Hvernig mun fjármögnun og fleira praktískt breytast ef kirkjan verður ekki lengur þjóðkirkja í stjórnarskrá?

Hvernig mun fjármögnun og fleira praktískt breytast ef kirkjan verður ekki lengur þjóðkirkja í stjórnarskrá?

Fyrsta spurningin sem skýtur upp kollinum í aðskilnaðarumræðu er hvort trú- og lífsskoðunarmálefni skuli að öllu leyti heyra undir einkamálarétt eða að nokkru undir opinberan rétt. Þá starfa trú- og lífsskoðunarfélög á mjög viðkæmum sviðum sem oft geta gengið nærri einstaklingum..... Hið opinbera þarf að hafa nokkra innsýn í starfsemi þeirra og möguleika á að grípa inn ef ástæða þykir að ætla að brotið sé á einstaklingum eða réttur þeirra skertur af hálfu trú- og lífsskoðunarfélaga.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
14. september 2012

Í gegnum tíðina, og einkum undanfarið, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er um stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá, hef ég fengið ýmsar spurningar og heyrt þeim varpað fram til annarra. Ég hef verið spurður um það hvernig yrði með hátíðisdaga og frídaga sem tengjast kristni, s.s. jól, páska, ef þjóðkirkja yrði ekki í stjórnarskrá. Fólk hefur velt því fyrir sér hvers vegna þjóðkirkjan eigi að njóta réttinda umfram önnur trúfélög og hvað felist í því að stjórnvöldum beri að styðja og vernda kirkjuna. Aðkoma fólks og þátttaka þess í kirkjustarfi er mismikil, stundum engin, og því ljóst að spurningar eru af ólíkum toga. Nú þegar þjóðin þarf að gera upp hug sinn um mikilvægt málefni, þykir mér skipta máli að svara sem flestum spurningum sem bornar eru upp. Ég hef því kosið að svara einni spurningu í senn, í sjálfstæðum greinum, fer hér á eftir svar við síðustu spurningunni.   

Spurt er: Hvernig myndi fjármögnun og fleira prakstíst breytast ef kirkjan verður ekki lengur þjóðkirkja í stjórnarskrá?

Aðskilnaður ríkis og kirkju er flókið ferli sem almennt fer fram í áföngum og tekur því nokkurn tíma. Þá er það samfélagspólitískt mál hve langt skuli gengið í aðskilnaðarátt. Í því efni er eðlilegt að líta til lýðræðis- og mannráttindaþróunar á hvejum stað en þar höfum við náð langt. Ákveða þarf hvort með aðskilnaði sé aðeins átt við einföldun á tengslum ríkis og þjóðkirkju, hvort sérlög eigi að gilda um meirihlutakirkju í landinu eða ekki, hvort engin ein kirkja skuli hafa sérstöðu gagnvart ríkisvaldinu eða hvort engin tengsl skuli yfir höfuð vera milli ríkis og trú- og lífsskoðunarfélaga. Í löndum þar sem aðskilnaður hefur verið gerður hefur verið farið mislangt og stefnan hefur verið mörkuð út frá sögulegum, menningarlegum, samfélagslegum og trúarlegum aðstæðum á hverjum stað. Það er því misjafnt hvaða „praktísku“ viðfangsefni þarf að glíma við á hverjum stað. Hér hefur lítil markviss umræða átt sér stað og engin stefna verið mörkuð í aðskilnaðarmálum. Því er erfitt að sjá fyrir hvaða „praktísku“ viðfangsefni skytu upp kollinum hér. Í þessu svari verður því aðeins staldrað við fáein almenn atriði og gengið út frá að aðskilnaður feli í sér að ákveðið yrði að engin ein kirkja skuli hafa lagalega sérstöðu gagnvart ríkisvaldinu.

Eiga trúmál að heyra undir opinberan rétt?

