Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?

Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?

....að vernda þjóðina fyrir ýmsum skuggahliðum trúarbragðanna sem sagt gætu til sín í auknum mæli ef trúmál heyrðu alfarið undir einkamálarétt. — Þetta eru veigamestu rökin fyrir þjóðkirkjuákvæði eða ígidi þess.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
19. október 2012

Í tveimur greinum hér í Fréttablaðinu (18. og 27. sept.) hef ég mælt með að þjóðkirkjuákvæði verði áfram í stjórnarskránni enn um sinn a.m.k. Ég hef þó ekki mælt með óbreyttu ákvæði heldur trúmálagrein er hæfi nútímanum og kvæði á um tengsl allra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga við ríkisvaldið. Þar væri þjóðkirkjunnar getið sérstaklega. Margir benda á að trúmál séu einkamál í vestrænum nútímasamfélögum og því eigi ekki að kveða sérstaklega á um kirkjur, trú- og lífsskoðunarfélög í stjórnarskránni. Það er því eðlilegt að spurt sé hvers vegna mælt sé með þjóðkirkju- eða trúfélagagrein í stjórnarskrá.

Endurkoma trúarbragða

Á 20. öld dró úr áhrifum trúarbragða og trúfélaga á Vesturlöndum. Kirkjusókn minnkaði og trúariðkun þvarr. Á síðari áratugum hefur orðið breyting í þessu efni og margir ræða um endurkomu trúarbragðanna. Ýmislegt bendir til að starf trúfélaga muni fara í vöxt á komandi árum og þau seilast til aukinna samfélagsáhrifa. Trúarbragðaflóran mun einnig verða fjölskrúðugri og trúfélögum þar með fjölga.

Hingað til hefur þjóðkirkjan mætt þessari þróun með víðsýni þroskaðrar móður. Svo þarf þó ekki að verða áfram. Stöðugt oftar heyrist úr röðum þjóðkirkjunnar að „sótt sé að henni“. Hin virðulega meirihlutakirkja virðist skynja vaxandi ógn og öryggisleysi. — Kirkja sem telur sér ógnað skerpir línurnar, leggur aukna áherslu á sérstöðu sína, tekur að keppa við önnur trúfélög og kemur í auknum mæli fram á sama hátt og þau. Yfirbragð þjóðkirkjunnar kann því að breytast. 

Trú til góðs og ills

Trú og trúfélög hafa haft fjölmargt gott í för með sér. Þau hafa hjálpað ótalmörgum að túlka tilveru sína, eygja tilgang í lífinu og öðlast lífshamingju. Þau hafa miðlað jákvæðum samfélagsgildum og lagt grunn að góðu mannlífi. Loks hafa þau orðið kveikja að fjölmörgum listaverkum af ólíku tagi. Þannig mætti lengi telja. Trú og trúfélög geta þó líka alið á spennu og fordómum, valdið styrjöldum og brotið niður sjálfsmynd einstaklinga og traust þeirra til annarra. Af þessum sökum er brýnt að reiknað sé með trúfélögum sem gerendum í þjóðfélagi framtíðarinnar. Þá er mikilvægt að hlúð sé að jákvæðum hliðum þeirra og þeim gert mögulegt að leggja sitt af mörkum til að efla velferð í samfélaginu. Þar hafa þau af miklu að miðla. Vegna skuggahliða trúarbragðanna er líka mikilvægt að samfélagið hafi innsýn í starf trúfélaga og ríkisvaldið geti jafnvel átt aðkomu að því a.m.k. sem öryggisloki ef illa fer. Trúmál ekki bara einkamál Af fyrrgreindum ástæðum virðast veigamikil rök fyrir að jafnvel í lýðræðislegum fjölhyggjusamfélögum sé ekki litið svo á að allt sem að trúmálum lýtur sé einkamál. Þrátt fyrir að ríkisvaldið eigi ekki að hlutast til um trú okkar hvers og eins er æskilegt að í gildi sé vönduð löggjöf um starf trúfélaga og þau heyri þannig undir opinberan rétt. Því eru nú í gildi lög um skráð trúfélög sem þjóna tvíþættu hlutverki: Þau setja opinberar leikreglur um störf trúfélaga en veita þeim jafnframt nokkra hlutdeild í þeirri fyrirgreiðslu sem hið opinbera veitir þjóðkirkjunni þó í ríkari mæli. Í framtíðinni þurfa þessi lög einnig að ná að fullu til lífsskoðunarfélaga sem gegna hliðstæðu hlutverki og trúfélög þótt „kenning“ þeirra sé veraldleg. Þjóðkirkjulög Rök standa einnig til að um hina stóru meirihlutakirkju — þjóðkirkjuna — gildi sérstök lög vegna yfirburðastæðrar hennar, þeirra fjölþættu hlutverka sem hún gegnir umfram önnur trúfélög og vegna þeirra miklu fjármuna sem hún veltir. Þessi stóra kirkja verður að standast sömu kröfur og smærri trú- og lífsskoðunarfélög. Auk þess hlýtur samfélagið að gera ríkari kröfur til hennar en smærri trúfélaga: Ætlast til að hún þjóni fólki um land allt, sé öllum opin, ástundi vandaða stjórnsýslu, starfi í anda lýðæðis og jafnréttis og fari vel með eignir sínar sem komnar eru frá þjóðinni þó vissulega sé þar um framlag löngu genginna kynslóða að ræða þar sem eru hinar fornu kirkjueignir.  

Þjóðkirkjuákvæði verndar þjóðina Vissulega er mögulegt að kveða á um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga þar á meðal þjóðkirkjunnar í almennum lögum án þess að þeirra sé getið í stjórnarskrá. Þjóðkirkjuákvæði eða ígildi þess sem nær til allra trú- og lífsskoðunarfélaga er á hinn bóginn mikilvæg yfirlýsing um að slík lög skuli sett og þannig reiknað með trúarbrögðum í hinu opinbera rými en aðkomu þeirra að því settar skýrar leikreglur. Hlutverk slíks ákvæðis og löggjafar sem reist væri á því er því ekki einvörðungu að vernda trú- og lífsskoðunarfélög almennt og þjóðkirkjuna sérstaklega heldur einnig að vernda þjóðina fyrir ýmsum skuggahliðum trúarbragðanna sem sagt gætu til sín í auknum mæli ef trúmál heyrðu alfarið undir einkamálarétt. — Þetta eru veigamestu rökin fyrir þjóðkirkjuákvæði eða ígidi þess.