Þekking og vald yfir okkur sjálfum

Þekking og vald yfir okkur sjálfum

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að stuðla að menningarlegri hagsæld ekki síður í hinu innra en hinu ytra. Í því efni hljótum við að spyrja hvaða erfðavenjur horfi til heilla, hvaða gildi beri helst að leggja rækt við í uppeldisstarfi og hvernig trú, einnig trú kirkjunnar, geti best stuðlað að aukinni farsæld.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
29. ágúst 2008

Fyrir skömmu datt ég ofan í hálfrar aldar gamlan fyrirlestur eftir Pálma Hannesson rektor um vísindi tækni og trú. Þar vakti margt athygli. Pálmi lagði áherslu á tvískiptingu menningarinnar í ytri og innri menningu. Sú fyrrnefnda er þekking okkar og vald á umhverfinu en hin síðari þekking okkar og vald á okkur sjálfum. Síðan sagði hann:

Hin ytri menning hvílir á uppgötvunum náttúruvísinda, ... og henni hefur fleygt fram um undanfarna áratugi. Aftur á móti ná vinnubrögð og undirstöðukenningar vísindanna lítið sem ekki til hinnar innri menningar, heldur hvílir hún einkum á erfðavenjum, einstaklingsþroska og trú. Henni hefur því farið lítið sem ekkert fram um langa hríð. (Pálmi Hannesson: Mannraunir. Rvík 1959: 250)

Hér má að vísu velta því fyrir sér hvað fyrirlesarinn á við með hinu sakleysislega orði því. Telur hann að hinni innri menningu hafi ekki farið fram vegna þess að aðferðir og kenningar náttúruvísinda eiga ekki við á vettvangi hennar? Eða er það vegna hins að hún hvílir á hefðum, þroska og trú? Er hann hugsanlega á hálum brautum þegar hann byggir upp orsakasamhengi á þessu sviði? Auðvitað er líka hægt að vera því ósammála að þekkingu manna á sjálfum sér hafi ekki fleytt fram bæði á fyrri hluta 20. aldar og þeim tíma sem liðinn er síðan orðin voru látin falla. Hvað um sálfræðina til að mynda?

Ef við lítum til hins þáttar hinnar andlegu menningar – valdsins yfir okkur sjálfum – hljótum við aftur á móti að viðurkenna að höfundur hefur mikið til síns máls. Fyrirlesturinn var fluttur 1951. Síðari heimsstyrjöldin var rétt að baki, Kóreustríðið geisaði, kalda stríðið var hafið. Var eitthvað sem benti til að mannkyn hefði öðlast aukið vald yfir eigin gerðum og eigin heillum? Og hvað hefur gerst síðan? Ugglaust höfum við „gengið til góðs“ á mörgum sviðum en höfum við nútímafólk í raun meira vald á yfir okkur sjálfum en fyrri tíma menn? Vissulega er allur samanburður erfiður og hugmyndir um framfarir á sviði menningar ef til vill hæpnar. Helsti tilveruvandi mannkyns felst þó í glímu mannsins við sjálfan sig, valdi mannsins yfir sjálfum sér eða magnleysi hans í því sambandi. Á það bæði við um einstaklinga og mannkyn í heild.

Hvernig sem á málið er litið hljóta orð Pálma Hannessonar hér að ofan að vera öllum þeim brýning sem sem láta sér andlega menningu nokkru skipta. Þar veltur mikið á hefðum og venjum, einstaklings- og félagsþroska, trúarbrögðum og einstaklingsbundinni trú í víðustu merkingu. Á öðrum stað segir Pálmi: „Og trú þarf ekki að vera óyggjandi vissa ... heldur skoðun eða aðeins von.“ (bls. 247) Von af hvaða tagi sem er hlýtur að vera mun haldbetri til allra framfara en vonleysi.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að stuðla að menningarlegri hagsæld ekki síður í hinu innra en hinu ytra. Í því efni hljótum við að spyrja hvaða erfðavenjur horfi til heilla, hvaða gildi beri helst að leggja rækt við í uppeldisstarfi og hvernig trú, einnig trú kirkjunnar, geti best stuðlað að aukinni farsæld.