Opin augu og lokuð

Opin augu og lokuð

Á umbrotatímum stendur manneskjan óstyrkum fótum og veit ekki hvert skal halda. Ekkert virðist vera betra en annað. Ráð manna streyma úr öllum áttum. Sum eru góð og gild, gömul og margreynd, önnur eru óráð og illa ígrunduð.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
15. október 2008

Á umbrotatímum stendur manneskjan óstyrkum fótum og veit ekki hvert skal halda. Ekkert virðist vera betra en annað. Ráð manna streyma úr öllum áttum. Sum eru góð og gild, gömul og margreynd, önnur eru óráð og illa ígrunduð.

Á góðum stundum vitna menn í spámenn og spekinga. Allt leikur í lyndi og mönnum þykir ljúft að hlýða á spakleg orð og telja sig svo sannarlega hafa farið að þeim enda brosir sólin við þeim. Þegar skýjabakkar hrannast upp og sól hverfur, jörð nötrar og þytur hrægamma heyrist í fjarska, spyrja menn hvort forn hollráð hafi brugðist eða þeir ekki farið að þeim. Kannski misskilið þau. Eða kannski voru þau ekki holl og speki þeirra hol?

Skyndivelmegun er eins og aðrir vel auglýstir skyndibitar í fyrstu ljúfir á bragðið en eftir máltíðina langar þig helst til að kasta upp. Varstu kannski að renna niður borðtuskunni? Vissir þó að skyndibitinn var ekki sá hollasti og sérð eftir að hafa kýlt út vömbina. Og ekki vantaði þá sem vöruðu þig við og vísuðu í óteljandi skýrslur og álit máli sínu til stuðnings. En svona er nú mannskepnan einu sinni. Lokar augunum.

Neyðarfundir fylgja umbrotatímum. Á slíkum fundum fara menn yfir stöðuna, eins og sagt er. Eru raunsæir og gleyma náttúrlega ekki bjartsýninni – eða hvað? Á rafmögnuðum neyðarfundum þykir mörgum líka heilsusamlegast að vera með augun lokuð. En það eru ekki bara ráðamenn sem halda slíka fundi. Það er nefnilega margur sem heldur neyðarfund í sálarkirnu sinni. Þar er ekki síður þörf á raunsæi og bjartsýni. Á öllum neyðarfundum er nauðsynlegt að hvessa augun á grundvöll þann sem hver maður byggir líf sitt á. Það er þörf á speki. Þörf á trú.

Klassísk speki kemur mörgum til bjargar. Mörg dæmi um slíka speki ná nefna. „Ekkert jafnast á við hófsemi, til þess að leiðbeina mönnum og þjóna hinu himneska. Með hófsemi komast menn snemma á réttar brautir og allar hindranir verða yfirstignar.“ Þessi orð má finna í Bókinni um veginn eftir Lao-tse, sem fæddur var um 600 f. Kr. Gagnlega speki á viðsjárverðum tíma má líka finna hjá Þeófrastosi í riti hans, Manngerðir, en hann fæddist í lok 4. aldar f. Kr.

Í því riti má finna lýsingar á manngerðum sem allir kannast við – ekki bara hjá öðrum heldur og líka hjá sjálfum sér. Eins og: „Kvörtunargirni er gagnrýnin afstaða til eigin hlutskiptis – umfram það sem góðu hófi gegnir.“ Og lýsing á hinum fruntalega: „Hann tekur ekki á móti afsökunum frá neinum, sem kann að hafa óhreinkað hann óviljandi, rekið sig í hann eða stígið ofan á fótinn á honum.“

Biblían geymir mikla speki sem reynist haldgóð á öllum tímum. Hún minnir okkur líka á hvað skynsamlegt er og hvað ekki. Eins og: „Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tím 6.10). Og hversu margir hafa ekki sagt við sjálfa sig drjúgir á svip með pappírsauð í höndum: „Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.“ (Lk 12.19). En það var skammvinn sæla – hafi það nú verið yfirleitt sæla – enda var augum lokað fyrir því sem mikilvægast er: að vera ríkur í augum Guðs: „Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.“ (Lk 12.34).

Nú er tími harmkvæla. Líka tími til að endurmeta sjálfan sig og samfélag sitt. Horfa opnum augum fram á við. Spyrja um fjársjóði sem mölur og ryð granda ekki því gengisvísitala andlegra auðæfa fellur ekki. Hún er skráð í hjarta þínu. Það er ekki hægt annað en að gleðjast þegar menn uppgötva þessi andlegu auðæfi í ölduróti daganna. Jafnvel þótt mörgum þyki augun hafa lokist hægt upp.

Mannlegt eðli breytist lítið frá einni öld til annarrar. Hugsun hins tæknivædda nútímamanns er ekki ósvipuð hugsun þess ágæta pars sem forðum daga valsaði um í Edenslundi. Þar var auðvelt að finna sökudólga enda ekki mörgum til að dreifa – eða hvað? Og þar var ekki hlustað á hollráð heldur gengið í gin hins lævísa og haldið í útrás í von um meira. Í óskhyggju um að standa jafnfætis Guði. Það heitir hroki.

Á umbrotatímum er hollt að skoða þetta eðli og gangast við því. Ekki bara græðginni sem leiðir ýmsa í ógöngur eins og hnípin þjóð kannast við nú um stundir. Vonleysi getur grafið um sig þegar horfst er í augu við atvinnumissi. Reiði vaknar þegar menn telja sig hlunnfarna eða illa svikna. Og hjá mörgum vaknar hefndarhugur. Allt eru þetta eðlilegar tilfinningar sem verður að glíma við af hófsemd og viti. Hafa speki með í för – hafa Guð í för því að til góðs vinar liggja gagnvegir.