Konungarnir 3 -og fleira sem EKKI er að finna í jólaguðspjallinu.

Konungarnir 3 -og fleira sem EKKI er að finna í jólaguðspjallinu.

Þannig að kannski ættu pistlahöfundar sem gera lítið úr jólaguðsjallinu að lesa söguna fyrst - og koma svo með sínar skoðanir
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
20. desember 2010

Hérna ætla ég til gamans að nefna nokkur atriði úr jólasögunni sem þú taldir þig örugglega vita að bæru þar á góma - en hvergi er sagt frá - fyrr en mörgum öldum eftir að guðspjallið var ritað.

Þó að sumir vilji meina að einmitt þessi atriði sýni tengsl sögu Jesú við sögur af gömlum guðum fornaldarinnar - eins og einn broslegur pistlahöfundur Ríkisútvarpsins gerði fyrir stuttu í síðdegisútvarpinu og fór nú heldur flatt á sagnfræðinni.

Þetta eru sem sagt allt síðari tíma viðbætur - til að krydda söguna.

1. ASNINN sem María sat á á leiðinni til Betlehem. Hans er hvergi getið fyrr en á 4. öld.

2. LÖMBIN. Sama er að segja um sauðféð í fjárhúsinu. Hvergi er á það minnst í guðspjallinu, það bættist fyrst við á 4. öld eins og asninn.

3. KONUNGARNIR ÞRÍR. Bíddu, heita þeir ekki Kasper, Melkíor og Baltasar? Jú, það vita öll börn. Og líka að þeir voru þrír. Og pistlahöfundurinn á Rúv tengdi þá við stjörnurnar 3 í konungabelti stjörnumerkisins Orions.

En, nei, því miður, ekki er orð að finna um fjölda þeirra eða nöfn  í guðspjallinu.

Og hvað eru eiginlega þessir "konungar"? Magoí heita þeir á grísku - sama orð og magician á ensku.

Líklegast stjörnuspekingar.

En ekki konungar.

4. ÚLFALDARNIR - sem vitringarnir riðu á. Sama má segja um þá og asna Maríu. Þeir bættust inn í söguna löngu síðar, líklega á 8. öld.

5. FJÁRHÚSIÐ. Jú, það er sagt frá því í guðspjallinu....eða þó ekki og alls ekki í þeirri sætu útgáfu sem við eigum að venjast. Í guðspjallinu er það bara ómerkilegt og venjulegt hús. Inni í Betlehem meira að segja.

Glansmyndin af fjárhúsinu, jólastjörnunni, dýrunum öllum etc varð fyrst til í helgileikjauppsetningu í Þýskalandi á miðöldum.

6. Meyfæðingin - Frumgetinn? Nei, ekkert af þessum flóknu orðum er að finna í sögunni. Aðeins að Jesús var frumburður Maríu - hennar fyrsta barn. Svona er nú það.

Sagan er miklu einfaldari en menn halda og boðskapurinn skýrari.

Allt hitt bættist við löngu síðar -glimmerið og guðfræðin.

Þannig að kannski ættu pistlahöfundar sem gera lítið úr jólaguðsjallinu að lesa söguna fyrst - og koma svo með sínar skoðanir

Lesa fyrst.

Tala svo.

Og hafa það sem sannara reynist. það er nú alltaf fyrir bestu.