Fyrsta spurningin sem skýtur upp kollinum í aðskilnaðarumræðu er  hvort trú- og lífsskoðunarmálefni skuli að öllu leyti heyra undir einkamálarétt eða að nokkru undir opinberan rétt. Auðvitað eru trú og lífsskoðanir fólks einkamál og hver og einn einstaklingur á að njóta sem mests frjálsræðis í þeim efnum eins og stjórnarkrá okkar og mannréttindasáttmálar sem við höfum gerst aðilar að kveða á um. Fljótt vakna þó spurningar um hvað skuli heimilað og hvað ekki varðandi trúariðkun og tjáningu trúar og lífsskoðana í opinberu rými. Þá starfa trú- og lífsskoðunarfélög á mjög viðkæmum sviðum sem oft geta gengið nærri einstaklingum. Hið opinbera þarf því að hafa nokkra innsýn í starfsemi þeirra og möguleika á að grípa inn ef ástæða þykir að ætla að brotið sé á einstaklingum eða réttur þeirra skertur af hálfu trú- og lífsskoðunarfélaga. Mörg dæmi eru um það a.m.k. erlendis.

Það sem hér hefur verið bent á mælir með að starf trú- og lífsskoðunarfélaga heyri a.m.k. að nokkru leyti undir opinberan rétt og sérstök lög kveði á um starfsemi þeirra. Slík lög væru þá frekari útfærsla á trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar. Hér á landi er löng hefð fyrir slíkum lögum. Fyrsti vísir þeirra var settur á 9. áratug 19. aldar og  kváðu þau lög á um (takmarkaðan) rétt utanþjóðkirkjufólks. Nú gilda lög um skráð trúfélög nr. 108/1999 á um rétt og stöðu slíkra félaga og fyrir Alþingi liggur frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á þeim þannig að þau nái einnig til lífsskoðunarfélaga. Samþykkt frumvarpsins væri stórt framfararskref á svið trúmálaréttar í landinu. Þjóðkirkjan heyrir að hluta undir lög um skráð trúfélög. Eitt af álitamálunum sem ráða þyrfti fram úr snýst um hvort þjóðkirkjan skuli alfarið heyra undir þessi lög eða ekki. Lög þessi mætti að sjálfsögðu endurskoða á ýmsa vegu en ef aðskilnaður miðast aðeins að því að tryggja að öll trú- og lífsskoðunarfélög séu jöfn að lögum virðast engin sérstök rök standa til að fella þau úr gildi eða hætta lagasetningu á þessu sviði. 

Eiga að gilda sérlög?

Eins og á var bent heyrir Þjóðkirkjan að nokkru leyti undir lög um skráð trúfélög. Aðskilnaður gæti falist í því að láta hana alfarið falla undir þessi lög með sama hætti og þau mörgu, smáu trúfélög sem starfa í landinu.

Þjóðkirkjan hefur þó ýmsa sérstöðu sem réttlætt getur og jafnvel kallað eftir að um hana gildi sérstök lög. Stór hluti þjóðarinnar tilheyrir Þjóðkirkjunni og greiðir til hennar félagsgjöld, sóknargjöld. Hún er stór vinnuveitandi og veltir miklum fjármunum. Hún á miklar eignir, t.d. kirkjuhús sem mörg teljast til menningarminja. Hún gegnir fjölþættum félagslegum og menningarlegum hlutverkum og kemur með ýmsum hætti að lífi fólks á viðkvæmum stundum, á viðkvæmum sviðum og oft við erfiðar aðstæður. Allt kallar þetta á lög og reglur sem ekki þurfa að gilda um smá trúfélög sem e.t.v starfa á einum stað, ná til fárra prósenta þjóðarinnar og starfa bara meðal eigin félaga.

Þess eru líka dæmi þar sem stór skref hafa nýlega verið stigin í aðskilnaðarátt að ákveðið hefur verið að láta sérstök lög ná yfir þá kirkju sem áður var ríkis- eða þjóðkirkja þrátt fyrir að öflug löggjöf hafi gilt um starf annarra trúfélaga og þau jafnvel notið stuðings ríkisvaldsins. Svo er t.d. í Svíþjóð þar sem „aðskilnaður“ var gerður um aldamótin 2000. Þar gilda sérlög um meirihlutakirkjuna sem vissulega eru mun styttri og hreinni rammalög en hér gilda um Þjóðkirkjuna nú (lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997).

