Þurfum við þrjá biskupa?

Þurfum við þrjá biskupa?

Nú þegar vígslubiskupskjör hefur dregist á langinn má ef til vill spyrja hvort íslenska þjóðkirkjan þurfi raunverulega á þremur biskupum að halda.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
20. maí 2011

Biskupar Íslands

Nú þegar vígslubiskupskjör hefur dregist á langinn má ef til vill spyrja hvort íslenska þjóðkirkjan þurfi raunverulega á þremur biskupum að halda.

Má spara í yfirbyggingu?

Þjóðkirkjan er í raun agnarsmá þótt hún nái til meirihluta þjóðarinnar. — Við Íslendingar erum jú dvergþjóð. Þjóðkirkjan starfar í landi þar sem samgöngur í lofti og á landi eru greiðar og þar sem aðrar samskiptaleiðir eru með því besta sem gerist á byggðu bóli. Það ætti því ekki að vera hætta á að vandi skapist fyrir nokkurn mann að ná biskupsfundi eða torvelt verði fyrir biskup að vera í greiðu sambandi við söfnuði landsins og starfsmenn kirkjunnar. Þá er landinu skipt upp í föst tilsjónarsvæði undir forystu prófasta þannig að vel er vakað yfir kirkjulegu starfi um land allt. Biskupsverk í þröngum skilningi þurfa vart að vera svo umfangsmikil að þrjá þurfi til að anna þeim með þeirri aðstoð sem á er að skipa á Biskupsstofu. Sé samt svo má vel hugsa sér að greina skýrar á milli biskupshlutverksins og „veraldlegrar framkvæmdastjórnar“ í þjóðkirkjunni og fá síðarnefnda starfsþáttinn sérstökum starfsmanni er hefði jafnvel betri forsendur til að gegna honum en guðfræðimenntaður maður þótt biskupsvígður sé.

Þegar litið er til praktískra aðstæðna einna vaknar sú spurning óhjákvæmilega hvort ekki megi spara í yfirstjórn þjóðkirkjunnar með því að fækka biskupum hennar um tvo og verja þeim fjármunum sem sparast til grunnþjónustu í söfnuðum landsins og/eða auk sérþjónustu og kærleiksþjónustu við þá hópa sem standa höllustum fæti.

Guðfræði og niðurskurður

Mörgum finnst þó ugglaust að hér þurfi að hugsa hærra og vega inn guðfræðileg og jafnvel söguleg rök. Í því sambandi má þó minnast þess að vígslubiskupsembættin tvö voru ekki stofnuð fyrr en í upphafi 20. aldar og þá til að tryggja biskupi landsins vígslu án þess að sækja hana til Kaupmannahafnar. Lengst af voru vígslubiskupar sem kunnugt er valdir úr hópi presta, prófasta eða jafnvel guðfræðiprófessora er fengu biskupsvígslu en gegndu áfram fyrri störfum. Þjóðkirkjan sýndi þeim þannig heiður en þeir tóku í staðinn að sér trúnaðarhlutverk sem sjaldan reyndi þó á. Núverandi háttur, að vígslubiskupar sitji í fullu starfi á fornu stólunum, komst ekki á fyrr en rétt fyrir aldamótin. Vel má hugsa sér að hverfa að nýju til fyrri skipanar án teljandi skaða fyrir kirkjustjórnina í landinu.

Þess ber líka að gæta að með stofnun vígslubiskupsembættanna var valin mjög þjóðernisleg leið að biskupsvígslu. Á tímum heimastjórnar þótti óviðunandi að biskupar landsins sæktu vígslu til kirkju hinar fornu herraþjóðar. Innlendir vígslufeður skyldu geta veitt biskupsvígslu innanlands. Þetta var skiljanleg hugsun þá. Þjóðkirkjan var þó með þessu lokuð inni í þjóðlegri vígsluröð.

Vitanlega á að vígja biskup landsins á Íslandi í viðurvist sem flestra úr röðum kirkjunnar. Nú á dögum eru hins vegar litlar líkur á að fráfarandi biskup geti ekki vígt eftirmann sinn eða ekki sé alltaf til staðar biskupsvígður einstaklingur í landinu jafnvel þótt engir væru vígslubiskuparnir. Komi sú staða samt upp væri það fagurt og kirkjulega merkingarbært tákn að kalla biskup úr erlendri systurkirkju til að vígja nýjan biskup. Koma þar biskupar svokallaðra Porvoo-kirkna einkum til álita.

