11. september 2001 - 11. september 2011

11. september 2001 - 11. september 2011

Hvar var Guð fyrir 10 árum þegar vélarnar sprungu á byggingum World Trade Center? Hvar var Guð þegar fólkið kastaði sér út úr brennandi byggingunum, út í opinn dauðann?

Það hættir aldrei að koma mér á óvart hversu sterkt textar sunnudagana sem lesnir eru við guðsþjónustur í kirkjum landsins tala inn í samtímann. Stundum er eins og viðkomandi textar hafi verið samdir og ritaðir niður fyrir 2000 árum, með viðkomandi sunnudag í huga.

Þannig er það einmitt með guðspjallatexta dagsins í dag, hins 11. september árið 2011.

Af ávöxtunum þekkist tréð – segir Jesús. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóðum en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóðum.

Þann 11. september fyrir nákvæmlega 10 árum, kl. 8.46 að staðartíma í New York flaug flugvél American Airlines flugfélagsins á nyrðri turn World Trade Center. Um borð voru 92 farþegar og flugstarfsmenn sem allir fórust og 1.366 manns fórust við áreksturinn eða voru innikróaðir á þeim hæðum sem ofar voru en árekstrarstaðurinn. Í fyrstu héldu menn að um hræðilegt slys væri að ræða en þegar önnur vél frá American Airlines skall á syðri turninum 16 mínútum síðar varð ljóst að þetta var árás. Fyrir árásunum stóðu 19 íslamskir öfgamenn undir merkjum hryðjuverkasamtakanna Al - kaida. Flugvélaræningjarnir, sem flestir voru frá Saudí Arabíu höfðu rænt flugvélunum skömmu eftir brottför frá flugvöllum á Austurströnd Bandaríkjanna og beittu þeim sem flugskeytum á byggingarnar.

norðurturni World Trade Center voru allar útgönguleiðir þegar lokaðar vegna eldhafsins sem myndaðist. Fólk sem var innilokað hringdi í örvæntingu í ástvini sína eftir hjálp eða til þess að kveðja. Allur heimurinn varð síðan vitni að hinum hræðilegu myndum í beinni útsendingu þegar fólk stökk út úr logandi byggungunum út í opinn dauðann.

Í suðurturninum sluppu aðeins 18 út af þeim 600 sem þar voru innikróaðir áður en turninn hrundi. Kl.10.28 hrundi norðurturninn líka.

Tveimur flugvélum til viðbótar hafði verið rænt. Klukkan 9.37 flaug önnur þeirra á Pentagon, höfuðstöðvar Varnarmálastofnunar Bandaríkjanna. Þar fórust 189 manns.

Kl.10.03 hrapaði fjórða vélin nálægt Shanksville í Pennsylvaniu. Af samtölum við fólk í vélinni í farsímum er það ljóst að farþegarnir og áhöfnin reyndu að yfirbuga flugræningjana. Þó það tækist ekki komu þau í veg fyrir að flugræningjunum tækist að fljúga á Hvíta Húsið eða Þinghúsið í Washington, en slík var talin ætlun þeirra. Flugræningjarnir kusu þess í stað að brotlenda vélinni. Enginn lifði af.

Alls er talið að um 3000 manns hafi farist í þessum árásum. Þar af létu 343 slökkviliðsmenn, 60 lögregluþjónar og 8 heilbrigðisstarfsmenn lífið við björgunarstörf.

Mörg okkar munum vel eftir þessum degi. Hér við Hafnarfjarðarkirkju átti til dæmis að hefjast fullbókað hjónanásmkeið þá um kvöldið. Því var sjálfhætt, enda hringdu pör inn allan daginn til að afboða sig. Fólk var í áfalli og allir vildu fylgjast með framvindu mála.

