Menning heima á Hólum

Menning heima á Hólum

Um mánaðamótin mars-apríl var haldin á Hólum í Hjaltadal mjög svo umhugsunarverð og merkileg ráðstefna heima á Hólum sem bar hvort tveggja í senn ögrandi yfirskrift og skemmtilega: „Hvernig metum við hið ómetanlega? Guðbrandsstofnun á heiður skilinn fyrir skipulag ráðstefnunnar en hún var önnur í röð fjögurra. Þetta var allt gert vel, með prýði og sóma.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
04. apríl 2016

Fólk streymdi heim að Hólum.

Milli fjallanna kúrir þessi forni kirkju- og menningarstaður og talar með sterkum hætti til gesta og gangandi. Segir sögu menningar og kristni – í huganum rísa myndir af löngu gengnu fólki sem skildi eftir sig minningar sem eru samofnar þjóðarsögunni. Nægir að nefna Guðbrand sjálfan – og ástkonu listaskáldsins góða, Þóru Gunnarsdóttur, en legsteinn blasir við þá gengið er út úr kirkju, konunnar sem ort var svo fallega til: ... anda sem unnast fær aldregi eilífð að skilið.

Enginn kemur án væntinga heim til Hóla né heldur fer þaðan ósnortinn. Sér í lagi á það við hið aldna kirkjuhús sem er svo ríkulega búið af menningarverðmætum að þegar inn í það er komið úr íslenskri nepju eða fjúki er sem þú standir í kirkju sem er ekki norður við Dumbshaf heldur í miðri Evrópu.

Um mánaðamótin mars-apríl var haldin á Hólum í Hjaltadal mjög svo umhugsunarverð og merkileg ráðstefna heima á Hólum sem bar hvort tveggja í senn ögrandi yfirskrift og skemmtilega: „Hvernig metum við hið ómetanlega?“ Það var Guðbrandsstofnun sem stóð fyrir henni en stofnunin sú er að sjálfsögðu kennd við Guðbrand biskup Þorláksson. Stofnunin er víðsýn og á sér góða bakhjarla. Þegar ráðstefna þessi var undirbúin kallaði hún til farsæls samstarfs Bandalag íslenskra listamanna, Listaháskóla Íslands, Þjóðminjasafnið og Íslensku – og menningardeild Háskóla Íslands. Sjónum var sérstaklega beint að gildi menningarinnar og má segja að með því hafi auðvitað ekki annar staður komið til greina fyrir ráðstefnuna en Hólar þar sem menningarlega þrekvirkið Guðbrandsbiblía var prentað á sinni tíð og traustum stoðum þar með skotið undir íslenska menningu sem enn er búið að.

Hólar í Hjaltadal eru fyrst og fremst kirkju- og skólastaður. Vígslubiskupinn á Hólum, séra Solveig Lára Guðmundsdóttir, kynnti fyrir þátttakendum trúar- og menningararfinn sem er varðveittur í Hóladómkirkju. Mörgum kom það á óvart hve miklar gersemar eru þar geymdar. Þar er kirkjunni vissulega falið hlutverk að miðla trú og arfi og sá hlutur átti sinn hógværa sess í ráðstefnunni.

Má vera að hversdagslegum mönnum vefjist tunga um tönn þegar komið er að umræðu um menningu. Ósjálfrátt telja menn sig tilknúna til að fara í mjög svo menningarlegar stellingar og þrýsta fram í ásjónu sína viðeigandi svip sem býr yfir dýpt sem efninu hæfir og æskilegri upphafningu með slettu af opinberunarljóma. Í kjölfarið kemur síðan orðasyrpa sem eftir atvikum getur verið býsna fróðleg fyrir áhugafólk um setningafræði en verið í eyrum annarra sem nýtt tungumál. En kannski er þetta ekki svo ýkja flókið þegar öllu er á botninn hvolft því hvar sem manneskjan drepur niður fæti er komið einhvers konar menningarfar. Hvort heldur það er nú á tunglinu eða í fjóshaugnum. Það er vísir að upphafi menningar sem vefur síðan upp á sig. Eða hvað?

Ekki vafðist mönnum tunga um tönn heima á Hólum né heldur voru ræður þeirra um menninguna og hið ómetanlega mjög tormeltar. Allt var lipurlega sett fram og áhugavekjandi. Og þær voru nærandi fyrir sál og anda.

Sveit framúrskarandi fyrirlesara kom þar saman og flutti mál sitt frá ýmsum sjónarhornum. Að loknu hverju erindi gafst fundarmönnum tækifæri á að leggja fram fyrirspurnir og athugasemdir. Það var hugur í fyrirlesurunum og fjallaloftið og helgur andi staðarins hefur ekki skemmt fyrir heldur miklu fremur eflt þá af visku og anda. Fundarfólk áhugasamt og hafði um margt að spyrja og til málanna að leggja. Þá vakti nýstárleg aðferð við fundarritun óskipta athygli. En tveimur ungum konum var falið að teikna fundargerðina og gerðu það með snilldarbrag.

Það var eftirtektarvert hve allt gekk vel fyrir sig á þessari ráðstefnu og hve þátttakendur voru ánægðir við lok stefnunnar. Auk athyglisverðra fyrirlestra voru listræn atriði flutt sem vöktu fólk til umhugsunar um hið ómetanlega og hið metanlega.

Það var annars magnað að sjá og heyra hvað þessi hópur sem kominn var saman á Hólum þessa tvo daga var áhugasamur og djúpt hugsandi um málefnið. Hann var furðu samstíga í skoðunum sínum á menningu og listum – og sér í lagi í því að málaflokkurinn væri í fjársvelti og togast væri á um fé. Þó var öllum sennilega ljóst að menning og list lifir ekki endilega ætíð sínu besta lífi hafi hún fullar hendur fjár – og það sama á um mannskepnuna sjálfa. Það getur í það minnsta boðið ýmsum hættum heim fyrir menningu og listir að vera ofaldar.

Guðbrandsstofnun á heiður skilinn fyrir skipulag ráðstefnunnar en hún var önnur í röð fjögurra. Næsta mun hafa trúna sem umfjöllunarefni.

Allt áhugafólk – og ekki síst kirkjufólk sem maður skyldi ætla að rynni blóðið til skyldunnar þegar um þessi mál er fjallað – er hvatt til að sækja viðburði sem þessa.

Hafi þau sem stóðu að þessari ágætu ráðstefnu heilar þakkir fyrir. Þetta var allt gert vel, með prýði og sóma.