Nýtum það sem við höfum

En nú eru biskupar þrír í biskupsdæminu Íslandi og ekki hefur komið fram formleg tillaga um breyta því. Hér verður það heldur ekki lagt til. Það kann enda að vera kostur að hafa á að skipa fleiri en einum biskupsvígðum einstaklingi í senn. Eins og á stendur hefur þjóðkirkjan þó ekki ráð á að hafa tvo menn á fullum launum í háum embættum sem mestmegnis virðast hafa ósýnilegum verkefnum að gegna og þurfa sérstaks rökstuðnings og skýringa við. Því er mikilvægt að virkja alla þrjá biskupana og gera störf þeirra sýnileg.

Engin þörf virðist á að kjúfa jafnsmáa kirkju og okkar í þrjú biskupsdæmi. Það verður heldur vart gert án umtalsverðs kostnaðar. Ólíkt skynsamlegra virðist að þróa sameiginlega eða „kollegiala“ biskupsþjónustu í höndum þriggja einstaklinga í óklofnu biskupsdæmi. Slíkt gæti endurnýjað og eflt biskupsþjónustuna og þar með kirkjuna í landinu á skapandi hátt.

Eðlilegt er að biskup landsins sitji í Reykjavík, sé formaður biskupafundar og formlegur fulltrúi kirkjunnar út á við. Þá ætti að hluta til að skipta verkum milli biskupanna með starfsreglum eða jafnvel lögum og ganga í því út frá skiptingu landsins í umdæmi. Biskuparnir gætu svo að öðru leyti skipt með sér þeim fjölþættu hirðishlutverkum sem biskupsembættið felur í sér. Í því felst tilsjón með kirkjulegu lífi og starfi, forysta í boðun, fræðslu, líknarþjónustu og fjölþættu þróunar- og uppbyggingarstarfi auk fjölmargs annars sem biskupar annast ýmist sjálfir eða aðrir í umboði þeirra og undir þeirra leiðsögn. Að hluta væri verkum þannig skipt milli biskupa út frá landfræðilegum og lögformlegum umdæmum. Að öðru leyti gætu þeir skipt með sér verkum út frá menntun, reynslu, áhugamálum og öðrum persónulegum forsendum („náðargáfum“) þeirra þriggja sem biskupsembætti gegna hverju sinni.

Þrír biskupar skapa einnig mun meiri möguleika á sókn út á við en einum manni er fært. Biskupar hafa víðtækt umboð til að mæla fyrir munn kirkjunnar á öllum sviðum kirkjulífs, þjóðlífs og mannlífs. Enn er það svo að allur þorri landsmanna hlustar eftir því sem biskupar segja og bregðast við því á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Auðvitað eru fráleitt allir sammmála því sem biskup segir. Nú orðið talar hann heldur ekki af meiri myndugleika eða valdi en hver annar. Orð biskups hafa nú í eyrum flestra aðeins þá vikt sem persónulegur trúverðugleiki hans sjálfs veitir þeim. Því er ljóst að þrír ólíkir biskupar skapa kirkjunni breiðari snertiflöt við þjóðina en einn maður getur gert. Þess er full þörf í fjölbreyttu samfélagi samtímans.

Hvernig eigum við að kjósa?

Nú þegar vígslubiskupskjör stendur yfir er mikilvægt að spyrja hvernig við nýtum tækifærið best til að styrkja kirkjuna og virkja biskupsembættið. Svarið liggur í því að við eigum að gera út á breiddina. Við eigum að velja nýjan biskup með sóknarfæri í huga og taka tillit til þess hverjir fyrir eru í embætti. Það gefur auga leið að aukinn trúverðugleiki vinnst með því að kjósa konu til að gegna biskupsembætti með þeim tveimur körlum sem fyrir eru. Með tveimur miðaldra einstaklingum vinnst aukin breidd með því að kjósa svo unga konu sem kostur er. Sé horft til þeirra sem fyrir eru er viðamikil stjórnunarreynsla ekki það sem helst skortir. Mikilvægara er að sú sem valin verður búi að fjölþættri reynslu af kirkjustarfi innan lands og utan sem og á samkirkjulegum vettvangi. Þá skiptir sköpum að konan sem valin verður hafi tekið þátt í þeirri fjölþættu samfélagsumræðu sem kirkjan verður að taka vaxandi þátt í á komandi árum. Öðlist þjóðkirkjan ekki sterkari rödd á því sviði alveg á næstunni er hætt við að hún einangrist til frambúðar. Loks er mikilvægt að hún búi að reynslu af teymisvinnu ef takast á að þróa bisuksembættið í þá átt sem rætt var um hér að framan.