalls og lesið þar niðurlag sögunnar. En hvort sem þú gerir það eða ekki þá skaltu vera minnugur, minnug orða Jesú, næst þegar þú lítur á samfélagið okkar og þitt eigið líf og gjörðir. Því krafa Jesú um réttlæti, umhyggju með hinum smáu, með lítilmagnanum, hún nær til allra manna og til allra þátta mannlífsins. Líka til þín. Það að gera ekkert og líta undan, það er líka afstaða sem við berum ábyrgð á.

Um dóminn sem bíður má því segja þetta:

Allir menn munu verða dæmdir óháð trú, kyni, litarhætti eða öðru sem skilur að mennina.

Sérhver dæmist samkvæmt verkunum.

Lokadómurinn mun skilja milli þeirra sem fylgja Kristi í sannleika og hinna.

Hinn réttláti fær að dvelja hjá Guði, hinn fordæmdi er án Guðs.

Allt þetta vekur síðan upp spurninguna um hina hinstu tíma. Kristin trú hugsar tímann í beinni línu frá sköpun til hins hinsta dags, öfugt við mörg austræn trúarbrögð sem sjá tímann sem eilífa hringrás endurfæðingar. Að endingu mun Guð eyða hinu illa og gera heiminn að því ríki sínu sem hann ætlaði sér með sköpuninni. Við  bíðum dómsdags þegar Jesús snýr aftur og ný öld rennur upp. Þá mun ríki Guðs á himnum og á jörðu verða eitt. Allt hið illa mun þá hverfa og eyðast en réttlæti Guðs verða allt í öllu. Nú þegar er tekið að móta fyrir þessu ríki Guðs vegna komu Jesú Krists í heiminn. Hann setti í lög réttlæti Guðs og að því réttlæti eiga allir Kristnir menn að vinna.

En hvenær hin hinsta stund rennur upp, hvenær dómsdagur kemur, hvenær Kristur snýr aftur, það veit enginn - nema Guð einn. Við eigum ekki að velta því fyrir okkur heldur nýta hvern dag í baráttunni fyrir réttlæti Guðs.

Því eins og Jesús segir í hinni mögnuðu ræðu sinni í Matteusarguðspjalli um dómsdag eða endi heimsins - heimsendi:

"Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur..............." (Matt.24).