Í október sama ár gerðu Bandaríkjamenn innrás í Afganistan til að knésetja Talibana er veitt höfðu Al- kaida hæli í landinu og áið 2003 réðust þeir gegn Írak. Í kjölfar alls þessa fylgdu fleiri hryðjuverkaárásir og mannvíg, mannréttindabrot og fjöldamorð. Enginn veit hversu margir hafa látið lífið í þessum hildarleik sem er langt í frá lokið.

Af ávöxtunum þekkist tréð – sagði Jesús.

Ávextir þeirra trúarleiðtoga, stjórnmálamanna og fræðimanna sem eitruðu huga ungu mannanna 19 er rændu flugvélunum og myrtu þúsundir – ávextirnir segja allt sem segja þarf um þá. Af ávöxtum þeirra þekkjast þeir. Ávextirnir eru morð og dauði og sorg og hörmungar. Við hljótum öll að fordæma slíka menn , fordæma boskap þeirra, hatrið og eitrið sem er ávöxtur verka þeirra.

Ávextir áratugar stríðs í Afganistan og Írak eru líka öllum sýnilegir. Þeir eru dauði og sorg , mannréttindabrot og hörmungar sem ekki sér fyrir endan á. Við hljótum öll að fordæma þau mannréttindabrot sem allir stríðsaðilar þar hafa gert sig seka um og biðja þess að Guð stöðvi þær mannfórnir sem eiga sér stað daglega í hinum stríðshrjáðu löndum.

Já, Guð.

Hvar er eiginlega Guð í öllum þessum hörmungum?

Hvar var Guð fyrir 10 árum þegar vélarnar sprungu á byggingum World Trade Center? Hvar var Guð þegar fólkið kastaði sér út úr brennandi byggingunum, út í opinn dauðann?

Hvar er Guð í Guantanmó fangabúðunum, sem hafa orðið tákn fyrir mannréttindabrot Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í stríðinu gegn hryðjuverkunum? Hvar er Guð þegar sprengjurnar springa og sakleysingjarnir deyja eða limlestast? Hvar er Guð þar sem pyntingar eru daglegt brauð?

Er nema von að spurt sé.

Margur ályktar efalaust sem svo að Guði sé sama um afdrif okkar mannanna. Annars hlyti hann að grípa inn í með sínum volduga armlegg eins og segir í Gamla testamentinu og stöðva þessar hörmungar allar – stöðva grimmdina, mannhatrið og miskunnarleysið.

Af ávöxtunum þekkist tréð – sagði Jesús.

Hverjir eru ávextir Guðs ef við berum þá saman við þessa atburði alla?

Við höfum einu sinni, mennirnir, fengið að sjá Guð, horfa auglitis til auglitis í andlit hans, halda í hönd hans. Það var hönd og auglit Jesú frá Nasaret. Hann strauk okkur um vangann, læknaði sjúka, bað fyrir óvinum sínum, blessaði börnin. Hann boðaði frið og kærleika, að sérhver maður ætti að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig, að allir ættu að leitast við að gera öðrum það sem þeir vildu að þeim sjálfum yrði gert.

Hann bað fyrir hinum útskúfuðu, borðaði með hinum fyrilitnu, blessaði þá sem aðrir vildu grýta.

Ávextir boðskapar Jesú voru kærleikur, gleði, friður, von, góðvild.

Þennan Jesú krossfestum við mennirnir. Þannig mátum við ávexti hans.

Er nema von að saga heimsins sé eins og hún er?

Sá Guð sem hékk á krossinum í Jerúsalem forðum daga, hann var í dauðanum og á krossi lífsins með fórnarlömbum Al-kaída i World Trade Center fyrir tíu árum. Það er ég sannfærður um. Þegar fórnarlömbin stukku út um gluggana á háhýsunum eða fórust í flugvélunum, við hjálparstörf eða á öðrum vettvangi, þá var Guð mitt á meðal þeirra. Hann var líka hjá aðstandendunum og ástvinunum sem sátu heima grátandi og örvæntingarfull.

Ég trúi því að Guð hafi verið með í þessum flugvélum.

