Þótt sagt sé já núna, má ekki breyta stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá seinna?

Þótt sagt sé já núna, má ekki breyta stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá seinna?

.... 62. gr. stjskr. hefur þá sérstöðu að henni megi breyta án eiginlegrar stjórnarskrárbreytingar en þó með beinni aðkomu þjóðarinnar.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
13. september 2012

Í gegnum tíðina, og einkum undanfarið, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er um stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá, hef ég fengið ýmsar spurningar og heyrt þeim varpað fram til annarra. Ég hef verið spurður um það hvernig yrði með hátíðisdaga og frídaga sem tengjast kristni, s.s. jól, páska, ef þjóðkirkja yrði ekki í stjórnarskrá. Fólk hefur velt því fyrir sér hvers vegna þjóðkirkjan eigi að njóta réttinda umfram önnur trúfélög og hvað felist í því að stjórnvöldum beri að styðja og vernda kirkjuna. Aðkoma fólks og þátttaka þess í kirkjustarfi er mismikil, stundum engin, og því ljóst að spurningar eru af ólíkum toga. Nú þegar þjóðin þarf að gera upp hug sinn um mikilvægt málefni, þykir mér skipta máli að svara sem flestum spurningum sem bornar eru upp. Ég hef því kosið að svara einni spurningu í senn, í sjálfstæðum greinum, fer hér á eftir svar við spurningu 6 af 7. 

Spurt er: Nú hefur Alþingi samþykkt ályktun um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem m.a. verður spurt um hvort stjórnarskráin skuli hafa að geyma ákvæði um þjóðkirkju. Eru ekki jafnmiklir möguleikar á að breyta ákvæðum stjórnarskrár um þjóðkirkju ef niðurstaða atkvæðagreiðslu verður að slíkt ákvæði skuli haldast og ef svarið yrði „Nei“?

Frá 1874 hefur stjórnarskár Íslands haft að geyma ákvæði um að evangelísk-lútherska kirkjan skuli vera þjóðkirkja á Íslandi (nú 62. gr. stjskr.). Frá 1915 hefur verið heimilt að breyta því fyrirkomulagi sem oft er nefnt kirkjuskipan ríkisins með lögum. Frá 1920 var tilskilið að slík lög skyldi bera undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar (sbr. 2. mgr. 79. gr. stjskr.). Stjórnlagaráð 2011 leggur til í frumvarpi sínu (19. gr.) að heimilt skuli vera að kveða á um kirkjuskipanina í lögum en sé slíkum lögum breytt skuli bera breytinguna undir þjóðaratkvæði.

Raunar má segja að tillaga Stjórnlagaráðs eigi sér aldarlanga sögu en 1911 var lagt til að kirkjuskipanin skyldi ákveðin með lögum. Þá var að vísu litið svo á að um skyldu ætti að vera að ræða en nú 100 árum síðar er rætt um heimild. Þá má raunar líta svo á að tillaga Stjórnlagaráðs sé rökrétt framhald af þeirri þróun sem skapað hefur 62. gr. stjskr. þá sérstöðu sem hún hefur nú, þ.e. að henni megi breyta án eiginlegrar stjórnarskrárbreytingar en þó með beinni aðkomu þjóðarinnar.

Munurinn á núgildandi stjórnarskrárákvæði og tillögu Stjórnlagaráðs er að nú hefur kirkjuskipanin stjórarskrárfestu sem hún mundi glata yrði 19. gr. frumv. samþykkt í óbreyttri mynd. Það er að minnst kosti táknræn breyting. Meðan heimildarákvæðið yrði notað og kveðið yrði á um þjóðkirkju í lögum landsins mundu þau lög þó eiga ákveðna baktryggingu í stjórnarskránni. — Það kann svo að koma spánskt fyrir sjónir að stjórnarskráin hafi að geyma ákvæði sem heimili löggjafanum að setja lög um tiltekið mál. Löggjafinn hefur löggjafarvald í öllum málum sem ástæða þykir að setja lög um og pólitískur vilji stendur til að lögfesta. Þetta sýnir raunar að um málamiðlunarlausn hefur verið að ræða í Stjórnlagaráði.

Sé vikið að breytingaferlinu sérstaklega er stutta svarið við ofangreindir spurningu einfaldlega: Jú, það yrði jafnauðvelt — eða torvelt — í framtíðinni að breyta núverandi kirkjuskipan hvort sem meirihluti verður fyrir Já-i eða Nei-i í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Í báðum tilvikum yrði væntanlega kveðið á um stöðu þjóðkirkjunnar í lögum með einhverjum hærri líkt og nú er gert (sbr. 1.–4. gr.  laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997). Í báðum tilvikum yrði síðan að bera breytingar á þeim lögum undir þjóðina í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er með öðrum orðum sameiglegur þráður í núgildandi stjórnarskrá og frumvarpi Stjórnlagaráðs að þjóðin skuli sjálf hafa lokaorðið um það hvort hér skuli vera þjóðkirkja að ekki. Í því efni hlýtur hún að greiða atkvæði út frá mati sínu á því hvort samhljómur sé enn milli „kirkjuklukkunnar“ og „Íslandsklukkunnar“ svo gripið sé til líkingamáls, þ.e. hvort þjóðkirkja sé líklegri til að efla hér „gróandi þjóðlíf“ eða drepa því á dreif.