Ást og ábyrgð

Ást og ábyrgð

Hversu oft hefðir þú viljað geta sagt við hann eða hana sem stendur hjarta þér næst: Hafðu ekki áhyggjur, ég passa þig og sé til þess að ekkert illt hendi þig?

„Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert mín.“

Það er nærri lagi að líta á textann úr spádómsbók Jesaja, sem við heyrðum lesinn hér áðan, sem eins konar ástarjátningu Guðs til okkar. Í þessum texta tjáir Guð óendanlega ást sína til okkar, sem erum mynduð og mótuð, já sköpuð Guði til dýrðar. Og orðunum er beint til okkar, sem Guð hefur kallað með nafni. Og Guð segir:

Gangir þú gegnum vötnin er ég með þér, gegnum vatnsföllin,  þá flæða þau ekki yfir þig.  Gangir þú gegnum eld skalt þú ekki brenna þig og loginn mun ekki granda þér.  Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég, Hinn heilagi Ísraels, frelsari þinn. Ég læt Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, Kús og Seba í þinn stað, þar sem þú ert dýrmæt í augum mínum, mikils metin og ég elska þig.“

Hversu oft hefðir þú viljað geta sagt við hann eða hana sem stendur hjarta þér næst: Hafðu ekki áhyggjur, ég passa þig og sé til þess að ekkert illt hendi þig? Við sem erum foreldrar vildum án efa öll geta verndað börnin okkar frá öllu illu og stundum reynist okkur erfitt að sleppa af þeim hendinni, af ótta við hætturnar sem leynast svo víða. Það er einmitt reynslan af samskiptum okkar við þau sem við elskum sem hjálpar okkur að skilja kærleika Guðs. Til þess að tjá óendanlega elsku Guðs fyrir sköpun sinni vísa höfundar rita Biblíunnar gjarnan til elsku okkar og umhyggju fyrir maka okkar, börnum, foreldrum og vinum. Nær því að skilja elsku Guðs til okkar komumst við einfaldlega ekki.

Í því augnamiði að draga fram kjarna boðskapar heilagrar ritningar er stundum sagt að hún fjalli annars vegar um elsku Guðs og hins vegar um ábyrgð okkar. Það er önnur leið til að segja að boðskapur heilagrar ritningar samanstandi annars vegar af fagnaðarerindi og hins vegar lögmáli. Fagnaðarerindið felst þá í því að Guð elskar okkur, en lögmálið vísar til þeirrar ábyrgðar sem við berum sem börn Guðs. Þannig er með elsku Guðs, eins og aðra elsku, að henni fylgir ábyrgð. Foreldrar sem elska barnið sitt án þess að gera tilkall til ábyrgðar þess, bjóða þeirri hættu heim að barnið læri ekki að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vera hluti af stærri heild, hvort sem það er fjölskylda eða samfélag. Að sama skapi fylgir því ábyrgð að vera barn Guðs. Þessi ábyrgð er áréttuð strax í fyrri sköpunarsögunni í upphafi 1. Mósebókar þar sem sagt er frá því að Guð hafi skapað manninn, konuna og karlinn, í sinni mynd og síðan falið þeim að vera gæslumenn sköpunarverksins.

Reynslan kennir okkur að það gengur ekki alltaf sem skyldi að axla þá ábyrgð sem því fylgir að gæta hinnar góðu sköpunar Guðs. Nægir þar að nefna misskiptingu gæða, spillingu náttúrunnar, sem og ofbeldi og misbeitingu valds. Allt vitnar þetta um ranglæti og hreina misnotkun á því umönnunarhlutverki sem okkur er treyst fyrir. Ef við erum hvert og eitt sköpuð í mynd Guðs er það meðfæddur réttur okkar allra að njóta allra gæða sköpunarverksins, sem og umhyggju og öryggis í uppeldinu. Staðreyndin er aftur á móti sú að það vantar mikið upp á að svo sé. Þessvegna er það skylda okkar að stemma stigu við ranglætinu hvar sem við verðum þess vör og keppa að því að réttlætið nái fram að ganga. Verkefnin eru ærin og öll höfum við möguleika til að láta muna um okkur.