Ég trúi því að hann hafi verið með hverjum og einum sem sat i sætunum sínum og beið, varnarlaus dauðans.

Á sama hátt er ég sannfærður um að hann var með börnunum og sakleysingjunum sem féllu og falla hvern dag í Afganistan, Írak, Pakistan, Líbíu, já hvar sem myrkrið nær yfirhöndinni í heiminum.

Enginn maður fellur til jarðar án vitundar Guðs. „Hann vor telur höfuðhárin ,heitu þerrar sorgartárin“ orkti sr.Friðrik Friðriksson. Enginn maður lætur lífið án þess að Guð gangi í dauðann með honum.

Og ég trúi því að þessi Guð sem var krossfestur eitt sinn fyrir óralöngu í Jerúsalem, að hann leiði manninn til nýrrar tilveru handan dauðans, þar sem hann þurkar hvert tár af hvörmum okkar eins og segir svo fallega í Opinberunarbók Jóhannesar.

Á tímamótum eins og þessum tíu ára minningardegi hryðjuverkárásanna er mikilvægt að spyrja um ávexti mannanna verka eins og Jesús gerir í guðspjalli dagsins.

Það er nefnilega ekki sama hvaða boðskap við aðhyllumst.

Það er ekki sama hvað við viljum hafa að leiðarljósi í lífinu, sem einstaklingar og samfélag.

Allt hefur sínar afleiðingar.

Líka það að taka ekki afstöðu gegn hinu illa.

Af ávöxtunum munum við þekkja verk mannanna.

Ef atburðir undanfarinna 10 ára geta kennt okkur eitthvað, þá er það að hafna ávöxtum öfgamanna, hvort sem þeir kalla sig kristna, múslíma, hindúa, gyðinga, búddista eða kenna sig við trúleysi og húmanisma.

Það eru engar einfaldar lausnir til.

Mannkyn allt stendur andspænis miklum vanda.

Hungur, fátækt, mannréttindabrot, stríð, mengun, ójöfnuður, fordómar, umburðarleysi, kynþáttahatur.

Þessir eru ávextir græðginnar og kærleikslausrar veraldar.

Eina færa leiðin til betri framtíðar fyrir alla, er að taka höndum saman, í nafni kærleikans, þvert á öll trúfélög og alla isma, í nafni hins góða, í nafni friðarins, í nafni umburðarlyndis og góðvildar og sá þannig fræum sem geta orðið öllu mannkyni til góðs.

Mika spámaður í Gamla testamentinu sagði reyndar að þetta væri ekki flókið mál.

Hann sagði:

Maður þér hefur verið sagt hvað gott er

og hvers Guð væntir af þér.

Þess eins að þú gerir rétt,

ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.

Ég kalla þetta garðrækt kærleikans. Slík garðrækt ber ekki ávöxt á einni nóttu. Við skulum gera okkur grein fyrir því.

Hún mun kosta fórnir.

Hún mun mæta andspyrnu öfgamanna.

Hún mun verða aðhlátursefni þeirra sem trúa vald hefndar og vopna.

En ef góðir menn um alla veröld bera gott fram úr góðum sjóðum hjartans,eins og Jesús hvetur okkur til að gera í guðspjalli dagsins, þá mun Guð sem er kærleikur, gefa margfaldan ávöxt í kærleika.

Og slíkir ávextir eru, þegar upp er staðið, eina von mannkyns.

Við skulum að lokum fela framtíð okkar Guði með bænarorðum sálmsins sem unglingakórinn söng hér fyrr:

Góði faðir, gef oss frið og göfga hug og sál.

Glæð í hjarta trú og traust og tendra kærleiksbál.

Góði Jesú gef oss frið og gæt vor sérhvern dag.

Í leik og starfi styður þú og styrkir allra hag.

Helgur andi, fær oss frið og föllnum heimi grið,

svo hér í sátt og samlyndi æ saman búum við.

Í Jesú nafni amen.