Krossgátur hversdagsins

Krossgátur hversdagsins

Líf okkar minnir stundum á krossgátu. Við erum í leit að orðum sem eiga ýmist að standa lóðrétt eða lárétt. Þessi leit stendur yfir alla daga og allar nætur. Orðin skjótast stundum á augabragði upp í kolli okkar sigursæl á svip en stundum vilja þau láta á sér standa.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
28. febrúar 2007

Allir hafa sennilega einhvern tímann glímt við krossgátur. Þær eru hin ágætasta dægrastytting og efla auk þess hugann. Sumar eru auðráðnar en aðrar ekki og kannski fer það jafnvel eftir því hvernig hver og einn er stemmdur hverju sinni hvort vel gengur eða illa.

Krossgátur eru ævagamalt fyrirbæri. Vissulega oftast tilbúnar gátur til að skemmta fólki og reyna á minni þess og orðaforða. Þær virkja hugkvæmni og innsæi. Krossgátan getur verið kærkomin ögrun í daufum hversdagsleikanum. Þegar síðasta orðið rennur upp fer ánægjustraumur um hugann því árangri er náð. Allt gekk upp. Tengsl skyldra orða og samheita fundust og ekki alltaf baráttulaust. Samtíningur af bókstöfum tók á sig skyndilega skýra mynd í huganum og það sem öllu máli skipti þá stundina var að hún reyndist vera rétt.

KrossgátaLíf okkar minnir stundum á krossgátu. Við erum í leit að orðum sem eiga ýmist að standa lóðrétt eða lárétt. Þessi leit stendur yfir alla daga og allar nætur. Orðin skjótast stundum á augabragði upp í kolli okkar sigursæl á svip en stundum vilja þau láta á sér standa. Þau virðast jafnvel ekki vera til eða í það minnsta höfum við ekki heyrt þau. Orð sem við þurfum svo lífsnauðsynlega að nota í lífinu og meðan þau ekki finnast erum við strandaglópar.

Það hendir okkur öll að vega að náunga okkar – já, og særa okkar nánustu. Slíku athæfi fylgir iðulega vanlíðan sem við bregðumst alla jafna strax við og mælum viðeigandi orð. En ef við látum ekkert að gert gengur vanlíðan okkar aftur í dauðakaldri þögn eða holum hressileika. Í huganum leitum við að orði til að leysa þessa hversdagslegu krossgátu en það lætur ekki sjá sig á augnaskjánum. Kannski viljum við ekki einu sinni sjá það þó svo það dansi fyrir augum okkar. Hér og hvar eru á stangli þvermóðskufullir bókstafir og neita að skipa sér í rétt og viðeigandi orð enda þótt þeir nánast sjálfrati auðveldlega í ýmis önnur sem eru þá stundina eins og hverjar aðrar boðflennur. Við troðum jafnvel inn öðru orði sem hefur daufan merkingarandblæ af hinu rétta orði sem finnst ekki um stund. En rangt orð í krossgátu er eins og skökk undirstaða sem við höldum að sé rétt eða ímyndum okkur að svo sé. Hægt er að flétta saman þyrpingu af orðum enda þótt einhvers staðar leynist rangt orð sem hefur það eina hlutverk þegar öllu er á botninn hvolft að afhjúpa brestinn fyrr eða síðar. Þegar rekur í strand verður ekki aftur snúið nema með því að fara sömu leið til baka og fleygja orðum út og finna önnur, finna þau réttu.

Rangt orð í krossgátu sem dregið hefur að sér orðafjölda á röngum forsendum er ekki svo ólíkt röngu orði sögðu í einhverjum alvarlegum aðstæðum lífsins. Röngu orði sem enginn hefur hirt um að leiðrétta og kannski ekki viljað því það virtist hljóma rétt þá mælt var. Síðan er spunninn út frá því vefur stafa og orða þar sem allt gengur svo dæmalaust vel upp. En hornsteinninn er skakkur. Línan er ekki rétt. Og þegar allar línur eiga að falla saman í einn punkt halda þær hver sína leið. Á meðan nögum við blýantinn og störum í önnur hversdagleg atvik sem standa lóðrétt og lárétt fyrir framan okkur og bíða úrlausnar. Og þar láta úrlausnir ekki á sér standa, þær jafnvel hrannast upp og allt er sem leikur einn. Djúpt í huganum er leitarforrit samviskunnar að störfum og þræðir hverja glufu í leit að orði sem fyllt getur eyðuna og grætt hugarsár. Orði sem safnar öllum línum í einn og sama punktinn.

Orðabækur eru nytsamar. Þær opna menn ef þá vanhagar um orð eða merkingu þess. Hver sá sem kann stafrófið getur bjargað sér með orðabók.

Á vettvangi hversdagsins grípum við oft til orðabókar sem geymd er í huganum. Þar raðast bókstafir í ákveðna merkingu í orði eða verki sem auglýsir viðbrögð okkar við hvers kyns áreitum og hversdagslegum krossgátum.