Hvað á kirkjan að heita?

Opinbert heiti evangelísk-lúthersku meirihlutakirkjunnar hér á landi er Þjóðkirkjan eða Íslenska þjóðkirkjan. Komi til meiri eða minni aðskilnaðar vaknar spurningin hvort hún geti haldið þessu heiti. Flestir tengja þjóðkirkjuhugtakið ugglaust við lagalega sérstöðu Þjóðkirkjunnar og líta þá svo á að eftir aðskilnað geti hún ekki haldið þessu heiti. Merkingarsvið þjóðkirkjuhugtaksins eru þó fleiri og sum gætu rennt stoðum undir að þjóðkirkjuheitið yrði notað áfram a.m.k. fyrst um sinn eftir aðskilnað. Ein merking hugtaksins er meirihlutakirkja, kirkja sem nær yfir háa prósenttölu landsmanna. Meðan svo er væri mögulegt að notað heitið áfram jafnvel í lögum. Önnur merking er söguleg og vísar þá til langrar sögulegrar samfylgdar lúthersku kirkjunnar og íslensku þjóðarinnar. Einnig sú merkin gæti réttlætt áframhaldandi notkun heitisins. Fleiri merkingarsvið hugtaksins koma einnig til álita í þessu efni. Opinbert heiti meirihlutakirkjunnar í Svíþjóð hefur lengi verið Svenska kyrkan og það er áfram heiti hennar þrátt fyrir að stjórnarskrárákvæði um hana hafi verði felld úr gildi um síðustu aldamót. Það gæti verið fordæmi fyrir að nota þjóðkirkjuheitið áfram.

Verði þetta gert verður þó að hafa hugfast að hér er aðeins um formlegt heiti að ræða sem mótast af sögulegri hefð. Í því má ekki felast tilkall til að Þjóðkirkjan sé rétthærri meðal Íslendinga, þjóðlegri eða íslenskari en önnur trú- og lífsskoðunarfélög enda ætti Þjóðkirkjan fremur að leitast við að vera almenn, lífrænn hluti hinnar alþjóðlegu kirkju Krists. Þá má heldur ekki felast í heitinu tilkall til að þessi ákveðna kirkja eigi beinni aðkomu að opinberu lífi en önnur trú- og lífsskoðunarfélög eða tali fyrir munn allra landsmanna. Hún ætti að keppa eftir samstöðu og samvinnu við önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Stærðar sinnar vegna ber henni einmitt að vera helsti talsmaður trúfrelsis og lífsskoðunarlega jöfnuðar í landinu. — „Stóra systir“ ber oftast ríkari ábyrgð en þær smærri. 

Hvaða tiltekt þarf að gera í lögum?

Komi til aðskilnaðar ríkis og kirkju þarf að skoða lög og reglugerðir sem í gildi eru og snerta stöðu, stjórn eða starfshætti Þjóðkirkjunnar beit eða óbeint. Fyrsta skrefið væri að endurskoða lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Eftir aðskilnað væru þau allt of ítarleg og áskildu löggjafanum allt of mikla aðkomu að málefnum eins trúfélags sem þó nyti ekki sérstaks stuðnings eða verndar ríkisvaldsins. Eftir aðskilnað yrði Þjóðkirkjan að njóta sama sjálfstæðis, sjálfsstjórnar og trúfrelsis og önnur trú- og lífsskoðunarfélög í landinu. Hér er raunar komið að einu helsta álitaefninu varðandi aðskilnað. Vegna yfirburðastærðar Þjóðkirkjunnar, fjárhagslegrar veltu og víðtækrar starfsemi er ekki víst að ríkisvaldið ætti að sleppa þeirri aðkomu sem það á nú að mótun á stjórn og starfsháttum kirkjunnar. Það þarf að tryggja að þessi stóra kirkja sé lýðræðisleg, gæti jafnréttis og fari að góðum stjórnsýsluháttum. Tengsl ríkis og kirkju eru tæki til að tryggja þetta. Stór, lokuð og ólýðræðisleg kirkja gæti reynst þjóðinni hættuleg. Ríkisvaldinu ber að fyrirbyggja það.

