Þjóðkirkjan okkar - hvert stefnir?

Þjóðkirkjan okkar - hvert stefnir?

Ef ekki er pláss fyrir „idealisma“ í íslensku þjóðkirkjunni má velta því fyrir sér hvort þar rúmist þá hugsjón, kærleikur eða þess vegna trú.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
13. maí 2011

Hjalti

Þannig var spurt á athyglisverðu málþingi sem haldið var í safnaðarheimili Neskirkju nú fyrir skömmu. Margt var gleðilegt við þingið. Meðal annars var það óvenju fjölsótt og þátttakendahópurinn blandaður þegar um samkomu af þessu tagi er að ræða. Er ekki örgrannt um að „suðrænn saltfiskur“ sem í boði var annars staðar í byggingunni hafi dregið nokkuð að. Sýnir það að fjölbreytt kirkjustarf á sama stað og sama tíma getur örfað aðsókn. Fólk flæðir milli vistarvera og atburða. Áhrifin magnast.

Vinur er sá er til vamms segir

Frummælendur á þinginu voru sex til sjö eftir því hvernig er talið. Tengsl þeirra við þjóðkirkjuna reyndust mismikil. Sum höfðu sagt sig úr henni. Þau áttu þó öll sammerkt í því að vera hollir vinir kirkjunnar. Innlegg þeirra voru líka beitt hvert á sinn hátt.

Einn frummælenda glímdi sérstaklega við stöðu prestsins í samtímanum. Íslenska kirkjan er jú óneitanelga enn prestakirkja. Presturinn er nokkurs konar tákn eða ásjóna kirkjunnar. Málshefjandi lagði áherslu á að nú á dögum væri presturinn fyrst og fremst að „reyna að vera maður“. Þessi orð má auðvitað túlka með mörgu móti. Ég skildi þau þannig að ræðumaður teldi hlutverk kirkjunnar vera að standa með fólkinu í landinu, efla það og styrkja í að vera betra fólk og byggja upp gróandi þjóðlíf í góðir merkingu.

Annar ræddi um „gap“ sem komið væri fram milli kirkju og þjóðar sem sýnir að kirkjunni hefur ekki tekist vel að gegna fyrrgreindu hlutverki — kannist hún við það og leitist við að rækja það. Ræðumaður kvað kirkjuna „stefna niður á við“ og að heilindi og traust skorti innan hennar. Sé svo er ekki að undra að traust og tiltrú skorti í garð kirkjunnar úti í samfélaginu en mat flestra frummælenda var að svo væri. Kannanir benda og í þá átt.

Sá þriðji taldi þjóðkirkjuna samofna valdastofnunum samfélagsins sem væri henni fjötur um fót. Hann spurði hvað kirkjan óttaðist varðandi aðskilnað frá ríkisvaldinu sem væntanlega yki svigrúm hennar til að vera kirkja.

Sá fjórði taldi mikið skorta á að þjóðkirkjan hlustaði á umhverfi sitt og þjónaði lífinu í landinu og átti þar við bæði þjóðlífið og náttúruna.

Í heild ríkti athyglisverður samhljómur í máli þessara fjögurra frummælenda og ágengar spurningar hrönnuðust upp. Sá sem þetta ritar hugsaði: Vá! Það verður spennandi að heyra hvernig salurinn bregst við. Hér er komið af stað samtal um grundvallaratriði.

Kirkjan og guðfræðiumræðan

Í máli flestra framsögumanna kom fram óþol í garð þjóðkirkjunnar vegna þess hversu lengi hún hafi væri að taka afstöðu í ýmsum álitamálum sem hún hefur haft við að glíma upp á síðkastið. Mjög var þar bent á málefni samkynhneigðra og hjónavígslu þeirra í því sambandi.

Hér skal því ekki mótmælt að kirkjan hafi farið sér hægt í þessu máli á fyrri stigum og t.a.m. gert kirkjulega staðfestingu samvistar að of miklu máli. Það skal og játað að kirkjunni ber eðli sínu samkvæmt að vera í fararbroddi þegar um mannréttindi er að ræða.

