Hvíldarstaður

Hvíldarstaður

Það er ekki bara á vettvangi veraldar þar sem átök eiga sér stað og ólíkar skoðanir takast á. Ekki bara þar sem tími friðar og hamingju gengur annað slagið í garð eða staldrar þó nokkuð lengi við. Það er nefnilega til annar vettvangur sem er ekki svo ýkja fjarri okkur sjálfum (og þar eru oft miklar sviptingar) og það er hugur okkar.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
10. maí 2006

Það er ekki bara á vettvangi veraldar þar sem átök eiga sér stað og ólíkar skoðanir takast á. Ekki bara þar sem tími friðar og hamingju gengur annað slagið í garð eða staldrar þó nokkuð lengi við. Það er nefnilega til annar vettvangur sem er ekki svo ýkja fjarri okkur sjálfum (og þar eru oft miklar sviptingar) og það er hugur okkar. Hann er veröld út af fyrir sig eða kannski öllu heldur höfuðbækistöðvar okkar í lífsbaráttunni. Hugur sem virðist vera samofinn líkamanum, holdinu, óáþreifanlegur en þó er hann þarna og skiptir öllu máli. Þar eru stórar og smáar ákvarðanir teknar, þar er málum velt fram og aftur og síðan hafist handa - eða ekkert látið að gert. Þessar bækistöðvar hafa ekki orðið til á einni nóttu heldur hafa þær byggst upp á ævi okkar sem er orðin mislöng. Inn í bækistöðvar þessar berast ógrynnin öll af hvers kyns skilaboðum á hverri sekúndu sem við vinnum úr eða geymum til betri tíma. Iðulega streyma þangað boð sem við meira að segja ráðum ekki við og snerta tilfinningar okkar en eins og öllum er kunnugt um þá er harla erfitt að kortleggja þær nákvæmlega. Og sjálfur hugurinn enda þótt opinn sé og móttækilegur geymir líka dimm skúmaskot þar sem leyndarmálin liggja. Leyndarmál sem segja kannski hver við erum.

En tíminn gengur á líkamann og við sjáum hvernig hann þeytir honum til og frá. Hugurinn sveiflast einnig fram og aftur, er alla jafna síkvikur eða festir sig í einhverju fari þar sem hann telur vera öruggt. Sá hugur sem nær að haldast heill og óbrjálaður þrátt fyrir að líkaminn sem hann dvelur í sé farinn að hrörna og bogna er talinn spakur og nýtur iðulega ómældrar virðingar hver sem kann að eiga þann huga. Öldungurinn er ætíð með einhvern viskuglampa í djúpu auga þó elligul höndin sé kreppt.

Oft er sem manneskjan svífi um á vettvangi hversdagsins með annarlegan svip í andliti og jafnvel kvíðafullan - og hugurinn hvikull eða staðfastur. Hún veit að hversdagurinn þar sem hún mæðist í mörgu er tímabundinn viðkomustaður þegar öllu er á botninn hvolft og sömuleiðis jafnvel líkaminn - brothætt geymsluhólf hugans. Þessar staðreyndir vekja upp í huganum ýmsar spurningar sem erfitt getur verið að sjá hvar eigi upphaf sitt, hvort heldur í öllum þeim boðum sem hafa flætt inn í hugann eða hvort megi líta á þær sem afurð af öllu því efni sem hefur hlaðist upp í huganum - nema hvort tveggja sé. Efni og andi? Sál og líkami? Ein heild eða tvær?

Ósjálfrátt - eða sjálfrátt? - fer manneskjan að leita að nýjum hvíldarstað fyrir huga sinn þar sem hún þrátt fyrir allt telur hann vera varanlegri (eða úr dýrmætara efni þó mótsagnakennt kunni að hljóma) heldur en þessi efnislíkami sem er ekki annað en fljótandi efni að langmestu leyti. Eða: Hugurinn, svo óefniskenndur sem hann er í eðli sínu, verður í raun efniskenndari en hinn efniskenndi líkami vegna þeirrar hugsunar að hann sé varanlegri en líkaminn sem tímans tönn nartar sleitulaust í.

Eitt af mörgum boðum sem berast huganum er að honum sé búinn hvíldarstaður sem fyrirbærið trú talar um. Manneskjan fær fljótt vitneskju um að í þessum heimi og utan hans sé jafnvel annar veruleiki. Að þessi heimur sé meira að segja ekki eins og til hafi verið ætlast í upphafi. Það hafi orðið nánast nokkurs konar skammhlaup sem kom öllu í uppnám. En þrátt fyrir þessar gangtruflanir veraldar sé hinn mikli vélameistari að störfum og muni hann koma öllu í lag vegna þess að honum sé annt um heiminn og manninn. Þær frásagnir sem segja frá þessu tilheyri flokki trúrita - rita sem fjalla meðal annars um þá vegi og þær hugsanir sem: …eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir - segir Drottinn. Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum. (Jesaja 55.8-9).

Engu að síður er vettvangur manneskjunnar þessi veröld og þar hefur hún næg verkefni að vinna. Hugurinn tekst á við trúna og efann. Oft verða átökin býsna hörð og ekki ætíð ljóst hvor vinnur, trúin eða efinn.