Um áramót er eðlilegt að við stöldrum við og íhugum stöðu okkar, bæði sem einstaklingar og samfélag. Þegar við lítum yfir farinn veg sjáum við margt sem vekur þakklæti og gleði, annað sem kallar fram eftirsjá og jafnvel sorg. Í þeim hraða sem flestir búa við í okkar samfélagi er bæði hollt og gott að gefa sér tíma til að taka stöðuna, áður en haldið er inn í nýtt ár. Það er mikilvægt að við lærum af reynslunni, en til þess að svo megi verða þurfum við að vera tilbúin til þess að horfast í augu við hana. Þegar litið er um öxl sjáum við gjarnan hlutina í nýju ljósi – við sjáum þá í stærra samhengi sem oft gefur þeim nýja merkingu. Það er ekki satt að tíminn lækni öll sár. En hann læknar vissulega mörg sár. Þannig getur sár missir eða áfall orðið til þess að efla okkur og styrkja. En missir eða áfall geta líka brotið okkur niður, sem gerist gjarnan þegar við festumst í sársaukanum og sorginni og náum ekki að vinna okkur í gegnum hana. Þessvegna er svo brýnt að við njótum stuðnings og hjálpar þegar áföll sækja okkur heim.

En við áramót lítum við ekki bara til baka. Við horfum einnig fram á veginn, til nýs árs með ný verkefni og nýjar áskoranir. Því fylgir eftirvænting og tilhlökkun, en vissulega líka oft bæði áhyggjur og kvíði. Við erum misvel undir það búin að horfa til framtíðar. Þar er margt sem spilar inn í og reynsla liðins árs gegnir þar stóru hlutverki. Það er alltaf áskorun að takast á við hið óþekkta. Hversu vel sem við reynum að skipuleggja líf okkar, hversu upptekin sem við erum af því að búa til öryggi og skjól með því að hafa hlutina í föstum skorðum, þá er meðvitundin um hið óvænta alltaf til staðar. Það er andspænis hinu óþekkta og óvænta sem vonin er svo mikils virði. Vonin, sem hjálpar okkur til að halda áfram – þrátt fyrir allt. Vonin gegnir lykilhlutverki í kristinni trú. Það er hún sem hjálpar okkur að treysta því að þrátt fyrir allt sé hið góða sterkara en hið illa. Það er vonin sem gerir okkur kleift að treysta því að hinn endanlegi sigur sé Guðs, þrátt fyrir allt – þó að reynslan bendi oft til hins gagnstæða.

Í textanum sem lesinn var hér áðan úr Galatabréfi Páls postula, segir frá því nýja sem kemur með Kristi. Skírnin inn í hið nýja samfélag með Kristi, veitir okkur rétt til að tilheyra ríki Guðs á jörðu. Í því samfélagi, segir Páll, er ekki gerður greinarmunur á því hvort að við erum gyðingar eða af öðru þjóðerni, þrælar eða frjáls, karlar eða konur, af því að við erum öll eitt í Kristi Jesú. Þó að það sé grundvallaratriði kristinnar trúar að innan kirkju Krists sé ekki gerður greinarmunur á fólki eftir kyni, kynþætti, stétt eða öðru sem kann að aðgreina okkur, þá fer fjarri að sú sé raunin. Þrátt fyrir að við séum fyllilega meðvituð um að kirkja Krists standi ekki undir væntingum -að hún sé ekki fullkomin – þá játum við trú okkar á eina, heilaga, postullega og almenna kirkju í hvert sinn sem við söfnumst saman til guðsþjónustu. Við gerum það vegna þess að við vitum hvert takmarkið er og þangað stefnum við - í von um að á endanum munum við ná því. Þannig hjálpar vonin okkur til að halda áfram - í stað þess að gefast upp. Það er ekki það sama og að loka augunum fyrir raunveruleikanum. Þó að við þekkjum veikleika okkar og takmörk missum við ekki kjarkinn - einmitt vegna þess að við eigum von.

Gangir þú gegnum vötnin er ég með þér, gegnum vatnsföllin,  þá flæða þau ekki yfir þig.  Gangir þú gegnum eld skalt þú ekki brenna þig og loginn mun ekki granda þér. 

Ástarjátning Guðs til okkar á þessum nýársdegi er fyrirheit um samfylgd. Það segir ekki: ég ætla að sjá til þess að þú verðir ekki fyrir áföllum, að það verði engin vatnsföll – eða eldur - á vegi þínum. Nei, það segir: ég skal vera með þér, líka þegar þú gengur í gegnum vatnsföll og eld og sjá til þess að vatnsföllin flæði ekki yfir þig, að login muni ekki granda þér. Með þetta fyrirheit í farteskinu – með fyrirheit um samfylgd Guðs - er okkur boðið að heilsa nýju ári; í von um að hið góða muni að lokum sigra hið illa, í von um að sigurinn sé á endanum Guðs.

Guð gefi þér gleðilegt nýtt ár.

Dýrð sé Guði, sem hefur skapað okkur og endurleyst, og vill varðveita okkur í samfélaginu við sig. Amen.