Síðan þarf að gaumgæfa ýmis önnur lög eða einstök ákvæði í þeim þar sem þjóðkirkjuhugtakið kemur fyrir og gaumgæfa hvort umritunar sé þörf. Þar skiptir auðvitað mestu hvort þjóðkirkjuheitið verður notað áfram eða tekið úr umferð í lagamáli.

 

Hvað breytingar þarf að gera á rekstri Þjóðkirkjunnar?

Mörgum verður fyrst hugsað til fjármálatengsla ríkis og kirkju þegar rætt er um aðskilnað og þá tiltekt sem gera þyrfti í framhaldi af honum. Það er líka rétt að eftir að fjárhagstengsl þessara stofnana voru stórum flækt á 20. öld er þetta eitt af þeim viðfangsefnum sem yrði við að glíma við aðskilnað. Er það einkum vegna flutnings fornra kirknaeigna í hendur ríkisins í byrjun aldarinnar og þann flókna umbúnað sóknargjalda sem komið var á undir lok hennar. Mergurinn málsins er þó að eftir langa sambúð ríkis og kirkju þar sem löggjafinn hefur haft greiða aðkomu að innri málefnum kirkjunnar sem m.a. lúta að rekstri hennar hefur ríkið bakað sér ríkar siðferðislegar skyldur gagnvart kirkjunni. Aðskilnaður má ekki hafa stórvægileg, skyndileg og hugsanlega ófyrirséð áhif á starf hennar þótt vissulega geti komið til einhverra breytinga eða „hagræðingar“ á stafi kirkjunnar þegar til lengri tíma er litið — líkt og einnig er raun á þótt enginn aðskilnaður verði.

Það er mikilvægt að horfast í augu við að Þjóðkirkja og ríkið eiga í margs konar fjárhagstengslum. Þau eru þó ekki nema að takmörkuð leyti afleiðing af þjóðkirkjuskipaninni. Afrakstur fornra kirknaeigna og sóknargjöld standa ekki í neinum beinum tengslum við þjóðkirkjuskipanina. Annað eru leifar frá þeirri tíð er kirkjan var fjárhagslega sjálfstæð og sjálfbær stofnun. Hitt eru félagsgjöld í trúfélagi sem hafa verið færð í óheppilegar umbúðir sem breyta þarf. Auk þess koma sóknargjöld öllum skráðum trúfélögum til góða og í framtíðinni vonandi skráðum lífsskoðunarfélögum sömu leiðis. Eftir aðskilnað kann að vera til bóta að breyta umbúnaði þessara tveggja málaflokka til að auka gagnsæi og skýra línur þrátt fyrir að breytingar á þessu sviði þurfi ekki endilega að vera hluti af aðskilnaði. Einföldun væri einnig til bóta þótt enginn aðskilnaður yrði gerður. Aðskilnaður útheimtir aftur á móti að Þjóðkirkjan njóti ekki annarra beinna ríkisstyrkja en önnur skráð trúfélög njóta líka að teknu tilliti til stærðar, fjölda starfsstöðva og þeirra félags- og menningarlegu hlutverka sem hvert félag um sig gegnir meðal landsmanna.

Að lokum

Hér verður ekki farið út í getgátur um hvaða þróun geti orðið í framtíðinni varðandi stöðu og hlutverk Þjóðkirkjunnar í hinu opinbera rými ef tengsl hennar við ríkisvaldið rofna. Flestar þær breytingar sem til álita koma auk þeirra sem hér hafa verið taldar hafa enda lítið með tengsl Þjóðkirkju og ríkis í þröngum skilningi að gera heldur tengjast frekar tengslum Þjóðkirkju og þjóðar. — Tengsl ríkis og kirkju ráðast enda alltaf af því huglæga sambandi þegar dýpst er skoðað. Einmitt af þeim ástæðum áskilur stjórnarskrá Íslands þjóðinni lokaorðið um breytingar á kirkjuskipaninni.