Engin miskunn?

Engin miskunn?

Á sama tíma og rætt er um nauðsyn þess að standa vörð um fjölskylduna er þessum sömu fjölskyldum oft og iðulega engin miskunn sýnd. Við sem störfum í kirkjunni fáum daglega fréttir af fjölskyldum sem stillt er upp við vegg.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
16. október 2008

Eftir þau áföll sem dunið hafa yfir íslenskt þjóðfélag undanfarna daga og vikur, hrun fjármálakerfisins, gjaldþrot banka og vaxandi vonleysi í atvinnumálum, hafa ráðamenn talað mikið um nauðsyn samstöðu og vináttu og umhyggju. Allt er þetta gott og gilt og í raun sorglegt að slíkar hamfarir af mannavöldum þurfi til að hin svokölluðu mjúku gildi fái rými í samfélaginu.

Ráðherrar og þingmenn sem nú er gert að taka til eftir það upplausnarástand sem hér hefur ríkt, leggja líka þunga áherslu á það að þeir vilji standa vörð um venjulegt fólk og fjölskyldur í þessu landi. Mjög margar fjölskyldur horfa með ótta til framtíðar, því skuldabagginn er að sliga þær, skuldabaggi sem gengisfall, sparnaðarbruni og okurvextir hafa þyngt og aukið stjórnlaust.

En á sama tíma og rætt er um nauðsyn þess að standa vörð um fjölskylduna er þessum sömu fjölskyldum oft og iðulega engin miskunn sýnd. Við sem störfum í kirkjunni fáum daglega fréttir af fjölskyldum sem stillt er upp við vegg af lögfræðingaher vegna þess að ekki fæst greitt upp í skuldir. Skuldir sem gjörningaveður fjármálanna hefur magnað á liðnum árum og misserum og enginn fær staðist.

Hvar er miskunn sýnd? Hvar er samstaðan sem ráðamenn tala um? Hvar er umhyggjan fyrir fjölskyldunum þegar kemur að lánamálunum? Er hún öll í orði en ekki á borði? Frásagnir svo allt of margra benda til þess.

Einmitt nú er nauðsynlegt að ráðamenn standi við stóru orðin. Og á sama hátt er nauðsynlegt að allar stofnanir þjóðfélagsins og skulareigendur sýni samstöðu, sýni hjálpsemi í verki og vilja til þess í sannleika að bæta ástandið. Nú er nauðsynlegt að samfélaginu sé í raun og veru breytt, snúið frá mætti myrkursins og til ljóssins.

Hvernig má það verða? Með því að hafa Gullnu reglu Jesú að leiðarljósi . „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra".

Hvað þýðir þetta í verki? Það liggur í augum uppi. Umfram allt að öllum þeim sem í vanda eru staddir sé sýnd miskunn og skilningur, umburðarlyndi og hjálpsemi en ekki aðgangsharka og ofríki.

Það er ekki eftir neinu að bíða!