Aðför að heimsfriði

Aðför að heimsfriði

Undanfarið hefir verið gerður undirbúningur að stríði, sem er líklega aðför að heimsfriði. Það er öllum kunnugt. Nú á að ná Saddam. En enginn skýr vitnisburður eða sannanir liggja fyrir um tengsl þess þrjóts við þá óbótamenn er rústuðu sjálfsvitund bandaríkjamanna í árásunum 11. september. Nú er að sjá sem stund hefndarinnar sé upprunnin - og hefndina virðist mega sækja hvar sem er.

Undanfarið hefir verið gerður undirbúningur að stríði, sem er líklega aðför að heimsfriði. Það er öllum kunnugt. Nú á að ná Saddam. En enginn skýr vitnisburður eða sannanir liggja fyrir um tengsl þess þrjóts við þá óbótamenn er rústuðu sjálfsvitund bandaríkjamanna í árásunum 11. september. Nú er að sjá sem stund hefndarinnar sé upprunnin - og hefndina virðist mega sækja hvar sem er.

Kirkjufólk, leiðtogar og samtök kirkna vítt um heim hafa varað við stríðsrekstri sem færi í bága við vilja Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins. Ef fer fram sem horfir er það ávísun á stóra ógæfu hvar sem litið er. Kristnir menn í Arabaheiminum búa nú milli vonar og ótta, þeir hafa áhyggjur af því að árás á Írak myndi meðal araba setja samasemmerki milli vestrænnar hernaðarhyggju og kristindóms - með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir kristna menn og kirkjur þeirra.

Eins og mál standa nú er engin leið að réttlæta árás á Írak. Þakkarefni er hversu leiðtogar Þýskalands og Frakklands standa í fæturna gagnvart hernaðarhyggju bandarískra stjórnvalda. Verum líka minnug þess, að árásin á Afganistan kostaði fleiri mannslíf en glæpurinn þann 11. september 2001.

Sá dagur var sannarlega svartur. Vesturlönd urðu rækilega fyrir barðinu á djöfullegum hefndarhug.

Það er ekki auðvelt að kryfja til mergjar hugarástand, sem kallar bara á blóð. Það er svo illkynja, að okkur skortir í raun orð. En það eru vafalaust ríkar sögulegar skýringar á þeirri andúð gagnvart vestrænum gildum og vestrænu fólki, sem finna má víða í þriðja heiminum, ekki síst meðal araba.

Hinar vestrænu þjóðir, hafa, því miður, um aldir og fram á daginn í dag sýnt yfirgang, mergsogið í græðgi sinni þriðja heiminn í auðgunarskyni - og bilið milli ríkra og fátækra þjóða eykst enn. Arðrán og kúgun eru sannarlega það sem framkallar blint hatur og í þannig andrúmslofti er auðvelt að framleiða siðlausa morðingja og vígamenn.

En lítum á þriðja heiminn. Við erum ekki þar, en hvernig værum við, íslensk þjóð, ef allt væri frá okkur tekið? Við rænd auðlindum okkar. Virkjanir og dýrmæt vatnsorka, þorskurinn, síldin, sjávarútvegsauðurinn, allt af okkur tekið, af útlendum herrum, og við skilin eftir eins og ölmusuvesalingar undir spilltri og sjálfhverfri, ofurríkri yfirstétt. Hvernig væri hugur okkar til þeirra sem færu ránshendi um svita okkar og tár. Verk okkar og vinnu?

Að bera klæði á vopnin, að kalla fram réttlæti og mannúð - verður ekki auðvelt á nýrri öld. Að taka upp sverðið og hlaða byssuna er sjálfsagt alltaf einfaldasta lausnin.

En við sem erum Krists eigum heilaga köllun í nafni hans. Ekki köllun til hefndar - ekki köllun til að svara illvirkjum með ofbeldisverkum - heldur til að leita í auðmýkt að hinu mennska í þeim sem við stimplum sem óvini okkar, skilja sögu þeirra, þjáningar og harmleiki.

Friður kallar ávalt á fórn, að við fórnum einhverju af stolti okkar - að við horfum í eigin barm, að við leitum að bjálkanum í eigin auga. Það er stærsta verkefni kirkju Krists í dag að leita sátta, með samtölum, með því að nálgast þá sem eru öðru vísi, skilja aðstæður þeirra og kjör, og taka sér stöðu með þeim sem eru kúgaðir og undirokaðir - hvað sem þeir heita, hvaðan sem þeir eru og hverju sem þeir trúa.

Gerum það sem við getum, að bregða fæti fyrir stríðsæsingar og reynum að hafa áhrif á íslenska ráðamenn sem virðast afar ráðvilltir nú um stundir.

Íslensk þjóð þarf að láta af því vita hvoru megin hryggjar hún liggur. Í hjarta viljum við ekki árásarstríð, gegn þegar stríðshrjáðri, snauðri og þjáðri þjóð íraka . Hugsum til barna okkar og barnabarna. Myndum við vilja að hlutskipti þeirra yrði að vaxa upp í eintómu hatri og sjá framtíð sína blómstra í því einu að láta blóð óvinanna renna.

Verum því einhuga um andóf gegn ranglátu stríði er mun bitna á hinum saklausu.

Guð gefi okkur öllum góðan og friðsælan dag. Í Jesú nafni. Amen.