Er Guð með í svona messum?

Er Guð með í svona messum?

Í dag er mikið lagt upp úr því að fá sem flesta til kirkju. Það er auðvitað gott í sjálfu sér, því varla viljum við kristnir menn að kirkjurnar séu tómar og illa sóttar. Enn síður viljum við að kirkjan sé einhver afgreiðslustofnun eins og pósthúsið sem annast tímamótaathafnir fyrir almenning er sækir þjónustuna eins og af gömlum vana.

Í dag er mikið lagt upp úr því að fá sem flesta til kirkju. Það er auðvitað gott í sjálfu sér, því varla viljum við kristnir menn að kirkjurnar séu tómar og illa sóttar. Enn síður viljum við að kirkjan sé einhver afgreiðslustofnun eins og pósthúsið sem annast tímamótaathafnir fyrir almenning er sækir þjónustuna eins og af gömlum vana. En gæti það verið að á stundum verði höfðatalningin aðalatriðið, það að fá sem flesta hausa í kirkjuna, á meðan sá sem þar ætti að vera í forgrunni gleymist?

Þúfan sem velti þessu hlassi af stað í huga mér í dag voru orð dóttur minnar einnar fyrir nokkru einn sunnudagsmorgun þegar við vorum að hlusta á morgunfréttir og borða morgunmat. Í fréttunum var verið að segja frá miklu fjöri sem væntanlegt var í kirkjulífinu þann daginn, allskonarstuðmessum og messustuði. Að ólgeymdum veisluföngum sem boðið var upp á eftir messurnar. Allt hljómaði þetta spennandi og vonandi voru allar þessar ágætu messur vel sóttar og öllum til gleði.

Dóttir mín spurði mig sem sagt, "er Guð með í svona messum"? "Auðvitað", svaraði ég að bragði og hrökk við, enda sjálfur alvanur að standa fyrir poppmessum og rokkmessum og stuðmessum.

Til að fá fólkið í kirkjuna. Skárra væri það nú!

Auðvitað er Guð með í svona messum.

Með það hljóp dóttir mín út í sólina. En... spurningin hefur ekki látið mig í friði.

Snýst þetta allt orðið um að fá fólkið til kirkju, með öllum ráðum? Með pulsum og ís, eða hestum og hoppiköstulum eða poppgoðum og frægu fólki? Svona er þetta að verða t.d. í hjónavígslunum þar sem fjörið og hressleikinn og frumleikinn skiptir oft öllu - presturinn er þar gjarnanaukapunt í tilefni dagsin- tala nú ekki um hinn kristna boðskap. Ég get nefnt sem dæmi fyrir nokkru þegar ég var að gifta einn frægan. Glamor-Bandið spilaði auðvitað undir, og alltmulig stuð átti að setja svip sinn á athöfnina. Þegar ég var að æfa parið og kom að ávarpinu, spurði brúðguminn mig vinalega hvort ekki væri í lagi að félagi hans myndi spila á gítar, "impróvísera" undir  ávarpinu og ritningarlestrinum. Hann hafði nefnilega nýlega farið í brúðkaup og fundist ræðan hjá prestinum vera svoddan "downer" í annars góðri athöfn. Man ekki hvernig ég klóraði mig út úr þessu, en ég slapp þó við undirleikinn og komst að með downerinn.

Sem sagt: Hvers vegna erum við að blanda Guði í þetta stuð allt? Er ekki næsta skref að sleppa Guði og vera bara í kirkjustuði (þ.e. ekki með Guði í stuði)? Sleppa downernum?

Eða ... sakna fleiri en ég messunnar sem er bara messa til einskis annars en að vera messa. "Baramessa". Ekki til að vera í stuði eða gera e-ð flott, heldur bara, bara til að vera með Guði.

Hundleiðinlegt auðvitað. Enda kemur eflaust enginn í slíka messu. Nema Guð. En er þá ekki eitthvað að ef enginn nennir að koma í kirkjuna, bara til að hitta Guð?