Hinu má hins vegar ekki gleyma að það er ekki veikleiki kirkjunnar heldur styrkur ef hún leitast við að taka afstöðu út frá guðfræðilegum forsendum þrátt fyrir að það kunni að taka tíma. Án slíkrar umræðu á kirkjan á hættu að glata mikilvægum þætti í sérleika sínum og verða aðeins ein af félagsmálastofnunum samfélagsins. Það er að sönnu verðugt hlutverk en er kirkja Krists í raun kölluð til að vera það?

Þegar íslenska þjóðkirkjan er gagnrýnd fyrir seinagang í þessu ákveðna máli er líka mikilvægt að spurt sé: Hversu margar af kirkjum heims hafa tekið sömu afstöðu í þessu efni og hversu langan tíma hefur það tekið? — Sé sá samanburður gerður kemur í ljós að íslenska þjóðkirkjan er ein af örfáum sem tekið hafa jákvæða afstöðu. — Þetta er ekki sagt til að réttlæta íhaldsemi heldur til að skapa raunhæfan samanburð.

Þegar guðfræðileg álitamál ber á góma á kirkjan að taka sér tíma, vega rök og meta og taka málefnalega afstöðu. Hún má hins vegar ekki eyða tímanum í deilur um keisararans skegg eða leitast við að gera mál guðfræðileg sem ekki eru það. Hún má heldur aldrei vera hrædd við að taka umdeilanlega ákvörðun ef hún álítur hana rétta.

Seinni hálfleikur

Segja má að kirkjufólk í þröngum skilningi hafi átt völlinn í síðari leikhluta. Það var áberandi var hversu harðan varnarleik það spilaði. Ögrun frummælendanna var ekki gripin á lofti heldur var skeytum þeirra beint eitthvert annað eða reynt að brjóta af þeim oddinn.

Þverrandi traust var einkum talið beinast að kirkjustofnuninni eða kirkjustjórninni en ekki þjóðkirkjunni almennt. Festa í skírnar- og fremingarsiðum þjóðarinnar var talin sýna sterka stöðu safnaðarstarfs í landinu þótt fremur kunni að vera um almennt félagslegt fyrirbæri að ræða (svokallaða civil-religion). Þá var afstaða „almennings“ til kirkjunnar talin stafa af þekkingar- eða upplýsingaskorti sem leiðrétta bæri með öflugri almannatengslum.

Auðvitað má segja að í öllu þessu liggi ákveðinn sannleikur. Afleiðingin af málflutningunum varð hins vegar að þeirri kraftmikla og kjörkuðu umræðu sem lagt var upp með í fyrri hálfleik var drepið á dreif.

Er rúm fyrir „idealisma“ í kirkjunni?

Undir lok umræðnanna benti einhver á að starf í þjóðkirkjunni krefðist raunsæis. Þar væri ekki pláss neinn fyrir „idealisma“! Alltaf er varasamt að henda ummæli á lofti og hætt við of- eða rangtúlkunum. — Svona yfirlýsing krefst þó vissulega umhugsunar.

Spyrja má: Hvers vegna komst Kristur upp á kant við farísea og fræðimenn? Jafnvel má hnykkja á og spyrja: Fyrir hvað var hann krossfestur? Var það fyrir raunsæi? Er ekki líklegra að það hafi verið fyrir „idealisma“ svona mannlega talað og séð með augum samtíma hans?

Ef ekki er pláss fyrir „idealisma“ í íslensku þjóðkirkjunni má velta því fyrir sér hvort þar rúmist þá hugsjón, kærleikur eða þess vegna trú.

Málþingið um daginn var um margt ögrandi og „inspírerandi“. Þar með er ekki sagt að það hafi að öllu leyti verið gott. Til þess að svo yrði skorti samræður um grundvallaratriði. — Um það sýnist þó vonandi sitt hverjum.